Sumum finnst líkt og sérhvert skref sé skref sem þurfi ekki að taka, öll sú hreyfing sem við framkvæmum sé í raun með öllu tilgangslaus, því eftir eitt skref er hvort eð er annað eins sem bíður okkar, takmarkið er orðið svo óljóst að sumir eru hættir að hafa fyrir því að spyrja sig sjálfa spurninga sem vissulega er eitt skref af mörgum.

Á móti mér bjó maður, sennilega orðin rétt rúmlega þrítugur, hann var ávallt vel til fara í jakkafötum frá Sævari Karli og vann að ég held við fasteignasölu. Hús hans var gamalt og látlaust og sjálfur keyrði hann um á jeppa, hvaða gerð veit ég ekki. Þessi maður, sem ég kallaði bara Jón, átti myndarlega konu og tvö börn á unga aldri. Að útlitinu að dæma þá virtist hann vera frekar fastur í lífsgæðakapphlaupinu sem var sennilega allt í lagi því samfélagið boðaði það líkt og lög væru.
Ég hafði aldrei talað við hann en fylgdist mikið með honum sökum þess að mér finnst mannskepnan mjög áhugaverð í sinni víðustu skilgreiningu, en einn daginn gengur hann yfir til mín þar sem ég lá úti á verönd að sóla mig í góðu veðri.
- Góðan daginn.
Segir hann og ég reisi mig upp og endurgalt kveðjuna.
- Góðan daginn.
- Magús heiti ég og bý hér á móti þér.
Ég kvaðst vita það og kynni mig sjálfan í kjölfarið og bæti við hvort ég geti aðstoðað hann á einhvern hátt.
- Ég fékk bréf um daginn sem var ekki stílað á neinn, og ég var að íhuga hvort þú hefði nokkuð vænst slíks bréfs undanfarið.
- Nei.
Svara ég og spyr hvort ég megi vera svo frakkur að spyrja um innihaldið, það er að segja ef hann hefði opnað það. Hann segir að hann hafi opnað það og í bréfinu hafi aðeins staðið ein dálítið undarleg setning.
- Nú, hver var hún?
Spyr ég fullur af ósviknum áhuga.
- Hvað áttu? Var setningin.
segir hann.
- Það er vissulega undarlegt.
Segi ég og spyr svo.
- Var krafist þess að þú svaraðir bréfinu?
- Nei, allavega var ekkert heimilisfang á bréfinu.
Segir hann.
- Var bréfið handskrifað?
Spyr ég vongóður um að finna lausn.
- Nei það var vélritað.
- Veistu hvers vegna þú fékkst þetta bréf?
Spyr ég, þó vitandi um svarið.
- Nei.
kvað hann líkt og ég bjóst við. Ég bið hann um að láta mig vita ef hann skyldi fá annað svona dularfullt bréf. Hann sagðist gjöra svo og þakkar mér óvenjuvel fyrir.
Tveimur dögum síðar kemur Magnús til mín aftur og segir að sagan sé nú búin að endurtaka sig, hann fékk nýtt bréf sem innihélt sömu spurningu og það fyrra. Dálítið áhyggjufullur fer hann að viðra þá kenningu að þetta gæti verið einhver þjófur sem væri að senda þetta bréf, ég geri honum grein fyrir því að þjófar stunda það ekki að spyrja menn hvað þeir eigi og bæti við að það væri bæði heimskulegt og jafnframt ólíklegt. En ég spyr svo.
- Og hvað áttu?
Hann lítur á mig undrandi á svip og svarar hálf óöruggur.
- Ja…ég á bíl, hús og vinnuna mína, svo höfum við hjónin lagt pening til hliðar í nokkur ár þannig við eigum einhverja summu í banka, og ég er reyndar líka að láta byggja fyrir mig sumarbústað á Grímsnesi.
Ég segi við hann að þetta sé svo sem heilmikið en haldi þó sjálfur að kannski felur spurningin ekki í sér það sem er veraldlegt. Magnús verður dálítið hvumpinn og spyr.
- Hvað í ósköpunum er þá átt við.
Ég kveðst náttúrulega ekki vita það og haldi að frekar liggji svarið hjá honum, ég bæti svo við áður en ég kveð að ef hann fái annað bréf þá megi hann auðvitað leita til mín. Magnús þakkar fyrir sig og gengur þungbrúnn frá mér.
Dagarnir liðu og engin ný bréf bárust til Magnúsar, vikurnar liðu og ekkert gerðist. Ég sá lítið af Magnúsi, sennilega sökum þess að hann vann mikið og sjálfur gerði ég lítið annað en að þræða kaffihúsin og barina, þau fáu skipti sem ég var farinn að sjá Magnús þá snerust samræðurnar aðallega um nýja sumarbústaðinn í Grímsnesinu og hversu dýrt það væri að reisa slíkan. Magnúsi fannst það hreinasta hneisa hversu dýrir iðnaðarmenn væru og allt efni sem þurfti í bústaðinn. Sjálfum leiddist mér þessar samræður og var farinn að leggja það í vana að forðast Magnús.
Tveim mánuðum síðar frétti ég það að Magnús hafði látist í bílslysi aðeins 35 ára gamall. Af einhverjum ástæðum fannst mér ég vera knúinn til þess að votta ekkjunni samúð mína þannig ég fór til hennar. Sorgin var mikil og mat hún stuðnings míns mikils og segir mér að hún hafi fundið bréf frá Magnúsi til mín, ég var auðvitað nokkuð undrandi og tók við bréfinu með þökkum og kvaddi kurteysislega. Ég gekk niður á næsta kaffihús og opnaði bréfið, sem hljóðaði svo:

Allslaus

Sumum finnst líkt og sérhvert skref sé skref sem ekki þurfi að taka, öll sú hreyfing sem við framkvæmum sé í raun með öllu tilgangslaus, því eftir eitt skref tekur hvot eð er annað eins við. Takmarkið virðist vera orðið svo óljóst að sumir eru hættir að spyrja sig sjálfa spurninga sem vissulega er eitt skref í áttina af mörgum. En sjálfur var ég áttavilltur, ég vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga og ég sá ekki afhverju ég ætti að stíga í hann. Ég hugsaði lengi vel um það sem ég átti og komst svo að því að ég átti ekkert, ég var allslaus, einhver veruleiki sem þjáðist af tilvistarleysi. Hvers virði er að lifa allslaus? Það mun sennilega koma þér á óvart að bréfin sem ég fékk send voru skrifuð af mér sjálfum. Þetta atferli mitt er undarlegt og að öllum líkindum dónalegt gagnvart þér sökum þess að ég íþyngdi þér með uppspuna. Ég biðst afsökunar.

Með von um góða lífdaga Magnús.



Ég varð undrandi eftir lestur þessa bréfs, því ekki gat hann hafa skrifað þessi bréf því það var ég sem skrifaði bréfin, en eins og ég sagði þá hef ég mikinn áhuga á mannskepnunni.