Ég vakna um 7 á föstudagsmorgni og fer í heita sturtu til að vekja mig að einhverju leyti, fer svo fram og drulla mér í drullugallann. Ég fæ mér svo morgunverð af einföldustu gerð því að ég er að flýta mér, vinnan kallar, bíllinn startar. Ég þarf ekkert að keyra í vinnuna, það er svona korters labb í vinnuna, en hér keyra allir í vinnuna, 10 mínútur í svefn í viðbót, það er í lagi.
Allir eru að fara að vinna, fiskivinna, fiskifýla umlykur hvern íbúa á fætur öðrum. Hér kemur öll vinna fiski við, ef menn eru ekki með hendur á kafi í fiski alla daga eins og sjómenn og fiskvinnslufólk, þá vinnur það á stað sem þjónar sjómönnum og fiskvinnslufólki. Og ef fólk er ekki á leið í vinnu, er það að fara í skóla til að læra eitthvað af viti en fær svo á endanum leið á því öllu saman, losnar upp úr námi og fer að vinna í fiski. Allir vinna í fiski
Í hádeginu fara allir í bankann og taka út sjóði sína. Það er föstudagur í dag og allir fara í ríkið í dag því allir verða fullir í kvöld. Ríkið er í bókabúðinni, mannfjöldinn skeiðar framhjá brunni sköpunargleðinnar að brunni gleðilyfjanna og menn hripa niður lyfjaglösin í fang sér og hlaupa að afgreiðsluborðinu, hinum megin við afgreiðsluborðið sjá þau allt í móðu, ekkert áhugavert þarna.
Svo er klukkan að ganga fimm og allir að bruna heim, klukkutími í sjónvarpsgláp og svo er tími til að elda kvöldverð, allir borða kvöldmat klukkan 7 og eftir góða magafylli liggur leiðin í eitthvert teitið, því allir eru að fara að drekka í kvöld.
Ég bruna í partýhúsið, það er allt í lagi, bíllinn verður bara eftir þar, eða kannski keyri ég, það gera það allir. Ég sest niður eins og allir aðrir og opna bjór eins og allir aðrir. Eftir nokkra bjóra er tími kominn til að kíkja á kvenfangið, kyssi kannski eina, og það er allt í lagi þó að ég eigi kannski kærustu, því hér halda allir framhjá, og á morgun vita allir af því að ég kyssti stelpu í partýi og kærastan sé hætt með mér því að hér tala allir um allt um alla. En það er allt í lagi, ímyndaðu þér greyið stelpuna sem ég kyssti, hún er drusla.
Klukkan 2, kannski 3, leggja allir af stað niður á pöbbinn. Úr þessari skemmtun og niður á pöbb liggur leiðin fram hjá kirkjunni þar sem séra Jóna, sem á ógrynni af stúlkum, er prestur. Ekki er kirkjan beint eins troðinn á sunnudögum og pöbbinn er þennan föstudag. Ætli menn hafi misst trúna í takt við sjómennina í gegnum tíðina.
Pöbbinn er troðinn út að dyrum og hvergi er sæti að finna fyrir mig, en það er svo sem í lagi, ég dansa þá bara taktlaust út í nóttina meðan óþekkta sveitaballahljómsveitin Kúrsus slær taktinn. Allir fá sér eina kollu á barnum og allir sulla smávegis á gólfið, því það er nú svo troðið. Því lengra sem líður á kvöldið getur maður varla gengið fyrir klístri á gólfinu.
Klukkan hálf 6 er öllum hent út og fyrir utan pöbbinn eru allir ósáttir og allir fara að slást, eða allir fylgjast með öllum slást og allar konurnar reyna að koma í veg fyrir að allir fara að slást. Slagsmálin hófust á því að einn hafði haldið fram hjá frænku besta vinar síns með kærustunni hans sem var dóttir eiganda eins fiskvinnslufyrirtækisins í bænum, en hún vann fegurðarsamkeppni suðurlands einhvern tímann.
Eftir að erjurnar hafa verið stöðvaðar og löggan búin að skerast í leikinn er tími til að allir komi sér heim. Ætli ég sofi ekki til svona 4-5, panti svo bara pizzu. Það er líka gott að vera svo útsjónarsamur að hafa keypt nóg áfengi svo að ég gæti líka drukkið annað kvöld. Ætli allir hafi ekki gert það sama?
Kíkið endilega á síðuna mína www.folk.is/nixey