Tilvísunarfornafn er ekki eins og greinirinn í þágufalli fleirtölu…….og svo sá ég bara munninn á kennaranum hreyfast. Í mollulegri þýskustofunni, þar sem við sátum 22 ungar námsmeyjar, var einbeitingin fjarri góðu gamni. Klukkan var tíu að morgni dags og við höfðum nýlega lokið við að horfa á Atómstöðina í íslensku. Kjarnorkuógnin var mér enn ofarlega í huga þá stundina. Um leið og þýskutíminn hófst byrjaði að drynja í Gamla Skóla. Herþoturnar flugu yfir Pollinum og engu líkar var en allur tiltækur flugher Bandaríkjamanna hefði ráðist inn í landið. Umburðarlyndinu var ekki fyrir að fara hjá okkur meyjum. Mikil gremja og reiði skein úr 44 augum sem störðu svo stíft út um gluggan að mikil mildi þótti mér að glerið hélt. Ótrúlegt hvað þrjár litlar flugvélar geta valdið miklu tilfinningasveiflum. Þó var þetta ágætis ástæða til að hugsa um eitthvað annað en yfirvofandi lokapróf í þýsku. Ég horfði á kennarann og hlustaði á drunurnar. Ég ímyndaði mér hvenar kæmi að því að sprengjum yrði varpað á okkur samsærismennina. Á eftir erfiðu samhljóðasambandi seturðu alltaf e endingu. Smá hlé á drununum. Örvænting vegna áðurnefndra prófa helltist en og aftur yfir.

Aðra stundina hugsar maður um það hversu líklegt það er að við verðum sprengd í loft upp, en óttinn vaknar ekki innra með manni fyrr en maður hugsar um möguleikann á að falla á prófi. Þá fyrst eru draumar manns og framtíðaráætlanir í rúst. Sprengjuógnin er ekki hluti af okkar raunveruleika. Hún er jafnvel nær Uglu. Guðirnir og organistinn eru menn sem ég hefði gjarnan viljað sitja með í eldhúsinu. Hvað þarf til að vekja okkur upp?

Aftur hóf skólinn að titra, loftið hristist og ljósin sveifluðust til og frá. Þetta vakti almenna skelfingu. ,,Getur einhver stoppað þessa vitleysinga………………………..maður hleypur ekki uppi á gangi."