Mér leikur smá forvitni á að vita hvernig fólk hér aðhefst smásagnaskrifin. Þá á ég við eins og hvort, og þá hvernig þið skipuleggið smásöguna eitthvað fyrirfram, hvort að einhver hugsun sé á bakvið söguna, eða hvort þið hrúgið bara útúr ykkur eins mörgum flottum orðum og þið munið það augnablikið og myndið úr þeim einhverjar hjástemmdar setningar?
Eru smásögurnar ykkar afrakstur góðrar hugmyndar sem þið fáið, eða koma góðu hugmyndirnar sem afrakstur smásagnanna sem þið skrifið.
Ég hef verið að lesa mikið hérna og að mínu mati er hér mikið af virkilega áhugaverðum og góðum sögum, en að sama skapi margt af miður skemmtilegum, eða vel skrifuðum sögum. Það er samt dálítið eins og margar sögurnar hérna séu bara flaumur orða sem höfundum finnst flottur, og ítrekaðar tilraunir til að vekja einhverskonar hughrif á lesandanum í formi fagurfræðilega hátíðlegra orða í stað áhrifaríkra atburða. Einhver spurði, hvort það hafi verið á þessu áhugamáli eða ljóða, í korki eða grein, hvort markmið höfunda væri að láta mann fara að gráta, því honum fyndist það skína svo í gegn. Ég er að dálitlu leyti sammála þessum einstaklingi, því mér finnst dáldið eins og verið sé að rembast við að vekja upp einhverjar tilfinningar í lesandanum, og með því missir sagan dálítið af einlægni… en er þetta tilfellið; er verið að gera allt til að vekja upp tilfinningar?

Bandaríska Nóbelsverðlaunaskáldið William Faulkner sagði einhverju sinni að sagan hans “Ljós í ágúst”, sem er meðal hans frægustu og bestu verka að mati gagnrýnenda um víðan heim, hafi byrjað á mynd sem hann hafði í huganum af ungri ólettri konu í vegkanti. Er tilfellið eitthvað svipað hjá ykkur; verður sagan ykkar til útfrá mynd í hausnum á ykkur? (Þess má geta að Ljós í ágúst kom út að ég held í fyrra í fyrirtaks íslenskri þýðingu Rúnars Helga Vignissonar rithöfunds)

En um þessi atriði hafa vaknað spurningar hjá mér þegar ég les yfir þessar sögur, og nú vantar bara svör?
-I don't really come from outer space.