Einhversstaðar í raunveruleikanum hringdi bjalla. Hún rétti syfjulega úr sér og leit upp. Klukkan á veggjunum tjáði henni að seinni stærðfræðitíminn væri að hefjast. Þessi leiðinlegi skóli myndi halda henni fanginni í heilan tíma í viðbót. Hún vildi flýta sér í garðinn. Biðin hafði verið löng.

Kennarinn var að fara yfir prófið sem bekkurinn hafði tekið í fyrradag. Hún hafði engan áhuga á að fylgjast með, prófblaðið hennar lá óhreyft á borðinu og broskallinn sem kennarinn hafði teiknað í rauðu við hliðina á tíunni brosti glottandi til hennar. Hann minnti hana á glottið sem stærðfræðikennarinn setti upp þegar nemandi bað hann að útskýra fyrir sér langt dæmi. Stærðfræðikennarinn elskaði stærðfræði.

Hún leit aftur á klukkuna. Þrjátíu mínútur eftir af tímanum. Bráðum kæmist hún burt úr þessu lífi hversdagsleikans og fengi aftur að hvíla í örmum hans. Hún lagðist aftur fram á borðið. Það var nægur tími. Ætli hann biði líka spenntur? Hann hafði lofað að taka hana með í þetta skipti.

Hún hrökk upp úr hugleiðingunum við að bjallan öskraði. Leit upp og sá að tíminn var búinn. Hjartað í henni hoppaði. Nú fengi hún loksins að fara. Hún greip pennaveskið og ætlaði að stinga því niður í tösku þegar hún heyrði kennarann tala: ,,Bíðið, við skulum klára þetta, tekur ekki nema 5 mínútur."

Ansans. Hún yrði sein. Ætli hann færi án hennar? Er himnaríki opið allan tíma sólarhringsins? Hún sat og starði á klukkuna. Fóturinn á henni iðaði. Hún reyndi að beita viljakrafti til að fá kennarann til að fara hraðar yfir. Svo var það búið. Hún greip úlpuna og flýtti sér út. Hún minntist bílsslyssins þennan sama dag fyrir ári. Hversu mikið hún hafði grátið þegar hún hafði heyrt af andláti hans.

Veðrið var grátt en hún tók ekki eftir því. Flýtti sér bara eftir gangstéttinni. Hann færi. Hún var viss um það. Aldrei hafði hún tekið svona stór skref á ævinni. Dauðinn nálgaðist.

Loks kom hún að hliðinu. Inni í garðinum var hljótt og kyrrt, hann var eins og augað í hvirfilbyli borgarinnar. Hún gekk hratt milli leiðanna. Hún var alveg að koma. Hann yrði ekki farinn án hennar. Ekki aftur.

Þá sá hún hann. Hann stóð fölur við leiðið sitt og horfði út yfir tjörnina, alveg eins og hún hafði séð hann síðast. Hann hafði ekkert breyst síðan fyrir ári. Hann sneri sér við. Hafði hann skynjað komu hennar?

Hún gekk brosandi til hans. Hann brosti á móti, tók hönd hennar og þau svifu burt á vængjum hamingjunnar.