Mér finnst alltaf fyndið þegar einhver byrjar fullsnemma að undirbúa forsetaframboð sitt. Ég þekki nokkra, þó undarlegt megi virðast. Og ég er ekki að draga úr þegar ég lýsi þeim. Þessir sniðugu einstaklingar eru langsamlega skemmtilegastir einstaklinga. Ég segi það satt. Segjum sem svo að þú hittir einn á gangi niðri í bæ. Þið þekkist alls ekki vel. Þú ert meira að segja örlítið “lægra settur”, ef svo mætti að orði komast. Forsetaframbjóðandinn okkar er “hærra settur”. Og við erum að tala um að þið eruð um tvítugt. Allt í lagi. Aðstæðurnar eru komnar. Þú ætlar ekki að segja hæ, þar sem þið þekkist afar lítið. En forsetaframbjóðandinn hugsar alltaf fram í tímann. Og nú dettur honum í hug að gott væri að ná til hinna “lægra settu” einmitt á þennan máta, það er, að heilsast á götum úti. Þannig er hann með kjósendur á meðal þinnra líkra. Þú sérð kannski í gegnum þetta athæfi. Kannski ekki. Ég spyr sjálfa mig, hvort allir sjái í gegnum þetta. Og ég held ekki, þó svo að þú gerir það kannski. En aftur að mótunum. Frambjóðandinn sér þig, þú sérð hann. Hugsunin lýstur sér niður í hann, áður en hann veit af, og hann kinkar kolli mjög vinalega og gengur til þín, þar sem hann var hinum megin við götuna áður. Þar sem hann er sterkari aðilinn segir hann fyrst hæ. Þú ert ekki feiminn við hann, þér er bara svolítið brugðið. Við hin skiljum það. Mér blöskrar svona atferli. En þú ert kurteisari en ég, og svarar af mestu kurteisi kveðjunni. Nú ljómar frambjóðandinn allur upp. Hann sér að þú hafir ekki tekið illa í kveðjuna, og sér sér fært að fara aðeins lengra og spyrja um haginn. Kannski blöskrar þér núna. En frambjóðandanum þykir ekkert eðlilegra, þar sem hann hefur verið að vinna í undirbúningnum í fimm ár nú þegar. En þar sem þú sérð í gegnum allt atferlið, og þekkir vel til samt leyndra fyriráætlana hans, svarar þú eins og ekkert sé. Frambjóðandinn telur þig ekki ýkja gáfaðan, og að hann sé kominn með enn eitt fórnarlambið í sigtið. Enn eitt auðfengið atkvæði. En það er hann sem er miður glöggur. Eða, ég veit ekki hvort hann gerir sér grein fyrir yfirborðslegri nálgun sinni. Ég verð að taka það fram, að ég hef ekki alfarið áttað mig á þessum einstaklingum. Það er, hvort þeir geri sér grein fyrir hversu yfirborðslegir þeir eru. Það verður að liggja á milli hluta. En, já, aftur að samtalinu. Þú hefur svarað spurningum frambjóðandans um hagi þína. En þar sem þú vilt með engu móti halda áfram spjallinu, spyrðu ekki á móti. Frambjóðandinn vill heldur ekki tala um þá. Hann hefði að öllum líkindum logið hreint út. Svo þið komist báðir afar létt frá því. Frambjóðandinn er líka mjög feginn þegar þú, að fyrra lagi, segist nú þurfa að koma þér. Það sæmir ekki forsetaframbjóðanda að hafa ekki tíma fyrir kjósendur. Forsetaframbjóðandinn gengur sáttur frá borði. Kominn með enn einn kjósanda í vasann, og ef til vill fleiri, þar sem þú munt segja öllum vinum þínum frá þessum afar kurteisa einstaklingi. Kannski falla vinir þínir samt í gryfjuna. En þú veist betur. Og þú gengur frá mótum þínum við frambjóðandann hlæjandi. Þú ætlar að skila auðu.