1.Kafli
(Hvers vegna þarf það að vera sárt að vera ástfanginn?)
Það að ég sitji hérna sveittur og þreyttur er það ekkert óeðlilegt, ég vakna oft upp af þessum martröðum og ligg andvaka í rúminu heilu næturnar, það sem mér ekki líkar er að þetta er alltaf sama martröðin og hún endar allaf á sama hátt, ég er að hlaupa undan einhverju sem ég þekki ekki og það eina sem ég veit er að ef það nær mér þá er ég dauður, og alltaf þegar það er að ná mér og ég sný mér við til að líta í andlit kvalara míns þá vakna ég upp, kófsveittur og titrandi, hræddur við eitthvað sem ég veit ekki hvar og hvenær á eftir að ráðast á mig, en innst inni veit ég að það á eftir að gerast.

Ég er núna staddur inni í herberginu mínu hérna á heimavistinni, það er eins vistlegt og nokkurt herbergi sem ég bý í getur orðið, rúmfötin mín á gólfinu og óhrein föt frá síðustu viku um allt, í ruslafötunni, sem liggur á hliðinni er áhugaverð gerlaræktun, lyktarmikil og litfögur, en samt ekki hættuleg, ennþá.

Ég staulast á fætur og fer inn á klósettið, pissa og lít á spegilinn, á honum standa skilaboð frá Danna herbergisfélaga mínum “Gefðu fiskunum, ÞRÍFÐU herbergið og vökvaðu kaktusinn glaðningurinn þinn er í nærfataskúffunni”. Danni ætti að vera mamma mín, hann hugsar alla vega meira um mig en hún og hann drekkur líka minna en hún. Að vísu er skúffukakan hans ekki jafn góð og hennar, en það kemur út á eitt, hún hefur ekki bakað hana í fimm ár, held ég, annars man ég það ekki og er sama. Ég vildi alla vega að mér væri sama, en ég fæ alltaf kökkinn í hálsinn þegar ég hugsa um þessa helvítis köku.

Ég opna nærfataskúffuna og brosi, páskaeggið sem ég fæ er alltof stórt, svona er Danni fífl alltaf, alltaf að hugsa um aðra en sjálfan sig, hann er alltof góður í sér, hugsa ég og ríf plastið, fæ samviskubit og læt eggið aftur ofan í skúffu, það fær að bíða fram á páskadag, það er nú það minnsta sem ég get gert.

Klukkan er ekki nema hálf níu að kveldi, ég klóra mér í hausnum og klæði mig, lít í spegilinn og velti fyrir mér hvort það séu veitt fegurðarverðlaun fyrir augnpoka, ég lít út fyrir að hafa setið að sumbli í að minnsta kosti viku, sem er kannski ekki svo fjarri lagi, þrír dagar bara að vísu en samt erfiðir þrír dagar og lítið sofið að undanförnu.

Ég fer fram berfættur og sé strax eftir því, gólfið er kalt og ég fer inn og næ mér í inniskó og fer síðan fram og finn sökudólginn, opinn glugga í enda gangsins, það er meira að segja kominn smá snjóskafl við hann og ég átta mig á því að veðrið sem spáð hafði verið að myndi ekki koma fyrr en á morgun er mætt á staðinn, það hvín í þakplötunum og komin snjómugga fyrir utan gluggann.

Ég sný við og rölti eftir ganginum og beygi inn í sjónvarpsholið, þar situr Anna Sif súr á svip og þykist vera að horfa á sjónvarpið, ljóshærð, leggjalöng og grönn, hárið liðað og þessi augu eru hönnuð til að veiða karlmenn, ég veit alveg hvað hún er að gera, hún er að bölva Snotra, kærastanum sínum, í huganum. Hann heitir reyndar Sigurður Hlöðver Ágústsson en við köllum hann flest Snotra þegar hann heyrir ekki til því hann er svo helvíti fínn og góður alltaf, bölvað merkikerti, með kústskaft í rassgatinu.

Það er rétt, ég þoli hann ekki.
Ég geng til hennar og spyr smeðjulega “er eitthvað gott í sjónvarpinu”, hún lítur á mig með fyrirlitningarsvip, eða allavega hennar útgáfu sem er ekkert rosalega sannfærandi, “Æi þegiðu Maggi, þú veist alveg að ég er að bíða eftir Sigga”.

Ég glotti og hún glottir, við erum vinir, eða allavega vorum það þangað til að hún byrjaði með Snotra, síðan þá hefur hún lítinn tíma haft til að hanga með mér, en það er alveg sama, mér þykir vænt um hana. “Hva er Snotri kallinn ekki kominn ennþá, hringdi hann ekki” uppgerðar undrunarsvipurinn á mér er nokkuð góður, en hún sér í gegnum mig, hún gerir það alltaf. “Hann heitir Sigurður, ekki Snotri og hann nær bara ekki í gegn en ég veit að hann er að reyna að hringja” hún er meira að reyna að sannfæra sjálfa sig um þetta en mig og mér líður strax illa að hafa verið að stríða henni og sest bara þegjandi við hliðina á henni og fer að horfa á sjónvarpið

Einhver þýsk lögga með þjálfað bjarndýr er að elta uppi pólska dópsala, sem hafa myrt konu hans og barn, einhvern veginn hef ég meiri samúð með pólverjunum en með löggunni, þeir verða bráðum étnir af stórum brúnum skapvondum birni sem er kallaður Alfonz, en mér verður ekki að ósk minni. Löggan og björninn leysa málið án blóðsúthellinga og myndin endar á því að björninn rænir kleinuhringjum félaga löggunnar og löggan grætur á leiði konu sinnar, sem virðist heita Peter Strumpfendorf samkvæmt áletruninni á legsteininum.

Eftir að myndinni lýkur birtist snoppufríð ljóska sem fullvissar okkur um að von bráðar muni hefjast þættir sem fjalli um ævintýri löggunar sem átti konu sem hét Peter og bjarnarins Alfonz. Anna sem var alveg jafn bergnumin yfir allri þessari spennu og hasar og ég, lítur á mig og spyr spurningarinar sem ég er búinn að kvíða fyrir að heyra í allan dag, “hvenær ferð þú svo heim”, ég brosi vandræðalega og reyni að útskýra fyrir henni að foreldrar mínir séu í útlöndum að vinna í kynningu á fyrirtæki pabba og komist ekki heim fyrr en eftir páska og að amma mín sé veik og ég hafi fengið leyfi til að vera hérna á vistinni yfir hátíðarnar.

Sagan virðist vera aðeins of æfð því að ég sé grunsemdarblik í augunum á Önnu en hún lætur gott heita, hún er alltof góð fyrir Snotra fífl hugsa ég og þykist horfa á auglýsingarnar í imbanum. Mér tekst samt ekki að hætta að hugsa um lygina sem rann upp úr mér eins og þykkur grautur.
Pabbi er svo sem í útlöndum, þriggja vikna fríi á Kúbu með einkaritaranum/kærustunni og er örugglega búinn að vera fullur allan tímann meðan mamma er á Kleppi í þriðja sinn á tæpum tveimur árum, í þetta sinn fór hún ekki sjálfviljug, systir mín kom að henni þar sem hún var að stúta vodkaflösku og svefnpilluglasi heima og það rétt tókst að dæla upp úr henni. Systa hringdi í mig og sagði mér frá þessu og þó að ég sé yngri en hún lenti það á mér að vera sterkari aðilinn, mér tókst að róa hana og tala hana í aðeins betra skap, og ég þakka fyrir að hún er flutt að heiman.

Þetta gerðist fyrir þremur vikum og í síðustu viku hringdi félagsráðgjafinn hennar mömmu í mig og spurði mig hvort ég vildi hitta hana um páskana, ég hló að henni og spurði hana hvort hún væri líka vistuð á Kleppi og skellti síðan á hana og bölvaði. Síðan þá hafa martraðirnar færst í aukana.


Jæja þetta er frumraun mín í smásagnagerð og þar sem ég er enginn ofurpenni, langar mig bara til að nota þennan vettvang til að kasta henni fram, þetta er fyrsti hluti af … nokkuð mörgum… þannig að ef undirtektir verða góðar þá kemur kannski meira einhverja næstu daga.