Hvernig gat hann verið svona sjálfselskur og ósanngjarn? Hún leit út um rúðuna farþegamegin og andvarpaði. Fallegt stöðuvatn blasti við á hægri hönd en þegar henni varð litið til vinstri sá hún ekkert annað en endalausa móa og mýrar. Það var raki í loftinu og þokuslæðingur lá yfir dalnum. Hversu ömurlegt? Ólýsanlega!
Faðir hennar hafði fengið stöðu sem læknir í litlum kaupstað austur í landi og ákveðið að skella sér þangað. Henni fannst þetta ekki alveg ganga upp því að hann hafði þar með sagt upp starfi sínu sem yfirlæknir á virtri deild á landspítalanum. En þegar hún spurði hann um ástæður flutninganna svaraði hann einfaldlega: ¨Það er þér fyrir bestu að alast upp úti á landi. Hvernig getur það ekki verið þér til framdráttar?¨ Og í stað þess að bíða eftir svari við spurningu sinni, svaraði hann henni bara sjálfur. Eins og ekkert væri sjálfsagðara: ¨Það leynast margar hættur fyrir fjórtán ára unglingsstelpu í borginni, en hérna í sveitinni færðu tækifæri til þess að komast í snertingu við þinn innri mann og kynnast leyndardómum lífsins.¨
Þvílíka bullið! Hvernig átti hann að vita hvað var henni fyrir bestu? Enginn vissi það nema hún sjálf. Var það henni fyrir bestu að flytjast frá öllum sínum vinum og kunningjum? Var það henni fyrir bestu að skipta um skóla á miðju skólaári? Og ekki gat hún séð hvaða tækifæri ættu svo sem að leynast í sveitinni! Var ekki alltaf verið að tala um fólksflutninga frá landsbyggðinni? Og afhverju ætli það sé rauninn, jú vegna þess að það eru engin tækifæri í sveitinni!
En honum varð ekki snúið til betri vitundar svo að þau tóku upp sitt dót og drasl, og héldu af stað á vit ævintýranna.

Húsið virtist vera frá því um aldamótin 1900 og í álíka ásigkomulagi. Málningin var farin að flagna af á mörgum stöðum, og fúkkalyktina lagði að vitum þeirra þegar þau gengu upp á brakandi pallinn. Hún tók í hurðarhúnin sem brotnaði auðveldlega af. Þetta var ekki hundi bjóðandi! Hún sneri sér með þjósti að föður sínum og sagði afundin: ¨Þú skalt sjá um uppbygginguna, ég kem ekki nálægt þessum andskota. Ég gæti smitast af einhverju.¨ Viðbrögð hans komu henni á óvart. Vanalega hefði hann hreytt einhverju í hana til baka, en í stað þess hló hann bara rólega og sagði með kímni í röddu: ¨Mín er ánægjan.¨ Þetta bætti ekki úr skák, og hún fann hvernig gremja hennar óx. Hún lét sig hverfa. Hann gæti þá bara líka séð um að koma dótinu þeirra í hús.

Útihúsin voru einnig í niðurníðslu. Ekki eins og það skipti máli, pabbi hennar hafði aldrei verið mikill bóndi í sér. En hann hafði nú samt vakið máls á því að byrja með einhverskonar búskap, einn hundur og köttur var alveg nóg að hennar mati.
Hún áttaði sig allt í einu á því hvert hún var komin. Væg hestalyktin sagði sitt. Jæja, kannski einn hest líka. Hvað gæti það svo sem sakað? Hún potaði varlega í gamlan hnakk sem hafði verið skilinn þarna eftir. Hnakkurinn var örugglega svipað gamall og húsið, ef marka mátti áferðina og ryðguð ístöðin. En kannski var hægt að lappa upp á hann og jafnvel notfæra sér veru hans hér.
Barbídúkkur, löngu horfnar. Pleymóið, líka horfið. Ást hennar á hestum; ennþá til staðar.
Skrýtið.

Hún gekk til baka og gómaði pabba sinn við það að fá sér eina sígarettu. ¨Hélt þú værir hættur þessari vitleysu?¨
¨Amm, en stundum lætur maður freistast. Ætli það sé ekki stressið sem fylgir flutningunum.¨
¨Líklega, fyrst þú segir það.¨ Kaldhæðnin fór ekki fram hjá honum.
¨Já, besta regla sem þú getur fylgt, ég hef alltaf rétt fyrir mér.¨ Hann hló léttúðlega.
¨Æ, geturðu ekki verið alvarlegur í eina sekúndu! Þarftu alltaf að gera illt verra með því að reyna að vera fyndinn? Þú hefur ekki húmor svo að hættu að reyna. Það er ekkert ömurlegra en gamall kall að rembast eitthvað.¨ Hún strunsaði í burtu og skellti á eftir sér útidyrahurðinni.
Hann tvísté. Ef að móðir hennar væri hérna með honum, þá væri þetta allt mun auðveldara. Eða hvað? Jú það hlyti að vera. Hann kunni ekkert á unglingsstúlkur. Vissi samt bara eitt, þetta var eina leiðin til að forða henni frá því að lenda í einhverju bölvuðu rugli. Félagsskapurinn sem hún hafði verið komin í var ekki beint ákjósanlegur og vinnutími hans sjálfs allt of langur. Með þessu móti gæti hann stytt vinnutíma sinn og verið meira með dóttur sinni. Og það var það sem hún þurfti. Rólegra umhverfi, betri félagsskap og meiri tíma með honum.
Hún hlyti að átta sig á því fyrr eða síðar.
Hann henti stubbnum og gekk í humátt á eftir henni.


Edilega verið opinská hugarar! Á ég að halda þessu áfram? er söguþráðurinn leiðinlegur eða svona rétt þolanlegur? Látið allt flakka :)