Það var ekki enn kominn föstudagur, stundum held ég að hann komi aldrei. Ég vinn á fimmtudögum, afgreiði sömu manneskjuna aftur og aftur í nokkra klukkutíma. Reyndar er ég ekki á kassa á fimmtudögum, en þá daga sem að ég afgreiði á kassa þá finnst mér ég afgreiða sömu manneskjuna allan tímann. Ég veit hvað þú ert að hugsa, ég veit hvað þið eruð öll að hugsa. Þú hugsar að hann hlakki til föstudagana af því að þá getur hann farið að ‘djamma’. Drukkið sig fullann ásamt hópum af ókunnugu fólki, einungis til þess að geta vaknað daginn eftir og séð eftir því sem hann gerði kvöldið áður. En þú hefur rangt fyrir þér eins og vanalega, ég fer ofur sjaldan að ‘djamma’. Raunar þoli ég ekki þetta orð, ‘djamm’. Ég kann illa við fjölmenna skemmtistaði, þar sem umræddir hópar af ókunnugu fólki kemur saman til þess að hlusta á lélega tónlist og hafa sér eins og hálvitar. Það sem mér líkar þó verst við þá er öll þessi snerting. Mannþröng af fólki sem ekki þekkist og virðist þó ekkert kippa sér upp við að ókunnug manneskja snerti það.
Það er ekki það að ég kunni ekki að skemmta mér eins og aðrir, en þegar að svona partýstandi kemur, þá kýs ég heldur að gera það í litlum hópi vina heldur en hitt. Ekki það að það breyti einhverju, en þá get ég allavega gefið einhverjum hálvitanum álit mitt á tónlistinni.
En aftur að vikudögunum, nei, ástæðan fyrir því að bíð eftir föstudögunum er ekki ‘djammið’. Guð, hvaða ég hata þetta orð. Nei, hef meiri ánægju af tímanum fyrir ‘djammið’. Öll þessi tilhlökkun fyrir hlut sem ávallt endar eins. Þetta er tilfinning sem að ég hef aldrei komist á uppá lagið með. Þó þykist ég alltaf vera jafn spenntur og restin þegar kemur að enn einu skólaballinu. Það veitir mér þó ánægju að fylgjast með þessum skrípaleik, því að á föstudögum þá virðast allir geta gleymt áhyggjum vikunnar, áhyggjum af skóla, vinnu eða einhverju öðru. Þetta er tíminn á milli þess og laugardagana þegar fólk vaknar en á ný, og eftir að hafa hrist af sér mestu þynkuna fer að íhuga vitleysuna sem þau gerðu kvöldið áður með eftirsjá. Þeir sem ekki endurtaka leikinn aftur annað kvöld hafa nú viku til þess að sjá eftir vitleysunni áður en þeir endurtaka hana næstu helgi.

Ég hef gaman af því að horfa á mannkynið. Ég get ekki gert annað en að dást að sköpunarverki drottins reyna að komast í gegnum tilgangslaust líf sitt. Ég gæti, og hef, fylgst með þessu klukkustundum saman. Oftast sit ég þá með heyrnatólin á hausnum með tónlistinna eins hátt stillta og ég mögulega get svo að ég heyri örugglega ekki orð af þeirri óendanlegu vitleysu sem fólk lætur út úr sér. Ég get samt séð hvað það segir. Ég sé heilu straumana af vitleysunni liðast út í andrúmsloftið og stíga upp til himins. En ég hef aldrei verið góður í efnafræði, en stundum furða ég mig á því af hverju ekki er minnst á þessa nýju viðbót við andsúmsloftið í lotukerfinu. Ég hef jafnvel gengið svo langt að gera mér hugmyndir um að hún gæti verið ábyrg fyrir eyðingu ósonlagsins, sem allir þykjast hafa svo miklar áhyggjur af meðan þeir hósta, kveikja sér í sígarettu og aka í burt á nýja bílnum sínum á leið til vinnu í álverinu. Kannski ætti ég að lýsa yfir áhyggjum mínum af þessu við einhvern.

Ég hef ætíð verið afskaplega kurteis en hef þó aldrei verið mjög hrifinn af því að kynna mig. Ég var ekki spurður álits þegar nafn mitt var valið, hefði ég verið kominn á aldur til þess að lesa bækur eins og ‘Lady Chatterley’s Lover’ þá hefði ég eflaust haft eitthvað um þetta nafn að segja. Foreldrar mínir hafa eflaust haldið að þeir séu sjúklega fyndnir. Það nefnilega svo skemmtilega til að ég heiti Jón Tómas.

. . .

Þrátt fyrir aðdáun mína á föstudögum bíð ég alls ekki eftir þeim alla vikuna. Það vill þó svo til að í dag er föstudagur. Á föstudögum reyni ég að mæta í skólann eins og hina daga vikunnar.
Ég stunda nám við menntaskóla á höfuðborgarsvæðinu og líkar það svona misjafnlega. Eins og venjulega, þá mætti ég of seint. Það tekur mig alltaf smá tíma að fá mig til þess að fara í skólann á hverjum morgni. Ég þoli ekki spænsku. Ég kann ágætlega við tungumálið þrátt fyrir að tala lítið í því en tímana þoli ég ekki.
Spænskukunnáttu mína byggi ég á einni línu úr lagi með Jefferson Airplane.
‘A donde esta la planta, mi amigo, del sol?’
Það myndi koma þér á óvart hversu mikið gagn má hafa þessari litlu setningu.
Það brakar í hausnum á mér þegar í gegnum þokuna af hugsunum brýst í gegn rödd kennarans. ‘Prófið sem átti að vera á morgunn verður frestað þangað til á föstudaginn. Við misstum þarna úr einn tíma þegar ég var veik og eigum eftir að fara yfir smá efni fyrir prófið.’ Þessu mótmæli ég að sjálfsögðu hástöfum og röfla eitthvað um hversu mun betra það væri fyrir mig ef að prófið væri á morgunn. Eftir að þræta við kennarann í smástund hætti ég bara að hlusta á sjálfann mig. Sannleikurinn er sá að mér er í raun nett sama um hvenær þetta blessaða próf á sér stað, ég á ekki eftir að enda með að læra fyrir það hvort eð er. Mér líkar bara illa við helvítis kennarann en þar sem ég er of huglaus til þess að gera eitthvað róttækara þá kem ég skotunum mínum inn svona. Umræddur kennari kemur alls ekki illa fram við mig, það sem fer í taugarnar á mér er að hún talar svo niður til nemenda sinna. Hún talar við okkur eins og litla hvolpa. Það kæmi mér ekki á óvart ef að hún klappaði mér á hausinn og biði mér sælgæti fyrir vel unna heimavinnu. Auk þess þá hlær hún að sínum eigin bröndurum. Hún er sú eina sem hlær að sínum eigin bröndurum.
Ég þakka drottni fyrir að bjallan hringir áður en ég næ að sannfæra hana um að flýta prófinu, skólafélögum mínum til mikillar mæðu.

Þá er komið að því að byrja á hinni daglegu gosdrykkju. Ég segi ‘byrja’ af því að þessi hálfi líter sem ég kaupi úr sjoppunni kemur aldrei til með að endast mér yfir daginn. Já, ég viðurkenni það fúslega. Ég drekk mikið af gosi. Móðir mín sendi mér tölvupóst fyrir ekki svo löngu með nokkrum punktum um drykk sem er einna helst í uppáhaldi hjá mér. Þar var greint frá því að lögreglan í einhverju fylki Bandaríkjanna notaði drykkinn til þess að þrífa upp blóð vegna sýrumagnsins í honum. Í lok skeytisins stóð síðan ‘Langar þig ennþá í kók?’. Og ef að ég hefði einhvern með meira lífi en tölvuskjárinn með mér, þá hefði ég svarað honum játandi.

Ég er í gati í næsta tíma og þarf víst að nýta það í að fara til námsráðgjafa, þar sem ég mætti ekki í okkar venjulega tíma á föstudaginn. Námsráðgjafar og sálfræðingar eru afskaplega líkt fólk. Þeir eiga það sameiginlegt að ég hata þá. Margrét námsráðgjafi er þó nokkuð skárri en þeir sem ég hef áður kynnst.
Þegar ég kem að skrifstofunni hennar er lítill gulur miði á hurðinni sem á stendur að hún hafi skroppið í kaffi í fimm mínútur. Ég þoli ekki heldur að sitja í biðstofum. Mér til mikillar lukku er hurðin ólæst og ég get fengið mér sæti inni, eins og venjulega með heyrnatólin á hausnum. Hjartað í mér tekur um það bil tíu þúsund slög á innan við sekúndu þegar mér að óvörum leggur einhver hendina á öxlina á mér. Eins og þú hefur kannski gert þér í hugarlund eftir ræðu mína um ‘djammið’ hér á undan þá líkar mér illa við að fólk snerti mig of mikið. Ég lít upp til að sjá Margréti námsráðgjafa og án þess að taka af mér heyrnatólin veit ég hvað hún mun segja. ‘Góðann daginn Jón, hvar varst þú á föstudaginn síðasta?’
‘Góðann daginn’ svara ég á móti.
‘Hvar varstu á föstudaginn?’ endurtekur hún ‘ég beið eftir þér í meira en þrjátíu mínútur’
‘Æji þú veist.. þetta venjulega..’
Ég veit að henni er nokkuð sama um hversu lengi hún beið, en líkt og ég þá þykist hún kæra sig um slíka hluti.
‘Ég veit að þér líður ekki alveg nógu vel oft á tíðum, en mér þætti afskaplega vænt um það ef þú mættir allavega í tímana okkar.’
Hún orðar þetta allt saman eins og hún sé ein af þessum stífu gömlu kerlingum sem reyna að vekja sektarkennd hjá manni með þessum hætti, en hún hljómar alls ekki þannig. Ég veit ekki hvort hún þarf að reyna að líkjast þessum kerlingum í starfi sínu en ef þú hlustar virkilega á röddina í henni þá veistu betur en svo.
Hún heldur áfram að tala ‘Hvernig gekk annars seinasta vika? Ég fylgdist með mætingunni þinni og hún fór einna helst lækkandi, er einhver sérstök ástæða fyrir því? Hmm.’
Þarna er það, einkenni hvers einasta manns af stétt sálfræðinga, geðlækna og námsráðgjafa. Þetta ‘hmm’ er aðeins eitt af mörgum hikorðum sem þeir nota. Hmm, aha, jaha, mhmm og þeim fer bara fjölgandi. Ég man skyndilega hvar ég er staddur þegar hún hummar aftur á mig.
‘Ha? Nei, nei..’
Ég man ekki einu sinni hvað gerðist í síðustu viku. Það er annar hlutur með mig, þar sem minnið ætti venjulega að vera staðsett í hausnum á mér, þar eru göng sem liggja yfir í aðra vídd. Vídd fulla af skepnum sem nærast á minningum mínum. Ég man nöfn og annað slíkt en ég man ekki hvað ég gerði í gær eða hvað ég gerði um helgina. Ég vona að eitthvað af minningum mínum standi fast í hálsinum á einhverju af þessum skepnum. Kannski get ég jafnvel farið að rukka fyrir notkun á göngunum, líkt og í Hvalfirðinum.
‘Auk þess þá rakst ég á spænskukennarann þinn uppi á kaffistofu núna áðan og hún var að ræða við mig um þig, veistu eitthvað hvert ég er að fara með þetta?’
Án þess að hugsa mikið út í það sem hún sagði svaraði ég jafnfljótt ‘Myndir þú borgar fyrir aðgang að hausnum á mér?’.
Það tók hana smá tíma að vinna í gegnum þessa nýju spurningu sem hún var að fá. Hún leit út fyrir að vera um það bil að kasta upp þegar hún loksins náði andanum og byrjaið að skellihlæja. Það tók hana smá tíma að jafna sig en eftir smá stund fékk hún á ný hæfileikann til þess að tjá sig.
‘Viltu gera það fyrir mig, að tala af aðeins meiri kurteysi við kennarann þinn? Og ekki hæðast að mér þegar ég reyni að ræða við þig um þessa hluti?’
Ég virti hana fyrir mér í smástund. Síðan labbaði ég út án þess að segja orð.

Það fer einstaklega í taugarnar á mér þegar fólk misskilur mig svona. Mér er fúlasta alvara með þessa gróðahugmynd. Jafnvel væri hægt að senda sjálfann biskupinn í gegn og athuga hvort ekki sé hægt að kristna þessi fyrirbæri sem búa hinum megin.

Ég held áfram mínum daglegu venjum og stefni á sjoppuna. Sú sem er að afgreiða núna er ágæt. Hún segir yfirleitt brandara sem ég skil ekki, en á meðan hún gerir það brosir hún afar fallega á meðan hún segir þá.
Það er skrýtið með mig og hitt kynið. Spurðu hvern sem er og hann mun segja þér að það sem unglingspiltar hugsa helst um eru stelpur og kynlíf. Ég hugsa, að ég held, alveg jafn mikið um stelpur og hinir strákarnir. En í þau skipti sem mér hefur boðist að stunda kynlíf eða eiga í einhverjum nánum samskiptum af því eðli við hitt kynið, hef ég hikað við það.
Ég er sérstakur.

Mér hefur aldrei gengið jafn vel í dönsku og þessa dagana. Ég kann ágætlega við kennarann þrátt fyrir að hún sé ein af þessum stífu gömlu kerlingum sem ég minntist á að Margrét reyndi að líkjast. Venjulega myndi það trufla mig en þessi lætur mig eiginlega bara í friði. Hún bannar neyslu matar og drykkja í tímum hjá sér en þegar ég mætti stoltur með kókina úr sjoppunni sagði hún ekki neitt.
Ég sit yfirleitt einn í tímum þó að ég þurfi þess ekki. Ef ég er heppinn fæ ég sæti á aftasta bekk út við gluggann og get horft út. Þetta er einn af þeim dögum, en ég sé ekkert út fyrir bölvaðri þokunni. Mig grunar að veðurfarið sé Sjálstæðisflokknum að kenna.
Rétt í þessu hringir brunabjallann, og líkt og við æfðum alltaf í grunnskólanum þá hlaupa allir í áttina að útganginum. Áður en ég fer út þá tek ég af mér skóna og skil þá eftir inni. Í menntaskólanum má vera á skónum innandyra en það máttum við ekki í grunnskóla. Og í hvert skipti sem brunabjallan lét í sér heyra þá vorum við látin hlaupa á sokkalistunum út.
Ég skil ekki af hverju það ætti að vera eitthvað öðruvísi núna.

. . .

Vegna elds í ljósritunarherberginu er gefið frí restina af deginum. Það skiptir mig litlu máli þar sem að ég hefði eflaust skrópað í síðasta tímanum. Þrátt fyrir hversu mikla óbeit ég hef á því þá tók ég fimmuna heim vegna veðurs. Ég þoli ekki fimmuna, fyrir áramót var ég í öðrum skóla og gat tekið tvistinn. Strætisvagna almennt, kann ég þó ágætlega við.
Ég sit og horfi út. Mér finnst raunveruleikinn alls ekki svo raunverulegur og á ansi erfitt með að telja mér í sífellu trú um að þetta sé hinn eini raunveruleiki. Í því skyni rökræði ég við sjálfann mig. Jú, ef að þetta væri einhver hugarheimur sem ég hefði búið til þá ætti ég að hafa valdið til þess að breyta honum líka, rétt?
Og eftir endurteknar tilraunir til þess að breyta mér í fugl þá dróg ég þá ályktun að það væri heldur ég sem væri óraunverulegur heldur en raunveruleikinn. Allir aðrir virðast allavega ekki kippa sér mikið upp við hann.

‘Veðrið sökkar’ heyri ég sjálfann mig röfla þegar ég tek síðust skrefin frá strætóskýlinu að heimili mínu, ‘Helvítis sjálfstæðisflokkurinn’.
Þegar heim er komið tekur vinur minn, Sonny Boy Williamson á móti mér og syngur um ólukku sína. Ætti að taka lyfin mín en geri það ekki. Mér líkar ekki tilhugsunin um að einhver annar sé að kukka í hausnum á mér.
Næst er það vinnan.

Mér er gert að mæta í vinnu stundvíslega klukkan fjögur, setjast á kassann minn og afgreiða þennann eina enn á ný. Ég kann ekki svo vel við vinnuna en einhvernvegin verð ég að fjármagna gosdrykkjuna. Það er þó einn kostur við vinnuna, fólkið.
Eftir því sem þú kynnist fólki betur, því mannlegra verður það. Ég bíð enn þann dag í dag eftir að kynnast manneskju sem gengur ekki í gervi allan daginn og þykist ekki. Ég verð því í sífelli fyrir vonbrigðum þegar ég kynnist fólki. Ekki misskilja mig, ég hef ennþá minni áhuga á því allir væru tilfinningalausar vélar.
En tökum sem dæmi, Adolf Hitler. Þennann mann sem er málaður sem illsta mannvera sem uppi hefur verið, þegar upp er staðið, þá er hann bara mannlegur eins og við hin. Ég er í raun að reyna að halda í trú mína á mannkyninu. Því jú, sá sem myrðir milljónir af saklausu fólki getur varla verið mjög mannlegur, er það?

Allavega, í vinnunni, þá er engin þörf fyrir mig að kynnast fólkinu mun betur en raun ber vitni. Þess vegna get ég haldið í aðdáun mína á vinnusemi þeirra án þess að þurfa að komast að því að þau eyði þeim peningum sem þau vinna sér inn með duglegheitunum í að fjármagna bókabrennur eða eitthvað því um líkt.
Þessir þrír klukkutímar sem ég þurfti að vinna í dag liðu á um það bil 6 dögum.

Í strætó á leiðinni heim kemur upp í vagninn það sem virðist vera góður vinur minn. Hann er klæddur eins og hann, hann er með hárið eins og hann og lítur í raun og veru alveg út eins og hann. Hann sest við hliðina á mér og byrjar að tala við mig eins og hann sé hann.
En þetta er ekki hann. Ég hundsa staðgengilinn og eftir smá stund lætur hann sig hverfa á ný.

. . .

Ég finn hvernig holan í hausnum á mér vex sífellt hraðar og hraðar.
Þeir eru að koma. Þeir ætla sér að komast í gegn án þess að að greiða til mín vegatolla.
Eftir endurteknar tilraunir við að sannfæra neyðarlínuna um að hér væri um að ræða raunverulegt neyðartilfelli og að þeir þyrftu að kalla íslenska herinn heim frá Írak í því skyni að bregðast við þessu, sættust þeir loks á að senda heim til mín þrjá lögregluþjóna til þess að ‘athuga málið’. Ég vissi samt sem áður að þeir væru að ljúga og gafst að lokum upp. Biskupinn náði ég ekki í. Ef enginn ætlaði að taka mark á mér þá verð ég víst að stöðva þá sjálfur.

Ég leit út um gluggann. Þokunni hafði slotað og sólin jafnvel brotist út á milli skýjanna.
Einhvern veginn hafði ég alltaf búist við því að veðrið yrði verra þegar að þessum degi kæmi. Þegar maður sér þetta gert í bíómyndunum þá er alltaf rigning og rok. Ég held að þetta sé tákn um nýja byrjun en ekki endi.

. . .

Um það leyti sem að lögregluþjónarnir þrír brutu niður hurðina og komu að mér alblóðugum, lauk Sonny Boy frásögninni af ólukku sinni með þeim orðum,

' Now go tell ‘em if they be good they’ll come to see me, people on Resurrection Day'




Hafið í huga að þetta er mín fyrsta tilraun til söguskrifa að einhverju viti og sagan er skrifuð á tiltölulega stuttum tíma :) Auk þess langar mig til þess að hrósa hilju fyrir vel skrifaða sögu hér nokkrum dögum áður og gefa henni samúðarkveðjur mínar.