Stóra rallið – kapphlaupið, fangavistin og vinningurinn. Ég var afslappaður og mér leið vel. Ég hef verið við hestaheilsu frá því ég mundi eftir mér og ég hafði það á tilfinningunni að ég myndi geta sigrast á öllum heiminum ef ég þyrfti á því að halda. Einn góðan veðurdaginn var ég á ferðinni um heiminn minn þegar ég fann fyrir ómótstæðilegri þrá eftir því að fara lengra. Mér leið eins og ég fyndi fyrir þörf á því að slíta af mér öll bönd við heimahagana og hreinlega þjóta út í óvissuna.

Það var eitthvað í loftinu fann ég, endorfín, hið mikla og volduga náttúrulega morfín smeygði sér í æðar mínar og þrótturinn sem ég fann fyrir sagði mér að nú væri komið að mér að þjóta út í óvissuna. Samt í allri óvissunni um hvað framundan beið fann ég að verðlaun mín yrðu stórkostleg og vel þess virði, bara ef ég henti mér af stað og tæki þátt í lífsins kapphlaupi og kæmist á leiðarenda án þess að gefast upp.

Það var mikill óróleiki allt í kringum mig og ég fann að allir í heimahaganum voru greinilega að drekka í sig þennan ótrúlega kraft sem endorfínið gaf frá sér. Ég brosti með sjálfum mér. Ég vissi að þetta var stundin því ég fann fyrir boðunum að ofan. Þau bárust eins og elding um sveitirnar í kring og áður en nokkur vissi hvaðan á sig veðrið stóð komu hróp og köll frá öllum vígstöðvum. Allir virtust ætla að taka þátt í þessu ferðalagi mínu og allir virtust finna fyrir sama krafti og ég.

Ég vissi ósjálfrátt að eitthvað stórkostlegt var í nánd því það var eins og ég hafði verið að bíða einmitt eftir þessu augnabliki. Skyndilega, eins og þruma úr heiðskíru lofti, það var eins og sprengju væri varpað í annars friðsæla sveitina mína. Allir óðu fram og aftur og hreinlega vissu ekki í hvað átt þeir áttu að þjóta. Ég var næstum því viss um að þetta væri minn tími en áður en ég gat gert neitt skall einhver eða eitthvað á mig með miklum látum. Ég urraði með sjálfum mér og ætlaði að öskra en ég gat ekkert gert því á sama augnabliki fann ég fyrir þvílíkri hormóna- og endorfínsprengju æða um mig allan svo ég vissi að ég mátti engan tíma missa. Ég horfði augnablik á þann ókunna sem rakst á mig. Ég sá að hann var óvígur en vissi jafnframt á sömu stundu að þetta var stundin – þetta væri boðberi nýrra tíma. Ég vissi að ég yrði að fara núna ella væri allt um seinan því þetta voru boðin sem ég hafði alla mína tíð beðið eftir..

Ég þaut af stað en leit augnablik aftur til að líta sveitina mína síðasta sinn, vissi að ég mundi aldrei koma hingað aftur. Óróleikinn og æsingurinn var alsráðandi og um allt voru sveitungar mínir að leggja í sama ferðalag og ég, það yrði ekki aftur snúið. Um allt sá ég líka undarlegar verur sem sveimuðu um allt og alls staðar voru þessar verur að herja á sveitunga mína. Enn og aftur fann ég og skynjaði boðin sem komu einhvers staðar langt að ofan – “flýttu þér, vertu fljótur, farðu núna áður en það er um seinan” … Þetta ómaði fannst mér um allt og ég ákvað að fara eftir hugboðinu og jafnframt kom upp hjá mér sú sterka hvöt að vinna – að vera á undan sveitungum mínum og fá verðlaunin.

Á leið minni að eina veginum frá sveitinni minni sá ég enn fleiri ókunnar verur sem birtust eins og í gegnum loftið sjálft. Þessar verur virtust vera einhvers skonar hermenn – ákveðnir og sterkir óðu þeir um eins og leiðtogar okkar. Þeir virkuðu örvandi og sungu hástöfum hvatningarorð til okkar allra um að herða okkur og leggja nú allt í sölurnar fyrir leiðtogann – “áfram, áfram” fannst mér ég skynja frá þessum hormónabúntum. Ég herti ferð mína og því nær sem ég kom veginum að heiman því meiri læti urðu í öllum og mér fannst allur heimurinn vera að þenjast úr og dragast saman í sífellu. Ég hálfpartinn óttaðist að ég myndi troðast undir því allt í einu fannst mér eins og allir í sveitinni minni væru komnir á sama stað og ég, og allir virtust þeir ætla að taka verðlaunin mín!

En eitt augnablik kom mikil sundrung á hópinn og ég fann fyrir sterkari og kröftugri lífsneista en nokkurn tíman áður. Það var sem adrenalíngustur hefði þotið um holt og hæðir og með þessum gusti fann ég einnig nýjan straum af náttúrulegu morfíni streyma um mig allan. Ég var nú öruggur um að ég myndi sigrast á öllu og ég þaut af stað veginn að heiman ásamt flestum þeim sem enn höfðu orku til að halda áfram frá heimahögunum. Kapphlaupið var hafið og nú var um að gera að ná alla leið burt til að geta markað sér nýtt svæði, byrja nýtt líf og taka við verðlaunum erfiðisins.

Leiðin var löng og erfið, margir sveitungar mínir lágu í valnum og ég sá að lífsþorsti minn var að borga sig upp hérna. Mér fannst ég hreinlega svífa um loftið. Hraði minn var ótrúlegur, en ég var líka í besta formi mínu síðan ég varð meðvitaður um sjálfan mig. Ég þaut um holt og hæðir og sífellt vann ég betur á hina sem með mér höfðu lagt af stað og á mörgum stöðum sá ég einnig marga sem ég kannaðist við en höfðu gefist upp eða hreinlega sprungið á þessu öllu. Ég var sigurviss og öruggur þegar ég áttaði mig allt í einu að ég var nánast einn á ferðinni. Ég leit aftur fyrir mig til að vera öruggur um að ég væri nú á réttri leið og sá marga félaga mína dragast afturúr en sumir reyndu þó eftir bestu getu. Ég hrósaði sigri og leit aftur til framtíðar – en of seint!

Beint framundan var stór veggur. Veggurinn gnæfði yfir allt og ég hafði aldrei séð annað eins – en það var um seinan því ég skall með miklum látum á vegginn. Ég barðist um en á einhvern undarlegan hátt var ég blýfastur og ef eitthvað var þá fannst mér eins og ég væri að sogast inn í vegginn. Undarleg tilfinning um að allt væri nú að enda komið hríslaðist um mig – en samt fannst mér eins og að líklega hefði þetta átt að gerast á þennan hátt. Ég sökk alltaf dýpra og dýpra inn í vegginn og áður en ég vissi sogaðist ég í gegnum hann. Ég vildi ekki trúa þessu – það gat ekki verið að þetta væri mín síðasta stund! Ég barðist af öllum kröftum til að komast aftur til baka en það var eins og segull drægi mig sífellt lengra inn í þennan undarlega heim handan veggsins. Skyndilega var ég kominn í gegn, ég fann að ég andaði léttar og á einhvern hátt hafði ég það á tilfinningunni að ég væri kominn á leiðarenda, kominn heim.

Samt fannst mér það undarlegt að ég skildi ekki finna neitt annað en tóm og fálæti í kringum mig. Ég var einn í heiminum. Einn á stað sem ég þekkti ekki og ég óttaðist allt hið versta. Ég reyndi dögum saman að finna leiðina aftur til baka en án árangurs. Dagar urðu að vikum og vikur að mánuðum en ég var sem lokaður í heimi sem var eins og fangelsi. Það var engin undankomuleið handa mér hérna og ég bara einhvern veginn leið áfram fram og aftur án þess að finna neinn tilgang, ég var innikróaður og fangelsaður í heimi sem var mér algerlega framandi. Fangavörður minn mátti samt eiga það að mig skorti aldrei fæðu því á einhvern undarlegan hátt barst mér ýmislegt góðgæti inn í þetta fangelsi en aldrei sá ég samt dyr opnast eða ljósbirtu koma með. Einstaka sinnum fannst mér ég heyra í fangaverði mínum tala við einhverja og stundum fannst mér ég heyra raddir en það var bara ómur án þess að ég skildi neitt í neinu.

Mér fannst ég vera búinn að vera þarna innikróaður heila eilífð þegar ég allt í einu fór að heyra orðaskil frá fangavörðum mínum. “það fer að koma að því að hann sleppi út” og “ertu undirbúin því sem koma skal þegar hann kemur” … Af hverju var mér haldið hérna inni? Hvað hafði ég gert af mér til að vera lokaður svona í einangrun í heila eilífð án þess að fá að sjá nokkra sálu? Stundum var ég svo óþolinmóður að ég lét höggin dynja á fangelsisveggnum eða sparkaði duglega frá mér og vegna nálægðar við fangelsisveggi mína hittu högg mín og spörk alltaf það sem ég reyndi að hitta. Ætíð þegar ég lét sem verst og fannst sem ég væri að springa af óþolinmæði eftir því að sleppa úr fangelsi mínu heyrði ég mikið umstang og ég fann á mér að fangaverðir mínir fylgdust greinilega vel með mér þó ég sæi þá aldrei. “Hann er enn að sparka” heyrði ég stundum. Þetta æsti mig enn meira upp, hvers vegna mátti ég ekki sleppa út? Ég var svo öruggur um að ég hafði ekkert gert af mér til að verðskulda svona refsingu.

Dag einn þegar ég var nánast að springa úr þrá eftir frelsi heyrði ég undarlegan æsing í fangavörðum mínum. Nánast um leið fann ég fyrir þvílíkri innilokunarkennd og fannst eins og ég væri hreinlega að kafna. Ég sparkaði af öllum kröftum í veggi fangelsis míns og eitt augnablik fannst mér eins og ég væri að ná því að brjóta niður veggina en þá fór af stað undarleg hringrás atburða. Ég fékk það á tilfinningunni að vit mín væru öll að stíflast og ég náði engan veginn að draga að mér súrefni. Um leið fann ég fyrir veggjum fangelsis míns hrynja yfir mig og allt fór í ringulreið. Ég skynjaði mikinn æsing og læti og allt lék á reiðiskjálfi umhverfis mig. Mikið öskur, hróp, meiri læti og mér fannst eins og ég væri að slitna í sundur svo mikið afl var allt í einu allt umhverfis mig.

Ég fann að fangelsi mitt var brostið og í sömu andrá þaut ég með miklum látum af stað frá því sem hafði verið heimur minn í heila eilífð fannst mér. Hjarta mitt hætti að slá, eitthvað óð um hálsinn minn og þétti að. Ég heyrði í alls konar hljóðum og mér fannst eins og mér væri varpað til og frá eins og ég væri bolti í tennisleik. Ég reyndi eins og ég gat að hrópa á hjálp en ekkert heyrðist í mér, ég náði ekki andanum. Allt í einu var eins og mér væri slegið utan í vegg – ég fann sársauka um allan líkamann og um leið fann ég að það loftaði um vit mín og öndunarfæri. Hvað var eiginlega á seiði og hvar í ósköpunum var ég nú niðurkominn? Ég var mjög óttasleginn og bjóst við hinu versta en um leið og ég opnaði augun rak ég upp hávært vein!!!


“Sko! Stór og myndarlegur drengur. Hann er sterklegur þessi og kemur til með að ná sér fullkomlega þrátt fyrir augnabliks vandræði í fæðingunni.” Heyrði ég sagt með glettnisröddu. “Er allt í lagi með hann? Af hverju grét hann ekki strax” heyrði ég fangavörð minn segja óþægilega nálægt. Ég skimaði um allt og reyndi að átta mig en birtan var mér ofviða svo ég lokaði augunum og rak upp annað vein. “Svona, svona litli minn. Leggstu nú hjá mömmu þinni og leyfðu henni að sjá stóra strákinn sinn” heyrði ég um leið og ég var lagður í hlýjan faðm þess sem röddin kallaði mömmu mína. “Þú ert dásamlegur” sagði fangavörðurinn minn síðustu mánuði, móðir mín.
Endir.