Vekjaraklukkan segir þér að vakna með sinni ómfögru röddu. Þetta er einn af þeim dögum sem hún kitlar þig á bak við eyrun svo þú vaknar hlæjandi. Þetta var ekki innihaldslaus nótt. Ó nei! Hún var barmafull af sápu og tilheyrandi froðu. Ærslafullur vatnsslagur, heil sundlaug fyllt með freyðibaði og sápukúlur alls staðar.
Bara ef þú gætir dreymt þennan draum aftur og aftur, endalaust í staðinn fyrir ekki neitt. Þá gætiru kannski átt þér eitthvert líf, þó það væri nú bara næturlíf. Sannkallað draumalíf yrði það.
Að lifa í draumi væri ekki svo afleitt. En svo myndi það henda þig að þú vaknaðir einn daginn í draumheimi fyrir einhvers konar mistök og þú værir raunverulega vakandi, með meðvitund og opin augun í þokkabót. Væri það ekki pínulítið ógnvekjandi? Þú værir enn sami, gamli þú en allt annað væri breytt. Umhverfið, fólkið og öll skynjun væru búin að fara í “make-over” hjá Jenny Jones.
Þú gætir þess vegna verið á vappi í Kringlunni og mannvígt naut gæti birst upp úr þurru sem ætlaði að stanga þig. Og þú með enga yfirskilvitlega hæfileika yrðir að forða þér á tveimur jafnfljótum því ekki gætir þú flogið. Hvort væri þá betra að fara rúllustigann eða taka lyftuna?

*Sweet dreams*