Club Fabio


Fyrir aftan Beringer beint fyrir framan mig var málverk eftir uppáhaldsmálarann minn Twln’an Agan frá Argentínu. Þetta málverk var greinilega málað ’39 og ég þekkti það ekki. Þá var Agan sextán ára og það útskýrir óörugga formið sem náði fullkomnun á sjöunda áratugnum. Þá voru myndirnar orðnar dularfyllri sem lék saman við mikla tvíræðni.
Uppáhaldsmálverkið mitt var ‘Þrjár rauðar endur’ þar sem við sjáum niður á endurnar sitja við hringlaga borð og éta girnilegan kjúkling. Borðið lítur út eins og jörðin og endurnar eru andlitslausar því við sjáum aðeins ofan á höfuð þeirra. Höfuðin og vængirnir sem standa út minna á engla sem nærast á sviðnum líkömum. Og heimurinn er þeirra diskur.
Beringer lyfti upp hálffullu glasi af Moselvíni og velti því um til þess að bleyta hliðarnar og ilmurinn steig upp. Því næst setti hann nefið ofan í hallandi glasið og andaði djúpt að sér til þess að fylla vitund sín af víntegundinni. Þetta var gert til þess að undirbúa bragðskinið og meðtaka vínið fullkomlega. Hann setti stút á munninn hallaði glasinu upp að og sötraði vínið. Svo velti hann því um í munninum, á milli tannanna og undir tunguna og kyngdi. Hann andaði frá sér með nefinu og lokaði augunum. Mér langaði að stinga búrhnífnum í hálsinn á honum og sjá hann blæða út yfir rauðu eplin og sítrónurnar.
Þetta var ‘Kitchen Devils’ hnífur úr ryðfríu stáli. Það voru fimm gerðir af hnífum í settinu. Sá minnsti var til þess að flysja kartöflur, sneyða ávexti og jafnvel nota sem smjörhníf. Tveir næstu voru á stærð við venjulega borðhnífa en bitu miklu betur. Þeir voru aðalega notaðir til þess að skera seigar steikur og einnig var gott að búta niður hráan fisk og jafnvel úrbeina. Síðan kom stunguhnífurinn sem var langur og grannur. Hann var notaður til þess að skera niður stór kjötstykki. Hann festist ekki á leiðinni heldur rann ljúflega í gegn. Þessi hnífur sem var núna í vasanum mínum var sá stærsti í settinu. Hann var ekki svo beittur, ég sá í rauninni eftir því að hafa ekki tekið stunguhnífinn sem hefði líklega gert meira gagn. Þennan hníf notaði ég oftast við að saxa niður grænmeti og ýmislegt annað sem fer í salat. Hann var með mjög litlar tennur í bitinu og eiginlega minnstu tennurnar af hnífunum í settinu. Ég sá fyrir mér að þurfa að nota mikinn stungukraft ef ég ætti að ná honum öllum inn í einhvern líkama. Hlífin á haldfanginu var minni en á hinum því að það er ekki gert ráð fyrir að hann væri notaður sem stunguhnífur því að gripið myndi auðveldlega renna niður á stálblaðið.
-Símon, öskraði Vilfred. Hvað er að þér maður. Það er ekkert hægt að tala við þig. Það er eins og þú sért ennþá heima og hafir sent líkama þinn með okkur.
-Ég var að hugsa um konuna sem lést einhverstaðar í Austurlöndum.