Club Fabio

Það var andartakshugdetta sem fékk mig til þess að staldra örlítið við anddyrið á íbúðinni. Hurðin var galopin og lyftan beið. Ég snéri inn aftur án þess að hugsa og fór inn í eldhús. Þar rótaði ég í skúffunum en varð öskuillur þegar ég fann ekki neitt sem líktist tréexi, t.d. kjötexi eða sveðju. Ég tók utan um stóran búrhníf og stakk honum innan á svartan Gucci frakkann. Ég leit í spegilinn á leiðinni út og athugaði hvort brúnkukremið væri raunverulegt eins og í sjónvarpsauglýsingunni. Húðin var örlítið ljós í kringum augun. Ég setti upp Ray Ban sólgleraugu sem ég hafði keypt vikuna áður og hljóp út.
Vilfred og Beringer sátu úti í bíl. Ég settist við hliðina á Beringer og passaði að hann fyndi ekki fyrir hörðum útlínum hnífsins.
-Við erum búnir að bíða hérna heillengi, sagði Beringer pirraður þegar bíllinn var lagður af stað.
-Club Fabio, sagði Vilfred við bílsstjórann.
-Hafið þið heyrt eitthvað um Club Fabio, spurði ég og þóttist ekki heyra kvartanir Beringer.
-Það eru allir á leiðinni þangað í kvöld. Ef við komumst ekki inn þá erum við lúðar, svaraði Vilfred.
Bíllinn þeyttist eftir blautri götunni framhjá grárri tveggja turna kirkju. Þar sá ég tvo útigangsmenn ýta búðarkerrum uppfullum af plastdósum og alls konar drasli. Einn þeirra sem var með göngustaf gekk að grænni ruslatunnu, stakk stafnum ofaní og hrærði. Plastflaska poppaði uppúr og var gripin af rauðköldum höndum.
Ég leit á Rolex úrið mitt. Klukkan var rétt um níu.
Við hölluðumst allir til vinstri þegar leigubílsstjórinn beygði kröftuglega til hægri niður götuna hjá kirkjunni. Beringer klessti mig upp við bílrúðuna þannig að gervibrúnt andlitið flattist út og úr varð brúnt munstur. Ég þurrkaði rúðuna með vasaklútnum sem bar upphafsstafina mína S.S. (Símon Smith).
-Er þetta nýr frakki, Símon, spurði Vilfred og hallaði sér fram þannig að hann sæi framhjá Berenger sem sat feitlaginn á milli okkar.
-Já. Frá Gucci. Þetta er úr nýju haustlínunni þeirra.
-Ég hélt þeir ætluðu að halda sér við líflega liti fyrir haustið. Ég held ég hafi lesið að þeir stefndu á efnisminni og fínlegri föt, sagði Vilfred og lét augabrúnirnar falla yfir augun eins og hengiflug.
-það er rangt með frakkana. Þeir eru úr þykkum ullarkenndum efnum allt í þessum dauðu haustlitum. Brúnrauðum nokkurn vegin ryðguðum, dauðgrænum og sígildum svörtum litum. Stórir og miklir frakkar á meðan jakkafötin innundir eru fyrirferðarlítil og látlaus. Bindi oftast í kröftugum litum sem á að bera upp annars látlaus jakkafötin.
Ég gladdist yfir því að hafa keypt þennan þykka og mikla frakka.
Húsasundin urðu þrengri og lýsingin minni á meðan bílinn þeyttist eftir blautu stræti hverfis sem leit út fyrir að vera iðnaðarmannahverfi. Haustlitirnir voru þar ríkjandi á byggingunum. Sérstaklega rauðbrúnt ryð á gömlu járndrasli sem hékk utan á ónotuðum verksmiðjubyggingum.
Vilfred var klæddur í svartan leðurfrakka úr þykku glansandi leðri. Innundir var hann svo í dökkgrænni Versace rúllukragapeysu og Ljósgráum Melka polyester buxum. Hárið var svart bustaklippt og það glansaði í blilljantínið þegar götuljósin leiftruðu inn í bílinn.
Ég bölvaði í hljóði að hafa ekki sett eitthvað utan um hnífinn. Oddurinn var byrjaður að grafa sig ofan í brjóstvasann á nýja frakkanum. Ég tók utan um haldfangið og lyfti hnífnum aðeins upp til þess að hlífa vasanum. Ég þurfti fljótlega að sleppa takinu því að við vorum komnir að Club Fabio. Ég og Beringer stigum út á meðan Vilfred borgaði fyrir bílinn.

Framhald ef einhver segist vilja framhald