Hefndin er ljúf Nóvember, 2004


Á köldum nóvembermorgni var fólkið í Holtaselinu í Breiðholtinu að vakna á nýjan leik og að búa sig til vinnu. Guðmundur Halldórsson var að verða of seinn í vinnuna og var að drífa sig út með ruslið þegar hann skynjaði mann, sem labbaði á móti honum úr garðinum. Maðurinn var með hafnaboltakylfu í hendinni og þegar hann sá að Guðmundur hafði komið auga á hann fór hann að hlaupa á móti honum. Guðmundur varð alveg dauðhræddur og spretti eins og hann gat að gulu Hondunni sinni, sem var lögð nokkrum metrum frá húsi hans. Hann byrjaði að grafa í buxnavasanum eftir lyklunum sínum. Hann leitaði og leitaði en fann ekki lyklana. Hann heyrði í mölinni fyrir aftan sig að maðurinn nálgaðist. Svo fann hann fyrir þungu höggi í höfuðinu og féll til jarðar.
Þegar Guðmundur loks vaknaði fann hann fyrir gríðarlegum sársauka í höfðinu og fann storknað blóð á enni sínu. Eftir smá stund þegar hann loks opnaði augun áttaði hann sig á því að hann var lokaður inni í skotti bíls. Bíllinn virtist vera á fullri ferð. Guðmundur leitaði að farsímanum sínum sem hann hafði verið með á sér um morguninn. Hann fann hann ekki, maðurinn sem réðst hafði á hann var greinilega ekki alheimskur. Guðmundur lá þarna í það minnsta tvær klukkustundir eftir að hann hafði vaknað. Hann hugsaði með sjálfum sér hvort einhver í vinnunni mundi skipta sér af fjarveru hans því han var ekki beinlínis vinsæll meðal samstarfsmanna sinna. Hann var einrænn, bitur og átti fáa vini. Guðmundur vann í Sorphreinsun Reykjavíkurborgar og hafði unnið þar í næstum fjóra áratugi. Síðastliðin tíu ár hafði hann umsjón yfir öllum ruslabílum í Breiðholtinu og þótti það eftirsóknarvert starf og margir í fyrirtækinu öfunduðu Guðmund sökum þess. Það var mikil virðing sem fylgdi þessu starfi og Guðmundur sinnti því manna bestur.
Mitt í þessum pælingum fann hann að bílinn hafði stöðvast. Hann fylltist enn og aftur sömu hræðslu og þarna fyrr um morguninn. Skottið opnaðist og Guðmundur sá ekki neitt sökum ofbirtu. Honum var lyft úr skottinu og var svo dreginn inn í hús sem virtist vera sumarbústaður því Guðmundur sá engin önnur hús í nágrenninu. Þegar hann var kominn inn henti maðurinn honum á gólfið. Guðmundur leit á mannin og kannaðist við svipinn en hvernig sem hann reyndi að muna hvaðan, gat hann það ekki. Maðurinn byrjaði að kýla og sparka í Guðmund af miklu afli. Guðmundur reyndi eins og hann gat að verja sig fyrir höggunum sem dundu á hann hvað eftir annað og fékk hann mörg högg í höfuðið. Hann lokaði augunum og óskaði þess að höggunum linnti. Svo allt í einu hættu höggin. Guðmundur opnaði augun og leit upp. Honum brá gríðarlega þegar hann horfði beint í haglabyssuhlaup. Hann horfði aftur á mannin og þá rann upp fyrir honum hvaðan hann kannaðist við þennan svip. Svo varð allt svart….


Nóvember, 1984


Það var mikil tilhlökkun á heimili Hafliða Þórs Hafliðasonar þegar hann tilkynnti fjölskyldu sinni að frábær staða væri að losna í fyrirtækinu þar sem hann vann. Hafliði var rúmlega þrítugur og hafði unnið sem ruslakarl á götum borgarinnar í tæp 10 ár. Þessi frábæra staða var sem yfirumsjónarmaður allra bíla fyrirtækisins í Breiðholtinu. Hafliði var mjög vinsæll meðal vinnufélaga og sinnti starfi sínu með miklum sóma. Þessi staða mundi þýða umtalsverða launahækkun og nánast enga útivinnu. Hafliði var stórskuldugur og þessi staða mundi þýða að hann gæti borgað upp skuldirnar á tiltölulega stuttum tíma. Hafliði talaði við yfirmann sinn og var honum nánast sagt að hann hefði fengið stöðuna því engin annar stóð honum jafnfætis varðandi hæfni og reynslu.
Vonbrigðin voru því gífurleg þegar fréttin barst að hann hafði ekki fengið stöðuna heldur einhver alveg óþekktur gutti að nafni Guðmundur. Hafliði fór beinustu leið til yfirmannsins og spurði hvað hafði gerst, af hverju hann hefði ekki fengið stöðuna. Yfirmaðurinn sagði orðróminn hafa borist til hans frá fleiri aðilum um áhuga Hafliða fyrir litlum drengjum. Hafliði var alveg öskureiður og neitaði þessu öllu því hann hafði jú aldrei gert neitt svona ógeðfellt. Yfirmaðurinn sagðist ekki trúa honum og bað hann vinsamlegast að fara og koma aldrei aftur. Hafliði neitaði og trylltist svo að kalla þurfti til lögreglu til þess að róa hann niður.
Hafliði náði sér aldrei eftir þetta. Hann reyndi í fyrstu að fá sér nýja vinnu en svo virtist sem allir vissu. Hann lagðist í drykkju og heróínneyslu sem varð til þess að konan hans og barn fóru frá honum. Hann lifði í neyslu í rúmt ár eða þar til hann missti húsið og þá flutti hann til Svíþjóðar en fyrirfór sér skömmu eftir það.




Sonur Hafliða, Hlynur átti erfiða æsku sökum láts föður síns. Hann var bara strákur þegar það gerðist en hafði bara góðar minningar af honum og saknaði hans alltaf mikið. Lítið var talað um föður hans og virtist sem hann hafði gert eitthvað hræðilegt en aldrei var sagt neitt við Hlyn. Þegar Hlynur var orðinn tvítugur gat hann ekki lifað í óvissunni lengur og fór að spyrja móður sína um föður sinn. Hún reyndi eins og hún gat að komast hjá því en Hlynur gafst ekki upp. Hún sagði honum þá frá því að faðir hans hafði verið sagður barnaníðingur en aldrei verið dæmdur. Svo sagði hún honum alla söguna alveg til enda. Hlynur átti erfitt með að trúa að þetta væri satt. Hann fór að leita í fórum föður síns í geymslum og hjá ættingjum. Loks fann hann gamla dagbók frá þessum tíma. Hann las hana alla og fann loks því sem hann var að leita að. Í bókinni stóð að faðir hans neitaði öllum ásökunum og vissi ekki hvaðan þær komu en hann hafði sterkan grun um að það væri Guðmundur Halldórsson, maðurinn sem fékk stöðuna. Hlynur fór þá til fyrrum yfirmann fyrirtækisins þar sem faðir hans hafði unnið. Hann fór í mikilli reiði og tók með sér hafnarboltakylfu og haglabyssu. Hann hótaði yfirmanninum og fékk loks út úr honum það sem staðfesti grun föður hans. Það hafði verið Guðmundur og enginn annar sem komið hafði þessari lygasögu af stað. Hlynur strunsaði út og fór beinustu leið í Breiðholtið. Nánar tiltekið Holtaselið…