Ég er tvítugur einstaklingur. Hluti af samfélagi og þó ekki. Kannast ekki við það að hafa samþykkt að vera hluti af þessu samfélagi sem er þó allt í kringum mig.

Það er í senn kæfandi og upplífgandi, kremur mig til dauða að lokum.

Þessvegna finnst mér best að þykjast vera steinn. Það tekur enginn eftir steinum þar sem svo mikið er af þeim. Enginn talar við mig í steinsforminu mínu og líkar mér það vel.
Ég hef engar skyldur gagnvart öðru fólki meðan ég þykist vera steinn.
Sem steinn þá er ég ekki hluti af neinni heild og er því algerlega óháður öðrum verum. Hvort sem það eru fuglar eða fiskar.
Alvöru steinar þurfa reyndar ekki á neinum að halda. Ég þarf auðvitað að fá einhverskonar fæði og anda að mér súrefni. En það eru allt líkamlegar þarfir sem fljótt eru uppfylltar af sjálfum mér.

Andlegar þarfir er aðeins erfiðara uppfyllingarefni.

Þegar ég hef verið í steinaformi mínu þá hef ég samt tekið eftir öðrum steinum. Steinarnir hafa verið eftirtektarverðir þar sem þeir í raun eru manneskjur sem eru að þykjast vera steinar, rétt eins og ég. Þar sem ég að eðlisfari er forvitinn langar mig auðvitað að komast að því hví þetta fólk hefur valið leið steinsins.

Hlyti að geta spurt sjálfan mig þar sem ég hef valið þessa leið sjálfur, en ég er bara ekki allt of viss með sjálfan mig. Ég veit ekki einusinni hvort ég í raun sé steinn að þykjast vera manneskja. Mig langar að komast að þessu en ég veit ekki hvert ég á að snúa mér.



Einu sinni var til steinn sem hét Jói. Jói þessi var bráðgáfaður og gekk honum vel í skólanum. Hann átti einnig fjölmarga vini sem hann lék við á hverjum degi. Dag einn var honum falið ritgerðarefni í skólanum. Hann átti að skrifa ritgerð um fugla. Jói vissi nákvæmlega ekkert um fugla og hegðun þeirra. Það eina sem hann vissi var að þetta væru frjálsar verur sem gætu lifað jafnt í lofti sem á landi.

Jói var staðráðinn í að skrifa bestu ritgerðina í bekknum sem hann var í. Það kemur því miður ekki fram í hvaða bekk hann Jói var í þá. Það fyrsta sem huga þarf að við ritðgerðarskriftir er gagnasöfnun. Maður þarf að leita sér upplýsinga um viðfangsefnið á einhvern hátt. Maður þarf svo að skoða þessar upplýsingar vel til að læra eitthvað um þetta ákveðna viðfangsefni.

Fuglar eru erfiðar verur. Þeir eru sjaldnast lengi á hverjum stað og eru fljótir þeirra á milli. Steinarnir vissu því lítið um fuglana og hvernig þeir notfærðu sér kraft vindanna. Þetta var erfitt verkefni fyrir hann Jóa.

En Jói var vel uppalinn og ekki vanur að gefast upp þegar á móti blés. Hann tók sig saman og ákvað að kanna lifnaðarhætti þessara undarlegu vera. Fuglarnir eru allstaðar, jafnt í bæjum sem og í skógum. Þeir eru jafnvel úti á engjunum og auðvitað í loftinu sjálfu.

Jói ákvað að leita að fuglum í skóginum, þar sem skógurinn hefur fleiri lífverur að geyma en nokkur annar staður. Veðrið var frábært, sólin skein og aðstæður voru allar hinar bestu fyrir stein í göngutúr.
Gangan var þó erfið enda vita allir að steinar ekki geta gortað af vöðvamiklum höndum eða fótum.

Steinar geta þakkað fyrir að vera ekki algerlega ‘steinaðir’ út í gegn. Þeir eru með lítið holrúm inni í sér þar sem þeir geta fært massa til. Þannig geta þær hent massa til og frá og fengið sjálfa sig til að rúlla áfram.
Þannig virkar hreyfigeta steina. Þeir verða mjög þreyttir eftir lítinn tíma og litla vegalengd svo það er ekki skrítið ef þið sjáið steinhleðslur haldast í langan tíma.
Það er þó staðreynd að hleðslur færast til og aflagast með árunum, það eru steinarnir sem eru að færa sig í leit að ævintýrum.

Tími í veröld steina líður miklu hægar en hjá okkur mönnunum. Það sem virðist vera ár hjá okkur er aðeins um það bil korter hjá steinunum.

Það ætti því engan að undra að steinar hafi mikið yndi af náttúrunni. Hlýtur að vera yndislegt að geta heyrt og jafnvel séð graxið vaxa. Hvað þá að geta séð trén stækka. Allir ættu að vita að trén eru gædd sjálfstæðu lífi. Jafnvel laufin á greinum trjáa eru gædd lífi, og það sjálfstæðu. Hver skilgreindur lífrænn hlutur gæti haft sjálfstæða hugsun og átt sér einhverskonar líf.

Þessvegna gætu sumir haldið að það sé erfitt fyrir steinana að fylgjast með öðrum lífverum vegna þess mikla tímamuns sem gætir í lífi okkar. Sannleikurinn er sá að tímamunurinn er misjafn milli tegunda. Öll höfum við til dæmis heyrt um hundalíf. Við vitum að gæludýr manna sjaldnast lifa lengur en eigendur þeirra, enda líður tíminn mun hægar hjá þeim.

Fræðilega séð ætti því að vera mögulegt fyrir steinana að hafa einhverskonar samskipti við önnur lífform. Jafnvel fugla.



Og ef það væri eitthvað vandamál þá væri hægt að notfæra sér túlka til að miðla boðum milli steina og annarra lífrænna hluta.

Steinar lifa í mörgþúsund ár. Þeir lifa þar til umhverfinu tekst að brjóta þá niður.

Sama með menn. Andlega og líkamlega.

Allavega, Jói tók nokkur mannleg ár í að komast út í skóginn þar sem trén eiga heima. Það virtist vera langur tími, jafnvel fyrir hann, enda var hann mjög þreyttur þegar hann loksins komst á áfangastaðinn. Þar var allt grænt enda var skógur þessi fagurlega vaxinn með gróður eftir allri jörðinni sem og stór og tignarleg tré sem gnæfðu þar yfir.

Jói var orðlaus yfir fegurð þeirri sem skógurinn hafði upp á að bjóða. Hann hafði aldrei séð slíkt áður og varð þeim mun gáttaðri er hann sá hversu mikið líf var þarna. Sérhver laufblað virtist hreyfa sig á sinn eigin hátt og átti það þátt í þeim dulrænu töfrum sem skógurinn skapaði.

Steinninn góði þurfti ekki að leita lengi til að finna fyrsta fuglinn. Reyndar þurfti hann alls ekki að leita þar sem undrun hans var rofin er hann var hafinn á loft. Jói var alls ekki stór steinn og virtist hrafn nokkur hafa fengið áhuga á honum við hreiðurgerð sína. Hrafn þessi var eins og aðrir hrafnar, svartur og stór.

Það leið ekki langur tími þartil Jói var kominn í hreiður hrafnsins. Hann beið ekki boðanna og spurði hrafninn fjöðrunum úr. Hrafn þess hafði margar góðar sögur að segja af hrekkjabrögðum sínum og uppátækjum.
Reyndist hann hafa sérstakt yndi af að stríða hundum og lýsti hann því reyndar yfir að það væri hans sérfræðigrein. Þar sem Jói hafði fengið svo margar upplýsingar af hrafninum varð hann eiginlega að spyrja hann að nafni þar sem vani er að geta heimilda í ritgerðasmíðum.

Sagðist hrafninn heita Guðmundur og vera frá norðurlandi.

Tók nú Jói við að segja sögur af lífi sínu sem steinn. Þó svo að líf steina skorti hugsanlega viðburði á okkar tímaskala þá eiga þeir það langt líf að margt getur skeð. Urðu Guðmundur og Jói mætir vinir með þessum samræðum enda höfðu báðir frá mörgu skemmtilegu að segja. Þess má til gamans geta að pólitísk afstaða þeirra beggja var sú hin sama. En það er auðvitað efni í margar aðrar sögur. Sögur sem gaman væri að fá höfundarlaun frá Alþingi fyrir.



Guðmundur bauðst nú til þess að fara með Jóa í skemmtiferð til næsta bæjar þar sem fjárhundur væri. Fjárhundar eru auðvitað hunda skemmtilegastir þegar kemur að stríðni enda eru þeir ávallt mjög stoltir og reiðast auðveldlega þegar einhver reynir að hafa þá að háði.

Fjárhundur þessi, sem reyndist heita Regnbogi, var hinn skemmtilegasti er Guðmundur settist stutt frá honum og flagraði svo burt í hvert sinn sem Regnbogi nálgaðist.

Nú er gott að vera steinn þar sem Guðmundur missti Jóa í eitt skiptið er hann hætti sér of nálægt. Jói fékk að læra hvernig meltingarfæri hunda virka er hann tók sér dags ferðalag í allt öðrum heimi. Það skipti ekki beint máli þar sem steinar þurfa ekki að borða.

Það góða var að Regnbogi skilaði honum ekki langt frá heimkynnum Jóa, og tók það eins nokkur mannár fyrir hann að komast að skólanum og skila ritgerðinni um fuglana, sem hann vissi nú svo miklu meira um.

Jói hafði nú prufað ýmislegt meðan hann stundaði steinslíkið. Ævintýrin fengu hann þó til að efast um steinakenninguna og skipti hann yfir eftir nokkur ár. Ritgerðir hinna steinanna fengu hann til að sjá hversu leiðinlegt líf steina er. Hann er núna einn af þeim sem brosir til þín er þú verslar í Fjarðarkaupum. Hann setur glaður vörurnar í poka eða kassa fyrir þig og nýtur þess að skila frá sér glöðum viðskiptavinum.

Hann uppgötvaði að form steina ekki er besta leiðin til að takast á við lífið með. Það skilar þér auðvitað gegnum meltingarfæri hunda ósködduðum, en að prufa eitthvað nýtt tekur svo miklu lengri tíma en ella. Fyrir utan þá staðreynd að það eru svo miklu minni líkur á að eitthvað spennandi og skemmtilegt komi fyrir steinana.

Kannski er það þessvegna sem ég efast um eigin tilvist. Kannski er ekkert sniðugt að vera steinn. Ég veit það samt ekki, ég er enginn Jói.
Það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur.