A/N: Hvað get ég sagt? Mér leiddist í vinnunni.. >_>

——-

Ég get ekki annað en hlegið að sjálfum mér þegar ég hugsa til baka. Ég sé allar vísbendingarnar sem fóru framhjá mér, öll orðin sem höfðu dýpri merkingu en þá á yfirborðinu sem ég greindi. Ef ég hefði bara kafað dýpra.

Ég segi ekki að ég ásaki mig fyrir aðgerðaleysið. Ég spyr mig ekki hvernig þetta hefði allt getað farið ef ég hefði gripið teiknin á lofti, en ekki einungis hirt upp niðurtraðkaðar tjásurnar sem eftir lágu vikum seinna.

Nei. Ég hlæ að mér af því að það kom mér á óvart.

Ég velti því stundum fyrir mér hvort hún hafi fundið það á sér eða hvort hún hefði tekið ákvörðun um að enda það. En á endanum var það vetrarkuldinn sem lauk því fyrir hana.

Í minningunni stendur eitt samtal okkar ávallt upp úr. Það var um það bil tveimur vikum áður en hún fór suður. Henni hrakaði fljótt einn daginn. Hún féll í mók eitt skiptið er ég var hjá henni. Ég hristi hana alla, æpti nafnið hennar og gaf henni selbít, en allt kom fyrir ekki. Nokkrum mínútum síðar vaknaði hún. Þá var allt heimilisfólkið komið að og búið að færa hana aftur í rúmið sitt.

Seinna um kvöldið þegar allir aðrir voru farnir leit hún á mig og beislað bros.

„Hví ferð þú ekki heim líkt og allir aðrir?“ spurði hún mig upp úr þurru.
Við þessu hafði ég engin svör svo ég þagði.
„Varstu áhyggjufullur?“
Ég umlaði eitthvað og leit undan.
Þá lagði hún hönd sína á mína, brosti út í annað og leit í augu mín.
„Engar áhyggjur. Ég kveð þig áður en ég fer.“

Við nefndum þetta aldrei aftur. Lækninum leist á endanum ekki á blikuna og ákvað að best væri að senda hana suður. Sjóleiðis, helst, því hún gæti ekki setið hest.

Ég man enn eftir því er ég kvaddi hana á bryggjunni.

Raunar laug ég áðan er ég sagði mig aldrei kafa dýpra í orð hennar. Ég gerði það er ég kvaddi hana. Hún var dúðuð upp í ull frá toppi til táar. Þá hafði hún ennþá nægan styrk til að kveðja alla með handabandi eða stöku faðmlagi, hún smellti jafnvel einum á kinnina á mér.

Ég sé hana ennþá fyrir mér við handriðið, veifandi, er báturinn sigldi hægt frá landi. Svo hallaði hún sér fram á handriðið og kallaði á mig.

„Indriði!“

Ég leit á hana með undrunarsvip, en hún gaf mér ekki færi á að svara.

„Vertu sæll!“

——-
"