Þetta er saga sem var skrifuð fyrir u.þ.b. 7 árum síðan á mjög stuttum tíma, og er í raun eina smásagan sem ég hef skrifað sem hefur orðið einhver saga.

Tek fram að ég var undir nokkrum áhrifum frá Andra Snæ Magnasyni og þá sérstaklega smásagnasafninu “Engar smá sögur” eftir hann. Njótið vel… :)

———————————–

Líf mitt hefur alltaf gengið sinn vanagang, ekkert sérstakt né merkilegt gerst hjá mér nema kannski þegar ég náði því merkilega afreki að finna mér almennilega vinnu. Ég, sveitalubbinn, fékk vinnu sem yfirdanshöfundur hjá stóru fyrirtæki sem sérhæfði sig í landflutningum. Ég gerði það sama alla daga, gaf mig á vald vöruflutningabílanna og dansaði polka við þá daginn út og inn. Er ég varð þreyttur á því hóf ég að nota bílana til að hagnast á þeim. Seldi þá út til að dansa, þá sérstaklega tangó, á ýmsum klúbbum og skemmtunum hundavinafélagsins á kvöldin. Það gekk vel og engin tók eftir misnotkun minni fyrst í stað. Vöruflutningabílarnir áttuðu sig ekki á því að ég væri að svindla á þeim.

Ætli efasemdir yfirhunda minni hafi ekki byrjað fyrst fyrir alvöru er einn bílanna missti taktinn er hann var að dansa sömbu til Þorlákshafnar með þeim afleiðingum að bæði bíllinn og danshöfundur hans fengu að fjúka, og þá meina ég fjúka. Við rannsókn málsins kom margt upp úr dúrnum. Þar á meðal kom í ljós að bíllinn hafði allt í einu ruglast og byrjað að dansa tangó en þann dans var samkvæmt lögum ekki leyfilegt að kenna bílunum, hætta var talin á að það hefði einhverjar miður góðar kynferðislegar afleiðingar í för með sér. Afkvæmi tveggja vöruflutningabíla er venjulega hent á haugana og það vill oft setja þá aðeins út af laginu. Því var talað við mig, yfirdanshöfundinn, um þetta mál.

Þennan grámyglulega morgun var ég nýkominn til vinnu er tíkin kom með skilaboðin til mín.

„Urrrr, Voffff, vof“ sagði hún mjög alvarlega.

„Grrr, vofff“, svaraði ég og bætti við„Voff, voff, vofff, urrr“

Ég áttaði mig á alvöru málsins við háttalag hennar. Hún var vön senda eitt fallegt bofs í áttina til mín á morgnana en nú var það horfið og í staðinn kom þessi hranalegi talsmáti. Ætli það sé planið hjá þeim að taka mig á teppið og hundskamma mig, hugsaði ég með mér.

Ég ákvað að reyna að hraða för minni sem mest ég mátti til stofunnar. Þegar þar var komið var hún Þruma, einkaritari Loða, ekki á staðnum. Ég hikaði í smá tíma áður en sú dýrslega ákvörðun var tekin að klappa á hurðina. Þrúgandi þögn fyllti loftið í nokkrar sekúndur eftir klappið en síðan drundi innan úr stofunni:

„MEEMEE“, en á eftir fylgdi „ meee, mee, me, meee“

Mér brá við er ég heyrði þetta háa jarm og setti það mig aðeins út af laginu. Ég hafði aldrei búist við að þetta hefði borist til lögreglunnar.

Ég skellti trýninu á hurðina og hún opnaðist hægt og rólega. Þegar ég kíkti inn sá ég af hverju Þruma hafði ekki verið á sínum stað fyrri utan. Búið var að binda hana við jötu í horninu. Loði var á sínum stað á standinum sínum en núna höfðu bæst við tvær löggur á hina tvo gestastandana. Þá vissi ég að þær grunaði eitthvað.

„Mee mmee me. Meee meee me meme“ var það fyrsta sem kindurnar sögðu. Ég var í djúpri mykju. Ég vissi að ég mátti ekki hreyfa mig of mikið vegna þess að þá myndi ég sökkva enn dýpra.

Þær þaulspurðu mig um hvaða hlutverki ég gegndi hjá fyrirtækinu og spurðu hvort ég hefði eitthvað komið nálægt því að kenna bílunum tangó. Þær hótuðu að gelda mig eins og Þrumu. Ég sagðist ekki kannast neitt við þessa svokölluðu tangókennslu og það væri fullt af kennslumyndböndum um það hvernig ætti að læra tangó á borð við metsölutiltla eins og „How to learn to dance Tango in 5 easy steps with Arnold Schwarzenegger.“ Lögreglukindurnar skellijörmuðu en fljótlega var komið annað hljóð í strokkinn. Þær vildu vita hverjir stæðu á bak við þessa Tangó-uppreisn, annars yrði ég og fjölskylda mín send í þrælkunarvinnu á Bretlandseyjum. Þá varð ég hvumsa við en viðurkenndi samt ekki sekt mína. Loks gáfust þær upp en jörmuðu því að mér að þær myndu jarma við mig seinna. Ég hafði forðað mér frá að sökkva í þetta sinn.

Mér fannst eins og þungri ól hafði verið lyft af hálsi mér er ég slapp út. Að loknum vinnudeginum trítlaði ég heim.

Daginn eftir var eins og það væri mun léttara yfir öllu. Tíkin bofsaði að mér einu daðurslegu bofsi eins og venjulega og við það létti mér. En Adam var ekki lengi í Paradís því er ég kom í æfingasalinn minn biðu eftir mér nokkrar lögreglukindur. Þær sem ég hitti í gær voru þar fremstar í flokki. Það var greinilegt að þær höfðu talað við vörubílana og fengið upp úr þeim það sem þær vildu. Þegar þær bjuggust til að handtaka mig hrópaði ég að þeim:

„Það var ekki ég sem átti upptökin að tangó-byltingunni heldur var það Loði“

Við þessi orð mín stóðu kindurnar alveg grafkyrrar í nokkrar sekúndur. Eyru þeirra stækkuðu og þær virtust ekki ætla að trúa þessu. Ég áttaði mig á mistökum mínum um leið og seinasta orðið flaug út úr mér. Ég hafði komið upp um dulargervi mitt og ég vissi að hundakúnstir mínar mundu engin áhrif hafa lengur. Ég stóð kyrr í örfá andartök áður en ég vaknaði af þessum dásvefni. Ég gerði tilraun til að forða mér en þá var eins og kindurnar áttuðu sig á því að það mátti auðvitað alls ekki láta mig sleppa. Þær réðust á mig af grimmd sem aðeins kindur og lömb eiga til. Það var það seinasta sem ég man eftir mér.

Kannski er tími til kominn að segja ykkur forsögu nútímans áður en lengra er haldið. Er kindin Dollý var klónuð hófst nýtt skeið í sögu heimsins. Kindurnar áttuðu sig á því hversu mikilvægar þær væru fyrir allt líf á þessari jörð. Þær náðu með hjálp fyrrum óvina sinna hundanna að fella mennina á sínu eigin bragði, græðginni. Þær komu af stað miklu verðfalli í kauphöllum um allan heim með því að dulbúa sig sem fjárfesta og komu við það bönkum heimsins á hausinn. Er það var búið lá heimurinn að klaufum þeim og mennirnir frömdu sjálfsmorð í hrönnum. Er mannfjöldi jarðar var kominn niður í eina milljón tóku seinustu leiðtogarnir með viti sig saman og sameinuðu allan fólksfjöldann á eyjaklasa út í miðju ballarhafi er hét Færeyjar og var þar seinasta vígi mannsins. Þar voru höfuðstöðvar andspyrnuhreyfingarinnar.

Er ég opnaði augun sá ég ekkert nema rimla. Það tók mig nokkrar sekúndur að átta mig á því hvar ég var. Ég hafði verið fluttur í hundabyrgið og búið var að svipta mig dulargervinu. Ég vissi hvað beið mín, ég var að fara í hundana. Ég tilheyrði óæðri dýrategund sem átti enga framtíð fyrir sér, fyrrverandi drottnarar jarðarinnar höfðu misst allt niðrum sig og kindurnar höfðu gripið buxurnar og troðið sér í þær. Úlfar í sauðagæru eiga sér víst enga lífsvon eftir að gæran er rifin af þeim, þeir eru sendir beint í sláturhúsið þar sem þeim er slátrað, ásamt öllum hinum eldismönnunum sem eru notaðir í kindafóður. Dauðinn beið mín eins og barn bíður jólagjafanna á aðfangadag, með mikilli tilhlökkun. Ég flýg með fæturna á undan út í eilífðina og ætli það séu ekki bara makleg málagjöld fyrir óæðri veru eins og mig.

Ég er maður.