Brotin ljósapera.
Bilað netkort.
Súkkulaðihúðaðir kleinuhringir.
Hamasaki Ayumi.


Sögusviðið er ljóst. Og þá meinar höfundurinn að sögusviðið sé mjög bjart. Það er sjaldnast dimmt inni á videoleigum. Lýsingin gerir það reyndar að verkum að þar inni er ávallt óþarflega heitt og mollulegt. Einstaklega óþægilegt að vera fastur þar inni með vinaskara að reyna að velja mynd. Fimmtán mínútur og þú ert heppinn.

‘Það verða 640 krónur’.
‘Takk’
‘Takk’
‘Takk sömuleiðis’
‘Kærar þakkir’

Það höfðu liðið fjórir mánuðir síðan ég hafði síðast farið á vídeoleigu og keypt mér brauð.
Neyðartilfelli. Ekkert annað en neyðartilfelli fær mann til að kaupa brauð á vídeoleigu.
Það fékkst þó skorið, eins gott. Ég kann ekki að skera brauð. Byrjun er alltaf góð en einhvernvegin tekst hluta brauðsins að vera tveimur tommum þykkari en aðrir hlutar þess. Svo er líka alltaf vesen að skera brauðið án þess að rispa undirlagið, sem oftast er matarborðið.
Stundum er hægt að setja disk undir brauðið en diskar eru alltaf kúptir svo það endar sjaldnast vel. Stór brauðhnífur og diskur sem sporðreisist? Ekki góð blanda það.

Ég hef 4 spor á efri vörinni sem staðfesta það. Hnífar eru stórhættuleg fyrirbæri. Brauðbrettið ætti alltaf að vera innan seilingar ef maður svo þarf að skera eitthvað. En það er svo spurning hvort brauðbrettið sé skítugt eftir að hafa skorið brauð á því.
Það sést enginn skítur á brettinu en það vita allir af bakteríum og svoleiðis jukki sem er ósýnilegt. Ætli maður þurfi virkilega að sápa brettið og skola eftir að hafa skorið sér tvær sneiðar af brauði?

Ég tek enga áhættu og kaupi skorið brauð. Þori ekki að lifa lífinu hræddur við allskonar óbjóð. Skorið brauð veitir mér öryggistilfinningu. Það virkar á mig sem matarkyns bílbelti.

Frábær orðaskipan í setningu. Við eigum til matarkyns nærbuxur, hvað er langt í matarkyns bílbelti?

En já, þetta var semsagt mitt fyrsta videoleigubrauð í einhverja fjóra mánuði. Annars var ég vanur að versla mér þetta brauð í Fjarðarkaup, krónunni, 10-11 og svo framvegis. Þessi dagur var samt frábrugðinn öðrum dögum.
Þetta var þriðjudagur. Og á þessum þriðjudegi ákvað ég að lifa lífinu hættulega og sletta verulega úr klaufunum. Það var þó ekki fyrr en seint um kvöldið að mér loksins tókst að telja í mig kjark og byrja þennan stutta spöl út að vídeoleigunni.

Það að lifa lífinu hættulega er nefnilega ekki neitt sem maður bara ákveður sisvona. Svona hugsanagangur tekur tíma að þróast. Og það slæma við þróun hugsanagangs er það að maður getur fengið ýmsar hugmyndir í kollinn án þess að vera viss um að maður geti treyst þeim. Þróunin breytir nefnilega hugmyndunum. Og þróun hættulegs lífs tekur dágóðan tíma. Millibilsástandið er allra verst í þessari þróun, maður hefur ekki hugmynd um hvort maður sé að verða geðbilaður eða ekki.

Hvaðan koma raddirnar sem mæla í hausnum á mér? Og hvernig kunna þær íslensku?

Ég tel þessar raddir vera hluta af þeirri þróun sem hugsanagangur okkar er. Við skiptum sífellt um álit og fáum mismunandi hugmyndir að verkefnum. Tilhugsunin um hættulegt líf hafði bærst innan í mér í nokkra daga áður en ég ákvað að útfæra hana að kvöldi þriðjudagsins. Dagarnir voru ekki slæmir, en næturnar voru hræðilegar. Mér tókst ekki að festa svefn og var sem í gufubaði.

Hollu heimilisráðin dugðu skammt. Sama hversu mikið af vatni ég drakk, sinnepi sem ég át og bómulli fór á milli tánna þá hætti ég ekki að liggja andvaka. Neyðin kennir naktri konu að spinna sagði einhver klár gaur fyrir einhverju langa löngu síðan. Hann hafði örugglega rétt fyrir sér að einhverju leyti.Andvökunætur eru hræðilegar, það vita allir sem þær hafa prufað. En þar sem hugmyndirnar voru farnar að myndast í kollinum á mér þá vissi ég nokkurnvegin um hvað málið snérist. Ég var einfaldlega of öruggur heima hjá mér.

Skjáreinn hafði sýnt mér ljósið í formi Bond mynda. Það er nefnilega ekki sérlega gaman að lífinu nema þú getir sagt fólki sögu af óförum þínum og ævintýrum. Barnabörnin geta nefnilega verið krefjandi þegar kemur að sögustund. Heimta þau vanalegast spennandi sögunar. Ef þú getur sagt þeim margar spennandi sögur þá elska þau þig meira en ella.

Ef ég hefði verið látinn segja barnabörnum mínum frá einhverju spennandi sem gæti hafa hennt mig þá hefði ég ekkert getað sagt. Og þessvegna lá ég baðaður í svita af kvíða.

Á leið minni út á videoleiguna fann ég hvernig heimsbyggðin horfði á mig. Ruslatunnukarlarnir unnu hægar en venjulega, aðeins til þess að geta gjóað augunum að mér. Leigubílstjórar stoppuðu við gangbrautir til þess að geta horft á mig. Það var allt öfugt þennan daginn. Fólk varð undarlegt. Jafnvel unglingarnir í bæjarvinnunni reittu arfa án afláts.

En það var ekki fyrr en að kvöldi þriðjudags sem ég hætti mér út í leit minni að ævintýrum. Jafnvel frægð og frama ef heilladísirnar lofuðu. Það var ekkert vandamál að rata á videoleiguna. Það var erfiðara að ganga fram hjá 10-11 þar sem ennþá var opið, vitandi af skorna brauðinu í hyllunum hjá þeim. Ég féll nánast og labbaði inn í 10-11 búðina. Gat ekki hætt að hugsa um þægilega lífið og öryggið.Varð að sjá brauðið.
Og það lá auðvitað á sínum venjulega stað, í sinni venjulegu hyllu. Vafið í grænt plast. Yndislegt.

Ég varð að snerta. Snerta þennan kalda hlut sem virtist vera svo heitur.

En mér tókst að halda aftur af mér og hlaupa út úr búðinni. Hlaupa út úr þessu bæli tælinga. Er ég var kominn fram hjá 10-11 búðinni var ekki mikið eftir sem ég þurfti að óttast. Ég bjóst seint við því að klæðskerar myndu labba út á götu og bjóða mér skorið brauð. Enda gerðu þeir það ekki, sem betur fer. Fallið hefði ég fyrir svo klóku bragði.

Hjartað byrjaði óneitanlega að slá hraðar er ég opnaði dyrnar á videoleigunni. Það var ekki vegna mollunnar, þetta var aðeins adrenalín æsingur í mér. Það tók líka tíma að koma sér að efninu. Ég var farinn að kunna röðina af spólum í einum rekkanum áður en ég loksins fékk mig upp að borðinu.
Þar bað ég um fínt brauð.

Óskorið.

Röddin brást mér næstum og það var aðeins með muldri sem mér tókst að gera mig skiljanlegan. Fæturnir virtuast hafa sjálfstæðan vilja þeim tókst að fá allan líkamann með í la kúkaratsja. En mig langaði ekkert að dansa þarna á staðnum. Mig langaði bara að klára komast sem fyrst útaf leigunni, burt frá starfsfólkinu sem horfði á mig þegar ég talaði.

’Viltu kvittun?’

Urr, nei takk. Alltaf verið að reyna að tefja mann. Það var eins og einhver hefði greitt starfsfólkinu aukalega þennan daginn, og fengi það bónus fyrir að tefja menn eins og mig.
En mér tókst það. Ég komst út með hvíta hálfgegnsæja plastpokann minn, með brauðinu.
Ég nánast hljóp heim, hræddur við lýðinn sem gæti verið úti á götunum. Hræddur við nóttina.

En ég hafði öðlast hugrekki við þessa framkvæmd. Hugrekki til að ganga lengra en áður.
Þetta brauð yrði ekki skorðið heima fyrir. Hér mundu verða notaðir guðs fingur. Planið var orðið það að ég skyldi horfa á sjónvarpið og opna lítið gat á endanum á brauðinu. Svo myndi ég hægt og rólega vinna mig inn að miðju brauðsins, aðeins til að éta innihald brauðsins . Hætturnar biðu mín. Ekki lengur í formi sjónvarpsþátta og annarra óraunverulegra hluta.

Ég hafði boðið þeim inn í stofu til mín, inn í eldhúsið mitt. Og sama var mér þótt ég myndi deyja það augnablikið þar sem hver biti var þess virði. Vellíðan flæddi um allan líkamann með hverjum bitanum. Þetta var eitthvað sem ég vildi halda áfram að gera.
Og tók ég því aðra ákvörðun í dag, eftir smá hugsanagang.

Ég mun framvegis kaupa óskorið brauð.

Því eins og áður hefur komið fram þá er tilgangslaust að lifa löngu og leiðinlegu lífi, mun skemmtilegra að njóta þess til hins ýtrasta, með vinum og vandamönnum. Takast á við hin daglegu ævintýri og njóta þess að vera til. Nýta þessi litlu vandræðalegu augnablik og læra á þeim. Reyna svo að koma sér í þessa sömu aðstöðu seinna meir og nýta sér reynsluna. Ég hef yndi af margskonar veseni, því það brýtur upp daginn hjá mér og veitir mér ánægju.

Þú getur gengið í marga daga án þess að þurfa að yrða á annað fólk og hafa samskipti.
Getur jafnvel haft viðskipti án þess að þurfa að opna munninn. Og það í okkar alvöru mannaheimum, í áþreifanlegri búð.

Það er frábært að horfa á annað fólk og þurfa ekki að tengjast því á neinn hátt. Horfa á hegðun þess og bera saman við eigin hegðun. Enn betra er að koma þessu fólki á óvart með því að bera útaf því sem við skilgreinum vanalega hegðun. Fólkið mun í flestum tilfellum brosa þar sem þú hefur orðið til þess að brjóta upp daginn hjá því. Þú hefur gert eitthvað einstakt. Þú hefur orðið til þess að fólkinu ekki líður eins og vélmenni. Það brosir til þín og það brosir vegna þess yndislega greiða sem þú hefur gert því.




Við ættum öll að kaupa óskorið brauð, alltaf, stundum.
Það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur.