Ég hef vægast sagt átt í vandræðum með sjónina í gegnum tíðina. Hún kemur og fer; týnist ýmist eða eyðileggst á milli þess sem ég kaupi mér ný gleraugu. Loks var svo komið að ég var hættur að reyna. Gleraugun máttu fara á vit allra veraldar, ég undi mér vel í minni þægilegu þoku sem gerðist æ þéttari. Ef ég heimti gleraugun úr helju, sem gerðist iðulega af og til, þá fannst mér það frábært. Heimurinn small allt í einu í fókus og allt var svo skýrt og tært. Meira að segja mjúkar Maríuvoðir himinsins virtust hvassar og til alls líklegar. Það væri dæmigert að skera sig á skýi. En brátt týndust gleraugun svo aftur. Aldrei brást það.
Þetta hefur verið einkar óheppilegt í ljósi þess að ég er aftastabekkjarmaður. Út grunnskólann undi ég þar hag mínum vel og varð þessi ekki var hvort eitthvað væri um að vera á töflunni sem vert var að taka eftir. Nei, mér stóð á sama. Það kom því heldur flatt upp á mig þegar ég tók fáeina fyrirframáfanga í framhaldsskóla og gerði mér skyndilega grein fyrir því að kennarar hefðu eitthvað að segja. Það var líka heilmikil uppgötvun þegar það rann fyrir mér að ekki einungis runnu út talfærum þeirra vísdómurinn sem beljandi stórfljót heldur lögðu þeir það líka í vana sinn að drita orðunum á töflunni til frekari varðveislu. Allt var það til einskis. Ég sat bara eins og blind hæna á aftasta bekk og hálfheyrnarlaus í þokkabót. Smásaman fikraði ég mig fram á fremsta bekk, en allt kom fyrir ekki.
Á svipuðum tíma tók ég það í mig að ekki barasta væri það þónokkuð gagnlegt að bregða einglyrninu fyrir augað í neyð heldur líka kúl. Ég sá sjálfan mig fyrir mér lesandi morgunblaðið í grænnipeysu, með gulrótarlitað hár, tottandi pípu og með stór þykk kringlótt ömmugleraugu. Eins og John Lennon ef hann hefði verið með gulrótargult hár og reykt pípu í stað þess að sprauta sig með heróíni.
Svo ég sínauðaði í móður minni langt fram á vetur án mikils árangurs. Henni fannst John Lennon ekki heilbrigð fyrirmynd og gleraugu fengi ég engin. Loks voru það námslegu rökin sem bræddu hana. Þau notaði ég margoft og ávallt með góðum árangri, og var það aðeins tilviljun að þau voru raunveruleg í þetta skiptið.
Ég fór til sjóntækjafræðings og komst hann að þeirri niðurstöðu að ég hefði jú smávegins sjónskekkju. Varla þó að það tæki að nefna. Kom það móður minni í opna skjöldu að nöldur mitt ættu sér fót í raunveruleikanum…
40000 króna gleraaugu gjössovel. Kosta gleraugu yfirhöfuð 40000 krónur? Allavegna tóks mömmu að finna gleraugu á þessu verði og mér stóð svo sem á sama svo lengi sem sterkir fjármögnunaraðilar stóðu að baki mér. Ég er alræmdur fyrir að týna öllum sköpuðum hlutum svo mamma varaði mig við: Ef ég týndi gleraugunum þá fengi ég ekki ný nema að borga þau sjálfur. Áhyggjur hennar voru ekki ástæðulausar. Viku seinna voru gleraugun týnd og eflaust eitthvað tröll einhverstaðar sem hefur haft gaman af þeim. Vonum það.
Þessi fyrsta gleraugnareynsla mín aftraði mér ekki vitund. Stuttu seinna var ég komin með alveg eins gleraugu sem ég hafði keypt á þúsund krónur í Kolaportinu. Þegar þau týndust keypti ég mér önnur í Kolaportinu á þrjúhundruðkall. Verðhjöðnunin í gleraugnabransanum var í öfugi hlutfalli við aukna eftirspurn.
Þetta gekk svo í dálítin tíma. Gleraugun urðu fleiri og fleiri, og sífellt ódýrari. En þeim mun ódýrari sem þau voru þeim mun styttri varð líftími þeirra. Ef þið haldið að ekki séu til gleraugu ódýrari en 300 kall þá höfðu þið rangt fyrir ykkur.
Loks gafst ég upp og sökkti mér í þunglyndi sem sér ekki í endan á.
Mánuðir og ár liðu og sífellt plagaði þetta mig. Gleraugnamissirinn var eins og svarthol sem dró úr mér allan mátt eða svartur hundur sem gelti allar nætur og hélt fyrir mér vöku. Ég hætti að hugsa um útlitið eða námið. Allt fór til andskotans. Vinirnir fuku einn af öðrum og fjölskyldan afneitaði mér. Ég var fastur í þessum vítahring. Líf mitt var líkt helvíti.

Víkur þá sögunni að deginum í dag.

Annað eins rok hafði ekki sést síðan 1889, en elsti maður sem mundi það lést í fyrra. Eftir óvenju gott sumar barði haustið heldur harkalega að dyrum. Vitaskuld er ég það þunglyndur að smá rok hefur lítil áhrif á mig. Mér finnst það bara gott að láta þeyta svolítið af draslinu sem ég sankaði að mér í sálartetrinu í burtu með vindnum. Þrátt fyrir mikinn vindgang þá var heitt og fremur mollulegt úti. Sólin var við það að setjast og vanillulitaður himinninn logaði. Allt var roðið í rauðleitum bjarma hálfrökkursins.
Ég var að rölta út úr Þjóðarbókhlöðunni til þess að fara heim að sofa. Fyrir framan mig dröslaðist kengbogið mannskrípi sem bauð illan þokka. Hann var illalyktandi og mér var skapi næst að ráðast aftan að honum, taka hann kverkataki og naga í burtu skítarendurnar undan nöglunum.
Á því augnarbliki sem ég ætlaði að láta verða að því greip annað athygli mína. Ofan af nefbroddi mannsins runnu líka þessu glæsilegu gleraugu. Ég hef alltaf verið veikur fyrir vænlegum augnbúnaði. Ég greip andann á lofti þegar þau féllu á marmaragólfið á milli fóta hans og skoppuðu eilítið upp aftur. Maðurinn virtist einskis var. Hann var hugsanlega blindur. Að minnsta kosti anaði hann útum glerdyrnar og út í eilífðina án þess að sakna tvíglyrnanna hið minnsta.
Hægum skrefum rölti ég upp að þeim, settist á hækjur mér og virti þau fyrir mér. Í fjarska hvarf maðurinn niður fyrir sjóndeildarhringinn, út fyrir bílastæðið. Þegar hann var horfinn sjónum tók ég þau varlega upp og handfjatlaði þau umhyggjusamlega. Þetta var sterkbyggð og traustvekjandi umgjörð. Glerið var sem tærasti kvikasilfurspollur. Þrátt fyrir fallið var það órispað og laust við allt hnjask.
Ég stóðst ekki freistinguna og tyllti gleraugunum á framandlitið.
Ég var fullnægingu næst. Stórkostleg skýrleika tilfinning helltist yfir mig. Yfir mig hvolfdi öll heimsins nákvæmni. Það var eins og sál mín hafi frelsast og rifið sig út úr líkamanum til þess að baðaði sig í náköldum veruleikanum. Augum mín gjörsamlega sleikti hvern blett af umhverfinu. Glerhýsi anddyris Þjóðarbókhlöðunnar hafði aldrei notið sín betur.
Ég grét.Glerið hratt saltvotum tárum mínum. Allt var fullkomið. Allt var ljóst. Merking hlutanna, sem vanalega pukrast út í horni, stóð nú á stól, stolt eins og kanna.
Umhverfis mig streymdi fólk með stúdentahúfur. Eins ástfangin snót í rauðum kjól horfði í gegnum mig. Ég hljóp út. Mamma strauk kinnina á barni sínu í rokinu. Kindur bitu grænt gras á túninu við Birkimelinn. Svangur maður borðaði samloku. Strætó sagði babú. Flugvél klauf himininn. „Til Akureyrar“ stóð utan á henni. „Auðvitað,“ hugsaði ég með mér, „nú skil ég. Til Akureyrar, aha. “
Út á flóanum marraði skemmtiferðaskip. Í því stóðu tveir sjómenn og drógu net. Esja var stóll fyrir skýin. Nokkrir strákpollar voru í fótbolta í Hljómskálagarðinum án marka.
„Má ég vera með?“ spurði ég þá.
„Auðvitað máttu vera með,“ sögðu þeir og potuðu boltanum til mín. Þegar boltinn nam staðar við tær mínar reiddi ég fram hægri fótinn aftur fyrir hornrétt og dúndraði svo knettinu lengst upp í loftið.
„En það eru engin mörk.“ hugsaði ég með mér, „hvert var ég þá að skjóta.“
Boltinn fór sem fleygbogi upp á móti vindinum sem dempaði ferð hans líkt og koddi. Svo kom að boltinn missti yfirhöndina og sneri til baka, sömu leið.Vindurinn öskraði í eyrað á mér.Ég sá boltann stefna að mér óðfluga. Ég stóð stjarfur, gat mig hvergi hreyft.
Loks skall hann á enninu á mér.
„Æ, vonandi er í lagi með gleraugun mín,“ var það síðasta sem ég gat hugsað. Þá varð allt svart.
Þegar ég rankaði við mér var komið myrkur. Ég þreifaði á augunum mínum til að sjá hvort gleraugun væru brotinn en fann ekki neinn skapaðann hlut. Allt var farið. Krakkarnir í fótbolta voru horfnir, gleraugun voru horfinn. Allt var dimmt. Allt óskýrt.
Annaðhvort hafði þetta verið draumur eða að strákarnir höfðu stolið gleraugunum mínum.