Ég veit hvernig það er að gráta vegna fávisku annarra. Þau skilja ekki hvernig það er að vera fjötraður niður. Þó þau seú það sjálf sjá þau það ekki. Takmarkið er að bæla okkur niður svo við verðum eins og þau. Þetta var gert við þau og nú okkur. En þarf ég að láta undan? Ég vil það ekki, alls ekki! Ég skal ekki láta undan!


Þegar ég lít aftur sé ég að þegar ég var lítil var ég eins og prinsessa. Gerði allt sem ég átti að gera. Allir skipuðu mér fyrir. Foreldrar, kennarar, meira segja konan í sjoppunni. Þegar ég var eldri fór ég að hugsa sjálfstætt en þá sögðu allir að ég væri á mótþróaskeiðinu. Þau vildu að ég lærði að vera læknir eða verkfræðingur sem sagt eitthvað praktískt eins og þau orðuðu það.

Mig langar að skoða heiminn og njóta allar lystisemdir hans áður en ég fer að lifa eftir formúlunni. Ég vil flýja ég get ekki ákveðið núna á stundinni hvað ég vil gera næstu 60 árin halló ég get ekki ákveðið hvað ég á að gera í kvöld.

Já formúlan spyrðu, þetta var eitthvað sem ég pældi mikið í þegar ég var tvítug. Mig minnir að hún hafi verið einhvern veginn svona: Maður fæðist, lærir að tala, lærir að þegja, menntar sig, vinnur, stofnar fjölskyldu, vinnur meira, hættir að vinna, bíður eftir að deyja og svo loksins drepst maður. Mikið var maður nú vitlaus á þessum tíma, finnst þér ekki?

Ég vil ekki gera neitt sem er praktískt ég vil verða listamaður sem þarf ekkert nema listina sína eða næstum frægur B-mynda leikari eða einn af rónunum niður á Hlemmi eða klámmyndaleikstjóri. Alla vega ekkert neitt skitið praktískt starf!


Þökkum kærlega fyrir! Þetta var viðtal við Elísabetu Jónsdóttur, háls, nef og eyrnalækni. Í næstu viku fáum við til okkar góðan gest…..
Hrebbna