Eitt sinn, fyrir ekki allt of löngu síðan, bjó stelpa að nafni L hér í Reykjavík. Stelpa þessi var með brúnt hár og augu í stíl við útlitið. Augun breyttu semsé um lit eftir því hvaða fötum hún L klæddist. Oftast voru þó augun brún eða græn. L þótti bera af öðrum stelpum hvað varðar þokka og skapgerð og var hún mikið öfundsefni.

Hamingjusöm var hún þó ekki.

Henni þótti nefnilega nafn sitt afar leiðinlegt. Á hverju kvöldi tautaði hún fyrir framan spegilinn og reifst við spegilmyndina sína vegna nafnsins. Greyið stelpan fór alltaf þreytt og sorgmædd að sofa eftir rifrildi sín við spegilmyndina. Það olli henni miklu hugarangri og truflaði svefn hennar mjög. Draumarnir voru verstir.

Hana dreymdi nefnilega ekki, hún fékk aðeins martraðir.

Það gerði það að verkum að hún ávallt var leið og hrædd þegar hún vaknaði. Á fætur fór hún þó, bað spegilmyndina afsökunar og fékk sér að borða. Þrátt fyrir góðan mat lagði hún sorgmædd af stað í vinnuna þar sem hún fékk tíma til að hugsa um nafn sitt.
Hún öfundaði annað fólk af löngum fallegum nöfnum sínum. Nafnið hennar var meira að segja styttra en nafn hunda. Styttra en músa. Jafnvel bílnúmerin voru lengri. Hún þráði heitt að geta fengið lengra nafn og fallegra. En það gerðist ekki svo auðveldlega. L hafði nefnilega ekki græna glóru um það hvað hún vildi heita. Og þar sem fólk aðeins má breyta um nafn einusinni þá gat hún ekki ákveðið sig.

Dag einn breyttist heimur hennar þó. Hún var að koma seint heim frá vinnu, niðurlút að venju. Í þann mund sem hún setti lykilinn í skránna að herberginu sínu heyrðist þrusk innan úr því. Hún þeytti upp hurðinni og kveikti ljósin í snatri. En herbergið hennar, sem var á stærð við miðlungs eldhús, var tómt.
Var hún svo illa á sig kominn vegna yfirvinnu að hún var farin að heyra ofsjónir?

Hún settist á rúmið og fíraði upp tölvunni sinni, án þess að vita hvað hún ætti að nota tölvuna í. Þetta þrusk hafði alveg sett hana úr jafnvægi og gert það að verkum að hún gleymdi að rífast við spegilinn.

mmm gott nammi

L var að borða djúpur.

“ííííííís!!! GEF MÉR ÍS!”

L hrökk í kút þegar hún heyrði mjórjóma rödd öskra nálægt henni. Röddin kom einhverstaðar úr herberginu hennar.

“böööö! gulur ís er fyrir gungur!!!”

Núna heyrðist L röddin koma frá gamla rauða skápnum sínum útí horni. Hún læddist að skápnum og reyndi hvað hún gat að stíga ekki ofan á djúpurnar sem höfðu flogið á gólfið þegar L brá. Hún átti sérstaklega erfitt með að komast hjá því þar sem litlir menn, sem hún var fyrst núna að taka eftir, voru að skjótast undan skápnum og taka djúpurnar hennar.

LITLIR MENN?!?

L stökk upp í rúm, öskrandi af hræðslu. Aldrei hafði hún séð slíkar verur áður. Þetta voru litlir menn, varla stærri en sjálfar djúpurnar, kolsvartir en þó gagnsæir, með blátt sítt hár sem flaksaði um þegar þeir hlupu með djúpurnar undir skápinn. Þegar allar djúpurnar voru komnar undir skápinn hættu þessar litlu verur að hlaupa út á gólfið. Þær héldu sig undir skápnum þar sem L sá þær ekki. Hálftíma seinna, þegar L loksins var farin að jafna sig á þessu gríðarlega sjokki sem hún hafði fengið við þessa sýn, ákvað hún að kíkja betur undir skápinn.

Undan skápnum skein myrkrið.

Hún sá ekki neitt undir skápnum. Það var ekki fyrr en hún hafði kveikt öll ljós í herberginu að hún sá lítinn bláann blett á veggnum. Djúpurnar voru horfnar. Þar sem þessar litlu verur höfðu virst meinlausar og vegna forvitni L ákvað hún að láta slag standa og snerta blettinn.
Hún teygði sig og teygði undir skápinn. Skápurinn var mjög stór og henni reyndist erfitt að ná að veggnum með hendina. Einnig var skápurinn negldur við vegginn svo ekki kom til greina að færa hann.
Hann hefði hvort eð er líklegast verið of þungur fyrir L.

Það var þá sem hún uppgötvaði að hún enn var í útifötunum. L smeygði sér úr jakkanum og reyndi aftur að teygja sig að þessum undarlega bláa blett á veggnum. En þegar henni loksins tókst að snerta blettinn gerðist ekkert. Hún fór aftur að rúminu þar sem hún var með annan poka af djúpum. Hún opnaði pokann, tók eina djúpu og lét detta á gólfið.

Ekkert gerðist.

Hún lét aðra djúpu detta á gólfið. Ekkert gerðist.
Það var ekki fyrr en þegar fimmta djúpan small í gólfinu að ein veran lét sjá sig undan skápnum. Þessi litla vera, með bláa síða hárið, leit út alveg eins og hinar verurnar sem L hafði séð rétt áður. Veran hreyfði sig varlega eftir gólfinu, skreið nánast en samt ekki, og í átt að djúpunum sem L hafi fleygt í gólfið.

L:”Hver. . . hvað ertu?”

Veran svaraði ekki en hægði á sér, og sveif nú nánast að djúpunum.
Þegar hún var komin að djúpunum gerði hún ekki neitt. Hún hvorki tók djúpurnar né fór til baka. Hún bara stóð þarna og horfði á djúpurnar 5. L tók sig til og spurði veruna aftur sömu spurningar.
Veran svaraði ekki heldur í þetta skiptið og bærði ekki einusinni á sér.

L lét sjöttu djúpuna detta á gólfið en áður en hún snerti gólfið hafði veran skotist undir djúpuna. Djúpan sökk inn í veruna og hvarf. Nú komu nokkrir félagar verunnar undan skápnum og skriðu hægt í átt að djúpunum 5.

L:”Afhverju eruði að þessu?”

Um leið stoppuðu verurnar 4 sem voru nýkomnar undan skápnum og litu í átt að L. Það var reyndar eilítið undarlegt þar sem þessar verur höfðu engin andlit og voru nánast gagnsæar. Þær töluðu allar sem ein og L þekkti um leið mjóróma röddina sem hún hafði heyrt áður.

“Ég er vera hinna týndu sála, Asívo.”.
L:”Hvað viltu mér?”
“Ég er samansafn þeirra sála sem festast í vítahring hins tilgangslausa og líflausa lífs.
Undanfarið hef ég fylgst með þér L, þú ert ekki hamingjusöm með nafn þitt en nafn þitt er líf þitt. Þú getur ekki kennt nafni þínu um tilgangsleysi lífs þíns. Það ert þú sjálf sem þarft að breytast. Þú ert á hraðbraut glötunar og ef þú varar þig ekki munt þú enda sem hluti af mér.
En þar sem þú virðist blíð og góð manneskja, sem sjaldgæft er í þessu heimi, hef ég ákveðið að gefa þér annað tækifæri. Tækifæri sem þú verður að nýta til hins ítrasta.”

L var nú dauðhrædd og vissi ekki hvað hún átti að gera þar sem hún sat samanhnipruð í rúminu og hlustaði á þessa skrítnu mjóróma rödd tala. Hún var komin með sár á hendina þar sem hún hafði klipið sig svo fast er hún athugaði hvort sig væri að dreyma.
Það var því með titrandi röddu er hún spurði Asívo hvernig þetta tækifæri virkaði.

“Ég hef ákveðið að gefa þér nýtt nafn, þér til verndunar, hughreistingar og eflingar. Nafn þetta skaltu bera með stolti um ókomna framtíð. Stafina sem vanta nú á nafn þitt muntu geta séð úr djúpunum 5 sem liggja á gólfinu við hlið rúms þíns. Gangi þér vel í lífinu.”
Um leið og Asívó hafði sleppt síðasta orðinu byrjaði hún að hverfa. Hár veranna byrjaði að grána er þær samlituðust gólfinu og hurfu svo alveg.
L flýtti sér að skápnum og kíkti undir hann, en þar blasti aðeins myrkrið við henni. Þar var enginn blár blettur til staðar. Hún fór því næst að rúminu og djúpunum 5 sem þar lágu. Veran hafði rétt fyrir sér, djúpurnar 5 mynduðu í raun stafi. En L hafði þó ekki þörf á þeim stöfum þar sem hún vissi upp á sitt fallega brúna hár hvaða stafi vantaði í nafnið hennar.

Nafn hennar og happafæðingardagur sáu svo til þess um ókomna framtíð að stelpa þessi aldrei þurfti að óttast neitt framar og gat tekið gleði sína á ný.


Til hamingju með afmælið.
Það besta sem guð hefur skapað er nýr dagur.