Þegar ég er sjö eða átta ára vakna ég eina nóttina. Ég opna augun og sé grænan ljósstólpa færast framhjá. Ég sest upp í rúminu og fylgist með fyrirbærinu nokkra stund. Mig langar að kalla á mömmu en ég vil ekki vekja athygli þess á mér. Eftir nokkra stund dettur mér í hug að ef ég stekk yfir bilið milli mín og hjónarúmsins rétt eftir að græni ljósstólpinn er farinn framhjá, þá þarf hann líklega að fara alla leið út að vegg og aftur til baka áður en hann nær mér. Ég tek sæng mína og stekk. Það tekst! Reyndar virðist ljósstólpanum alveg sama. Ég reyni að vekja mömmu án þess að vekja athygli hans og segi “Mamma vaknaðu. Það er eitthvað ljós hérna inni.” Hún umlar “ Jájá. Farðu bara aftur að sofa.” Ég leggst og fylgist með græna ljósstólpanum þangað til að ég sofna.

Þegar ég er um það bil tólf ára sé ég ljósbolta, með dekkri grænan lit en stólpinn var með, skjótast eftir Vesturlandsveginum og beygja á bakvið Lágafell.

Ég sef milli foreldra minna þar til skömmu eftir að ég fermist, þá dreg ég smám saman úr því.

Nú hitti ég geðlækni reglulega og tek róandi fyrir svefninn. Geðlæknirinn segir að ekkert sé að mér nema streita, ég sé ekki einu sinni skrýtinn.
%MYND coollogo_com.26794102.gif%