-Hvað er eiginlega að? Spurði hún. Spurningin var upphafið að endanum. Hún sá það í augunum á mér, andskotinn hún sér það alltaf, hugsaði ég. Ég gat aldrei leynt neinu fyrir henni. Hún þekkir mig of vel.
– Svona sestu nú niður og segðu mér frá. Ég gat ekki horft framan í hana, leit niður eins og ég skammaðist mín fyrir eitthvað, ég skammaðist mín reyndar ekki fyrir neitt. Ég bara vildi ekki ræða þetta við hana, vildi ekki að hún myndi gegnumlýsa mig með augunum. Hún vissi það vel, en hún trúði því að ef hlutirnir væru ræddir að þá myndi allt verða betra.
–Maður á ekki alltaf að dröslast einn með öll vandamálin sín, maður á að deila þeim með einhverjum og létta þannig á hjartanu því að lausnin er alltaf handan hornsins, þótt manni finnist það ekki alltaf svo. Þetta hafði ég heyrt margoft frá henni og þær voru ófáar stundirnar sem við sátum saman og töluðum saman um allt sem okkur datt í hug en þetta var öðruvísi, ég gat ekki komið því í orð hvernig mér leið. Mig langaði helst til þess að strunsa beint inn í herbergi, draga fyrir alla glugga, leggjast upp í rúm og breiða sængina upp fyrir haus. En það myndi ekki stoppa hana, það vissi ég, hún myndi bara koma og setjast á rúmstokkinn hjá mér og segja mér að hætta að láta eins og kjáni. Reyndar var það alveg rétt, það væri frekar kjánalegt að leggjast upp í rúm um miðjan dag í dimmu herbergi af tómri sjálfsvorkunn. Hún hafði alltaf rétt fyrir sér, en að því komst ég ekki að fyrr en það var of seint. En mér fannst ég ekki geta rætt þetta við neinn, lokuð inn í mínum eigin huga og gegnum sýrð af neikvæðum hugsunum, ég var gangandi neikvæðni, en hún var öðruvísi. Alltaf svo jákvæð og lífsglöð og þeir voru margir dagarnir sem ég óskaði þess að líkjast henni meira í hugarfari. Það væri örugglega hægt að búa til þunglyndislyf úr blóðinu hennar. Ég hefði kannski átt að gerast vampíra og sjúga úr henni blóðið til að vita hvort einhverjar merkilegar breytingar myndu eiga sér stað, svo myndi ég fara út á nóttunni og ráðast á allar jákvæðar manneskjur og sjúga úr þeim blóðið líka og fá þannig jákvæða næringu. Nei, ég hefði aldrei getað neinum mein, nema þó kannski sjálfri mér með öllu þessu neikvæða rugli mínu. Ég sá svart, sá ekkert jákvætt við neitt, nema kannski hana.
Ég ákvað að fara út, ég æddi að útidyrunum svo að hún myndi ekki hafa neinn tíma í að spyrja mig hvert ég væri að fara. Ég vissi það hreinlega ekki sjálf, ég hljóp út og leit við eftir nokkurn spöl og ég sá að hún horfði á eftir mér. Hún hafði áhyggjur, það var greinilegt, ég var ekki vön að láta svona. Ég hélt áfram í þeirri von um að hreinsa hugann, allt kom fyrir ekki. Ég hljóp, ég valhoppaði, ég grét. Mér var alveg sama um umhverfið og hvað aðrir gætu haldið. Ég hljóp með tárin í augunum og fylgdist ekki með umhverfinu, ég var í uppnámi, það kom bíll og nú eru jarneskar leifar mínar í kistu ofan í jörðinni. Það sem minnir hana á mig eru gamlar myndir af mér og allt dótið mitt sem hún vill ekki fjarlægja.
Hún er hrædd um að gleyma minningum um okkur og hefur oft dótið mitt hjá sér til þess að rifja upp. Hún mun samt aldrei gleyma, ég verð alltaf í huga hennar. Ég er hjá henni oft en hún veit það ekki, þó held ég að hana gruni það stundum. Hún sem var alltaf svo jákvæð er það ekki lengur. Ég skemmdi líf manneskjunnar sem var nánust mér í öllum heiminum.
Og nú þegar ég er dáin er mér enn ekki rótt.
Mamma af hverju hlustaði ég ekki á þig?