Ég rek upp óp þegar ég vakna, ég hríðskelf og er rennandi sveittur. Mér líður illa, mig dreymdi illa! Stubbar, brúður fyrir börn, sætir saklausir Stubbar, “Teletubbies!” Hvað er svona óhugnanlegt við þá? Ég er ringlaður, haltra fram ganginn, finnst að ég sé að detta. Hvað í fjáranum er að mér?
Ég nenni ekki að éta morgunsullið. Ég vil frekar gera eitthvað sem dreifir huganum. Lagið bergmálar í hausnum á mér: “Tinkivinkí, Dipsí, Lala, Pó. Stubbarnir, Stubbarnir…” Ég kveiki á imbakassanum góða og í honum heldur lagið áfram: “…segja HALLÓ!” Stubbarnir veifa mér og mér finnst ég verða að veifa á móti… ég verð…
“NEI!”, öskra ég og sparka í sjónvarpið sem dettur á gólfið og brotnar. Ég sé að reykur stígur upp úr því og ég átta mig á því hvað ég hef gert. Ég finn hvernig svitinn læðist niður andlit mitt og drýpur á gólfið. Ég sé Tinkivinkí í svitapollinum, hann horfir á mig og hlær óhugnanlega. Og ég er líka að hlæja óhugnanlega. Þetta er spegilmynd mín, ég er Tinkivinkí!

Ég æpi, hleyp á borðið í stofunni og það fellur um koll. Ég græt og hníg niður á gólfið. Það er enginn í húsinu nema ég og einhver verður að bjarga mér frá þessum vondu dýrum sem vilja mig feigan!
Það er Stubbur fyrir utan gluggann! Og óttinn magnast. Ég verð að binda endi á þetta, ég verð! Áður en ég veit af er hnefi minn hafinn á loft og stefnir í átt að glugganum. Glugginn mölbrotnar og glerbrot þeytast út um allt. En Stubburinn er farinn! Hönd mín er blóðug og ég snerti andlit mitt. Mm…

Dyrabjallan hringir. STUBBUR! Ég hleyp í áttina að dyrunum og sé Stubbinn út um gluggann á hurðinni. Hann er með staf! Hann hlýtur að ætlar að berja mig til dauða með göngustafnum! Ég opna dyrnar og ræðst á hann. Það er auðvelt að ráða við hann, ég lem hann í andlitið og hann hnígur niður. “Hans?”, segir Stubburinn. “HANS!?” Ég finn návist annars Stubbs fyrir aftan mig, og áður en ég næ að forða mér heggur hann mig!
Ég missi meðvitund.

“Hans?”, segir rödd, “Hans?”
Ég opna augun og átta mig á því að ég ligg í rúmi á spítala. Röddin er ekki frá Stubbi heldur manni í hvítum slopp, lækni. Ég sé að tveir lögreglumenn sitja í stólum fyrir aftan hann og hvíslast á. Það líður dálítil stund áður en ég reisi mig upp. Ég er í litlum klefa, glerklefa og fyrir utan hann er fullt af fólki, en engir Stubbar. Læknirinn snýr sér að lögreglumönnunum og segir eitthvað í lágum hljóðum og yfirgefur síðan herbergið. Önnur löggan rís upp og snýr sér að mér.
“Manstu eftir því hvað gerðist í gær, Hans?” segir hún kæruleysislega.
Þann litla kraft sem ég á eftir vil ég frekar nota til þess að skima í kringum mig eftir vondum Stubbum en að svara löggunni. Stubbarnir gætu leynst í hverju horni og beðið eftir rétta augnablikinu til að koma mér að óvörum…
“Hans!” segir lögreglumaðurinn höstugur.
“Vondir Stubbar…” segi ég lágt og þreytulega. Og ég held áfram að leita að þeim.
Löggan horfir á mig með svip sem mér líkar ekki. “Hans! Það eru engir vondir Stubbar! Þetta eru ofskynjanir og á eftir þarf Guðgeir læknir að líta á þig. En fyrst þurfum við Jens að ræða við þig um atburði gærdagsins.”
Ég á erfitt með að heyra í honum vegna lagsins sem bergmálar í hausnum á mér: “Tinkivinkí, Dipsí, Lala, Pó, Stubbarnir, Stubbarnir…” Þegar lagið hefur klárast sný ég mér að þeim.
“Þið verðið að hjálpa mér,” hrópa ég. “Þið verðið að trúa mér þó að þetta virki óraunverulegt!”
Lögreglumaðurinn hækkar röddina og horfir stíft á mig. “Hans, gerirðu þér grein fyrir því að í gær munaði litlu að þú yrðir ömmu þinni að bana?”
Fjárinn, hvernig má það vera? hugsa ég. Stubbarnir svífast einskis. Þeir hafa ráðist á ömmu og látið líta út fyrir að ég hafi gert það. Ég opna munninn til að tala en átta mig svo á því að það er ekki til neins.
Löggufíflið ræskir sig. “Nágranni þinn, hann Lúðvík, var úti í garði hjá sér að saga tré þegar hann heyrði skarkala innan úr húsinu þínu. Þegar hann leit inn um gluggann munaði litlu að þú meiddir hann. Hann sá þegar amma þín hringdi bjöllunni og þegar þú réðst á hana. Þá barði hann þig í hausinn með söginni og þú rotaðist.”

Það getur ekki verið! hugsa ég. Lúðvík er með Stubbunum í liði. Og þá skýtur hugsuninni upp í kollinn á mér: Ég neyðist til að drepa Lúðvík ef ég ætla að binda endi á þetta…