Eldey 2/2 ++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++
ELDEY
-Ann ar hluti af tveimur
e. nologo

Ég var að prófa mig í því að skrifa sögu í þriðju persónu þátíð sem gerist í fortíðinni á Íslandi. Það getur verið að það virki tilgerðarlegt og slappt, en þetta er hvort sem er bara tilraun. Söguþráðurinn er lauslega byggður á gamalli þjóðsögu.
++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++

Sólin skein í heiði. Aragrúi flagsandi máfa fylltu heiðbláan himininn gargandi. Sölvi brosti sínu blíðasta og studdi kornungt stúlkubarn sem sat við hlið hans á þúfu við að svolgra í sig spenvolga mjólkina. Þetta var dóttir hans, Margrét. Þau bjuggu saman í litlu heiðarkoti norðan við Nónvörðu.
Fólk skyldi ekki hvernig Sölvi þraukaði, allir bræður hans voru farnir að róa upp á hlut en eftir “atburðinn” þá hafði Sölvi ekkert vilja vinnu. Skömmu eftir að hafa komið heim á ný hafði eirðarleysið heltekið hann. Föður sínum til mikillar sorgar hafði hann fljótlega flust á brott og tekið sér bólstað í litlu eyðikoti upp á háheiðinni. Þar rak hann ekkert bú og fór raunar sjaldnast þaðan. Það sem fólk vissi hins vegar ekki var að auk þessa annaðist hann líka lítið barn sem hann hafði falið fyrir öllum. Réttast hefði verið að þau hefðu soltið heilu hungri en einhverra undarlegra hluta vegna kom ekki til þess. En fólkið á Suðurnesjum hafði ávallt verið jarðbundið og það var því fljótt að gleyma einbúanum á heiðinni og undalegu ásigkomulagi hans.
Sölvi horfði á bjart enni dóttur sína. Hún var yndislega fögur. Hún var eiginlega of fögur fyrir þennan heim. Honum fannst augljóst að litli netti álfakroppurinn hennar félli ekki vel að líkamlegu erfiði og hann harmaði hver örlög hennar hlytu að verða. Hún átti best heima í stórkostlegum fötum í krystalssölum víðum eins og himingeimurinn. En samt vissi hann að hann gæti aldrei sleppt af henni hendinni. Hann elskaði hana svo mikið. Jafn ójarðnesk ást var sjaldgæf á harðneskjulegum ströndum Rosmhvalaneshrepps og Sölvi fannst hann vera óendalega heppinn. Hann yrði bara að fela hana vel fyrir umheiminum.
-
Egill hló stórkallalega. Hann var grófgerður miðaldra sjómaður, fúlskeggjaður, þrekinn og útitekinn. Hann hafði rölt út í Keflavík til þess að fá smá “dús” hjá Duus kaupmanni. Hann var einhleypur og á leið á túr morguninn eftir þann þarnæsta svo hann hafði ákveðið að leyfa sér að skvetta dálítið í sig. Hann hafði rölt um morguninn í blíðskaparveðri frá Básendum með þjóðveg þvert yfir heiðina til Keflavíkur. Það hafði verið létt yfir honum og allra helst langaði honum til þess að krækja sér í svo sem einn tilkippilegan kvenmann, áður en hann færi út.
Hann hefði fengið ódýrt vont vín hjá syni Duus og sat nú á sumbli í bröggunum niðrá höfn spilandi við aðra sjóara. Hann hafði nýlokið við að segja skemmtilegann brandara þegar hann sá Stínu bregða fyrir í dyragættinni, svo hann brá sér á fætur og arkaði klunnalega og augljóslega fullur í átt að henni. Hún var tiltölulega snoppufríð, barmstór og mjaðmabreið kerlingarálft úr Hafnarfirði sem hafði orðið ekkja eftir fyrsta manns sinn en var barnlaus og þekkt fyrir lauslæti.
“Hvernig er það Stína? Þú hefur varla getað ornað þér hjá almennilegum karlmanni síðan hann Jón þinn dó. Ég þekkti hann Jón dálítið, sjáðu til, hann var sko alvöru karlmenni, sannkallaður aflakóngur,”sagði Egill með drafandi röddu.
“Ekki dirfast að nefna nafn manns míns sáluga í minni návist,” hvæsti Stína að honum hranalega, bersýnilega hvumpinn. Egill var of fullur til að gera sér grein fyrir því.
“Ég hef frétt að sama skapi Stína mín… elska mín, að þú sért sannkölluð afladrottning!” sagði Egill og hló eins og vitleysingur. Snúðug sneri Stína baki í Egil og hugðist ganga á brott. Egill þá hálfpartinn lagðist yfir hana, lagði krumlurnar á afturendann á henni og kreisti fast. Með tárin í augunum snýr þessi stolta kona sér við og sló hann allfast utan undir svo Egill hrökk aftur fyrir sig og trappaðist í jörðina. Heiftin blossar upp í honum og honum var skapi næst að ráðast á hana strax til baka og kenna henni lexíu með öllum sínum karlmannlegu kröftum en jafnskjótan hellist yfir hann depurð sem slökkti á ofsanum og hann brotnaði saman. Stína strunsaði í burtu en Egill sat eftir í mölinni, volandi, og harmaði vonsku heimsins.
Það var orðið dimmt úti og eftir að hafa jafnað sig ákvað hann í skyndingi að halda heim á leið og reisti sig því við og hélt upp á heiðina nötrandi. Þetta var ekki beinlínis skynsamleg ákvörðun hjá honum. Það var farið að kvölda og auk þess var hann líka agalega hífaður. Margur sjómaðurinn hafði farið flatt á því að reyna ganga yfir heiðina fullur, orðið rammvilltur og orðið loks úti eftir að nóttin skellur á. Miðnesheiðin var ein mannskæðasta heiði á Íslandi þegar svona stóð á. Loks þegar Egill sá hvernig þokan helltist yfir fyrir framan hann þá hefði hann átt að skilja að sér væru allar bjargir bannaðar en engu að síður lét Egill ekki segjast. Fyrst hann kæmist ekki í kvenmannsbæli þetta kvöldið þá vildi hann heim í sitt eigið bæli.
Hann gekk og gekk lengi vel, frá vörðu til vörðu. Þá var svo komið að ekki var lengur hægt að sjá milli varða fyrir þoku. Ótal sinnum hafði hann farið þessa leið og treysti sér því alveg til að taka rétta stefnu að næstu vörðu. Þetta gekk líka ágætlega lengi vel. En nú var hann búin að ganga lengi frá vörðunni sér að baki í þá átt sem hann taldi rétta án þess að finna eitt né neitt. Dofinn af áfengisdrykkju virtist hann ekki skynja þetta og hélt bara áfram að reika. Sífellt fór hann hægar yfir og varð daufari og fann hvernig höfginn færðist yfir hann, þar til hann gat vart haldið augunum opnum lengur og fann máttleysið hríslast um útlimina. Til þess að detta ekki beint á trantinn færði hann hendurnar fyrir sig og lagðist endilangur í mosann. Hann yrði einfaldlega að fá smá hvíld áður en hann gæti tekið eitt skref í viðbót. Honum fannst þokan vera eins og hin mýksta dúnsæng og honum leið vel. Eftir smá stund lá hann áfengisdauður á nákaldri jörðinni og ískaldur vindurinn lék um hann.
-
Snemma næsta morgun varð Sölvi var við umgang fyrir utan bæinn. Hann gluggaði á skjáinn og sá hvar faðir sinn, Guðmundur, kom aðvífandi. Guðmundur var árrisull maður og líkast til hafði hann vaknað enn fyrr um morguninn, farið að vitja fiska í Melabergsvatni og heimsótt svo son sinn. Ólíkt svo mörgum öðrum hafði Guðmundur nefnilega ekki gleymt Sölva, og vitjaði um hann reglulega, gaf honum smávegins mat í bauk og kristnaði hann. Sölva þótti vænt um þessa umhyggju föður síns en þótti verra að geta ekki trúað honum fyrir tilvist dóttur sinnar og varð því einatt að fela hana þegar svona bar að. Það skyggði óneitanlega á gleðina og iðaði Sölvi ávallt órólegur á meðan heimsókn föður síns stóð yfir svo Guðmund furðaði sig á því hvað væri að, og hver í ósköpunum gæti verið ástæðan fyrir þessari sjálfskipuðu útlegð Sölva.
“Farðu út að leika,” sagði Sölvi við Margréti, “afi er nefnilega að koma. Passaðu að hann sjái þig ekki. Þú veist að hann má ekki sjá þig.”
Þrátt fyrir að Margrét væri aðeins þriggja ára var hún orðin næstum altalandi og skildi því sem næst allt. Hún hlýddi því föður sínum og sagðist ætla út í berjamó. Sölvi hafði engar áhyggjur. Hann treysti henni til þess að fara ekki of langt auk þess sem hann vissi að hún þekkti þetta svæði eins og lófann á sér, þrátt fyrir ungan aldur.
Mjólkurhvítt þokan lá á milli þúfnanna, í dældum og lægðum, eins og lækir af rjóma og fjallagrasi sem flóðu yfir heiðina.. Hún stóð hátt upp á hól, á bakvið stein og horfði á afa sinn úr fjarska án þess að hann gæti séð hana. Svo sneri hún sér við, leit niður í þokupollinn og lét eins ætlaði að stinga sér í litla tjörn, ofan af steininum sem hún var á. Það skríkti í henni af kæti.
Sölvi fór og heilsaði upp á gamla manninn.
“Sælir verið þér, faðir minn…” sagði hann lágt og horfði á Guðmund úr koti sínu.
“Blessaður vertu Sölvi sæll,” heilsaði faðir hans tilbaka, “og megi guð vera með þér.”
“Um það efast ég stórlega,” tautaði Sölvi í bringu sér.
Faðir hans lét sem hann heyrði það ekki.
“Ég er varla óvelkominn þótt snemma sé morguns?” spurði Guðmundur.
“Óneinei, þéruð eruð ætíð velkominn faðir,” sagði Sölvi. Það var samt eitthvað einkennilegt við róminn sem Guðmundur var óseinn að taka eftir. Hann hnyklaði brýrnar. Það varð andartaksþögn. Báðir störðu þeir í bláinn, í sitt hvora áttina.
“Þéruð svo undarlegur sonur sæll,” sagði Guðmundur loks, “því ertu svo ragur við að segja mér hvað er að bjaga þig?”
“Trúið mér faðir, þegar ég segi þér að svo sannarlega bjagi mig ekkert.”
En Guðmundur sá innst inn í augum sonar síns að eflaust væri margt sannarlegra en það.
“Þú hefur lokað þig af, einangraða þig og lagst í útlegð síðan árið í eyjunni, fyrir fimm misserum síðan. Það kom eitthvað fyrir. Ég veit það. Ég bara skil ekki þessa fýsn þína í það að viðhalda einangrun gagnhvart umheiminum þegar þú loksins varð frjáls til að tilheyra honum fullkomlega,” sagði Guðmundur alvarlega og sorgin skein úr augum hans.
“Það voru meira en fimm vikurvega sjávarbára sem skildu mig og mannkynið af árið örlagaríka. Miklu stærri og meiri hlutir gerðust, sem ég mun aldrei geta sagt þér…” sagði Sölvi grátklökkur.
Guðmundur horfði í augun á honum djúpt hugsi. Hann hafði aldrei togað jafn miklar upplýsingar úr honum áður og var að melta þetta þegar skerandi væl fyllti eyru hans.
Margrét! Hugsaði Sölvi skelfdur.
Ljót gretta færðist yfir andlitið á Guðmundi í kjölfarið og hávær barnsgráturinn sem kom út þokunni varð greinilegri.
“ÚTBURÐUR!” æpti Guðmundur og steytti hnefa.
Melabergsættinn hafði aldrei verið þekkt fyrir ragmennsku. Það fyrsta sem Guðmundi datt í hug var að finna gröf þessarar vanhelgunar svo hann gæti fengið prest til að losa um óværuna. Sölvi skildi þetta og vissi að þetta bar vott um hugrekki en hann vildi samt augljóslega fyrir alla muni að faðir hans finndi ekki dóttur sína.
Guðmundur rann á hljóðið. Sölvi dró yfir höfuð sitt rauða hettu og hljóp á eftir honum.
“Bíddu, pápi. Ekki…” reyndi Sölvi að aftra föður sínum sem virtist viljandi skeyta hann engu. Guðmundur arkaði eins og óður maður á hljóðið og var einbeittur á svip. Loks komu þeir feðgar að Grænulaut. Þar hafði eitt sinn staðið bær sem nú var eyðilagður svo aðeins stóð nú eftir skærgrænn bletturinn í miðri hlíðinni sem fyrrum hafði markað bæjarstæðið. Þar gat að líta lítið stúlkubarn að stumra yfir meðvitundalausum karlmanni. Svipur Guðmunds blíðkaðist um heilan helling og Sölvi kannaðist við áhyggjuhrukkuna sem myndaðist þvert á mitt enni hans.
Þrátt fyrir undrunina yfir ókunnuga manninum sem Margrét hlúði nú að steyptist yfir Sölva magnþrungin skelfing. Þetta átti ekki að koma fyrir. Þetta mátti aldrei hafa skeð.
Guðmundur nálgaðist tvímenninganna í lautinni. Margrét, sem var ókunnug í hans augum, varð hans ekki var því að í þessu rumskar Egill við sér.
Þokan var allsfarin og ofan af háheiðinni var nú prýðisútsýnis út á glitrandi hafið. Lengst í suðvestrinu mátti sjá Eldey. Guðmundur var nú alveg kominn að Margréti þar sem hún hlúði að sjómanninum. Sölvi fylgdist í töluverðri fjarlægð skelfingu lostinn með en afbar þetta ekki mikið lengur og strunsaði í felur.
Margrét leit upp á Guðmund í fyrsta skiptið.
“Afi?”

++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++

Það var sunnudagsmorgun suður með sjó. Græn tún Hvalsnesstaðs bylgjuðust meðfram ströndinni. Það var heiðskýrt og dúnalogn, en þó enn það snemmdægurs að vart var hægt að tala um neina dagsbirtu að ráði. Sæmundur prestur var sjaldan farinn á stjá svo árla dags en þennan sunnudag bar óvenjulega við. Inn í forstofunni á prestsetrinu var verið að hlúa að sjómanni einum sem ku því sem næst hafa orðið úti um nóttina en hafa komið í leitirnar skammt frá koti Sölva Guðmundssonar á háheiðinni. Það var hluti af prestskyldu hans að veita bágstöddum liðsinni ef í nauðanna ræki svo til hans leitaði fólk ef þvíumlíkt kom fyrir. Þess vegna hafði séra Jón fengið vinnumann sinn, Braga djákna, til þess að búa Agli fleti á legubekk þarna í forstofunni svo hægt yrði að veita honum nauðsynlegustu aðhlynningu. Næsta tiltækan læknir var ekki að finna fyrr en í Hafnarfirði, svo Jón lét gott heita og hugðist leggjast að bæn þess í stað.
Með Sölva í för var faðir hans, Guðmundur, og ung hnáta sem Jón hafði aldrei séð áður. Jón þóttist þekkja öll sín sóknarbörn og var því ekki laust við að unga stúlkan kitlaði forvitni hans. Hann virti hana fyrir sér í stutta stund og leit svo spyrjandi á Guðmund. Engin sagði neitt. Eftir andartaks þögn tók þá presturinn af skarið og spurði hikandi hver stúlkan væri.
“Það veit ég ekki fyrir vissu. En ekki yrði ég þó hissa ef telpan reyndist barn Sölva,” sagði Guðmundur styrkum rómi. Sölvi starði á tær sér og rauðhettan huldi höfuð hans. Steinhissa horfir Jón á Sölva.
“Barn Sölva? Í hvaða skilningi? Sem afkvæmi hans?” tafsaði Jón.
Sölvi leit upp á hann með steinrunnum óræðum svipi. “Þetta er Margrét. Dóttir mín.”
Vandræðaleg þögn heltók herbergið. Meira að segja Guðmundur horfði hissa á son sinn, þrátt fyrir að hafa staðhæft skömmu áður að hann myndi ekki verða hissa við þessa yfirlýsingu.
“Svo þetta er í raun og veru sonardóttir mín,” sagði hann þá veikri grátklökkri röddu. Hann virti þetta dásamlega stúlkubarn fyrir sér.
“Hún er dásamleg. Svo falleg…” sagði hann en þá brást röddin.
Margrét var að tala við Braga djákna í dyragættinni hinum megin í herberginu. Þau voru að ræða sjávarföllin og augsýnilega greina mátti hversu skýr hún væri.
Guðmundur ræskti sig.
“Hvað kemur til?” spurði hann, “af talanda hennar og útliti má greinilega ætla að hún sé að minnsta sjö vetra gömul…”
“Hún er varð fullra þriggja vetra gömul fyrr í vor,” greip Sölvi fram í fyrir honum.
Á ný koðnaði samtalið niður. Meira að segja séra Jón skyldi hvaða þýðingu þetta hefði, þar sem hann var kunnugur sögu Sölva. Ef aldur Margrétar væri réttur kæmi ekki annað til greina en að hún væri bæði getin og fædd á meðan Sölvi gisti Eldey.
“En það er útilokað!” sagði Guðmundur. “Ekkert barn getur náð slíkum þroska á þremur aldursárum; það væri kraftaverk!”
Sölvi svaraði því engu að öðru leiti en að hvísla niður í bringu sér: “Já, sannkallað kraftaverk. Yfirnáttúrulegt í meira lagi.” Því næst skerpti hann röddina og leidd á viðstadda röggsamur.
“Hvað sem öðru líður þá er það staðreynd að þetta er dóttur mín og hún er í raun einungis þriggja ára. Ég hef alið hana upp, fætt hana og klætt, og ekki síst kennt henni lífsins leik frá því ég bar hana á baki mínu frá þessari hryllilegu ey fyrir þremur árum.”
Það var bersýnt að bæði Jón og Guðmund fýstu í að fá að frétta frekar um atburði þá sem gerðust í Eldey árið örlagaríka, en á meðan Sölvi sjálfur lét vera að fara nánar út í þá sálma þá leyfðu þeir því að liggja á milli hluta.
“Hvar hefur hún þá verið…?” spurði Guðmundur rámur.
“Í kotinu. Með mér. Allan þennan tíma hef ég falið hana. Ég hef reynt að fela litla kraftaverkið mitt en nú hafið þið afhjúpað það.”
Í stutta stund horfði séra Jón á þá djúpt hugsin en þá rann skarpur svipur á andlit hans.
“Hún er þá ekki skírð, greyið?” spurði hann.
“Vitaskuld ekki,” svaraði Jón og virtist láta það sér í léttu rúmi liggja.
Jón færði sig í hávramannastellingu.
“Hvaða, hvaða,” sagði hann uppljómaður í framan, “þá verðum við að skíra hana hið snarasta, ef barnið á ekki að lenda í Limbó.” Hann skellti sér á læri og virtist á ný vera kominn í essið sitt eftir að hafa verið sleginn út af laginu eitt augnablik. “Við skírum hana, bjóðum hana velkomin og látum þar við sitja. Hver veit nema stelpan eigi einn daginn eftir að reynast stolt sveitarinnar?” Hann hló digurbarkalega.
Sölvi tók ekki illa í þessa tillögu sveitaprestsins. Hver vissi nema nú væri loksins tækifæri fyrir þau að lifa á ný eðlilegu lífi. Litla stúlkan hans verðskuldaði það.
Þetta fannst séranum ljómandi hugmynd og var því ekki lengi að bera þau boð út að í hádegismessu seinna um daginn yrði Guðrún Sölvadóttir skírð í Jésú nafni. Messað yrði yfir gervöllu Útskálaprestakalli og mátti því vænta margmennis. Ekki fannst Jóni það vera verra. Hann unni skemmtilegum uppákomum og tilbreytingu, og hér var úr nóg að moða.
Sá eini sem lét sér fátt um finnast var Guðmundur. Hann sat hugsi hljóður og horfði á barnið. Hann var ný búin að uppgötva að hann væri orðin afi og setti því eðlilega hljóðan. Illur grunur lék um hann allan og hann hafði vonda tilfinningu fyrir tilvonandi messu en reyndi að leiða það hjá sér.

++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++

S teinkirkjan að Hvalsnesi var reisuleg bygging sem átti eftir að standa af sér ágang tímans um aldir og var stolt sveitunga. Hún var byggð mestmegnis úr venjulegu tilhöggnu fjörugrjóti en turninn var gerður úr fínasta erlendum viði sem fenginn hafði verið úr flutningaskipi sem strandað hafði sunnan við Hafnir vestan við Stafnes öld fyrr. Þrátt fyrir að öll áhöfnin hafi farist gátu Suðurnesjamenn ekki annað en glaðst yfir þeim happafeng að komast fyrir heilan farm af gífurlega verðmætu timbri frá Evrópu. Haft var fyrir satt að öll timburhús frá Höfnum að Kirkjubóli væru byggð úr þessum strandviði.
Byggð á þessu svæði var nefnilega orðin ansi þéttbýl þegar þarna var komið við sögu og sameiginlegt umdæmi Hvalsnes og Útskálaprestakalls eitt hið mannfleira á landinu. Því var ekki að undra að sunnudagsprédikun á Barthólómeusmessu væri vel sótt. En svona margmennt hafði Sölvi ekki búist við. Hann hafði aðeins einu sinni fyrr á ævinni sé jafn margt fólk komið saman og honum líkaði það ekki allskostar. Hann leiddi dóttur sína upp tröppurnar hikandi og hélt fast um hönd hennar. Hann reyndi að kyngja kökknum sem fastur var í hálsi hans en allt kom fyrir ekkert. Himininn sem fyrr um morguninn hafði skartað öllu sínu fegursta var nú orðin þungbúin og grár og það var farið að hvessa. Ósjálfrátt skáskaut Sölvi augunum hræddur út á haf. Sjórinn var farinn að ýfast umhverfist Eldey. Loks tók hann á sig rögg, kúgaði kökknum ofan í sig og leiddi Margréti inn.
Kirkjan var yfirfull. Við innkomu þeirra hafði söfnuðurinn hljóðnað og nú heyrðist aðeins lágvært skvaldur og pískur. Fólk fylgdist í laumi með þeim. Hann gekk með dóttur sína fram að fremsta bekk, þar sem bræður hans, Tryggvi og Tómas sátu með Guðmundi. Þá hafði Sölvi ekki séð langalengi og hann brosti óöruggur en ástúðlega til þeirra. Bragi djákni stóð til hliðar í kirkjuskipinu og gaf Sölva bendingu með augntilliti. Sölvi settist.
Í þann mund hafði leiftur sést fyrir utan steinda gluggana og á sömu stundu og hann sast heyrðist þruma og kirkjuheimur steinþagnaði. Sölva spratt kalt vatn á milli skins og hörund. Dauðaþögn ríkti. Presturinn var ekki enn kominn. Þrátt fyrir að það væri hádegi síðsumars leit út fyrir að vera niðdimm nótt fyrir utan glugga.
Það heyrist ískur og ryðgaðar hjarirnar á hurðinni voru brettar upp með óhljóðum. Fólk bjóst við að þarna væri á ferðinni prestur en þegar það leit við mátti heyra undrunarstunur. Í dyragættinni stóð ekki séra Jón, heldur stórfengleg undurfögur kona. Hávaxin og glæsilega búinn, í konunglegum klæðnaði, horfir hún skarpskyggn yfir söfnuðinn. Hún fær augastað á hnakkann á Sölva og gengur í átt að honum. Sölvi heyrir létt fótatakið bergmála og lítur við. Andlit hans afmyndaðist í geipilegri grettu. Græn augu hennar loguðu. Sölvi hvæsti eins og illur dímon og hentist á loft í varnarstöðu. Eins og mikilfenglegur erkiengill með sítt rautt hár nálgast hún hann örugglega. Með örvæntingarfullum angistarsvip reif hann utan af sér skyrtuna í úrráðaleysi sínu svo skein á bera bringuna innan undir rauðri kápunni. Faðir hans horfði sorgmæddur á en gerði ekkert.
Konan undurfagra var nú kominn í seilingarfjarlægð frá Sölva og greip því um axlir hans, þéttingsfast, svo hann fékk sig ekki hreyft.
Magnþrungin og ógnandi fögur rödd hennar glumdi í kirkjunni. Hún talaði íslensku en það hljómaði eins og tungumál himingeimanna.

<i>Skilið þér furstynjunni! Þér skulið skila henni núna!</i>

Sölvi svaraði einungis með því að ýlfra ámátlega og horfa upp í stjörnumskreytt kirkjuloftið.

<i>Faðir minn þyrmdi þér og hýsti. Hann gaf mig þér. Hann veitti þér fyrstum inngöngu í álfheima. Þú ert barnsfaðir minn. Og svo stelur þú henni! Þú stalst furstynjunni, barninu mínu! Þú dirfist að ætla að kristna hana. Þú sveikst okkur öll og fyrir það skaltu svíða.</i>

Tárvotur leit Sölvi á dóttur sína. Þegar græneygða álfkonan sá Margréti speglast í augum hans sleppti hún honum og hann hrundi í gólfið og lá þar sem dauður. Fyrir augnliti sameiginlegs safnaðar Hvalsnes og Útskálaprestakalls fór hún og faðmaði Margréti.
“Mamma!” dæsti Margrét fegin.
Hún tók dóttir sína varlega í fang sér og Margrét hrjúfraði sig í rauðu lokkaflóðinu í hálsmáli hennar. Svo gekk hún með hana út úr kirkjunni.

+++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++ +

Það tók fólkið dágóða stund að jafna sig eftir annan eins atburð. Eitt af öðru vaknaði það úr einhverju sem líktist leiðslu og fór að skrafa saman ferlega hissa um það sem skeð hafði. Skyndilega heyrðist ískrið hinsvegar á ný og ljóst var að enn eina ferðina væri einhver að koma inn. Aftur færðist þögn yfir og skelkað leit fólk aftur fyrir sig til þess eins að sjá séra Jón standa undrandi í dyragættinni.
Hann hafði séð göfugt útlítandi kvenmann bera skírnarbarnið í burtu þegar hann var á leiðinni upp í kirkju og skildi ekki neitt í neinu. En þegar hurðina skellti á eftir Jóni rumskaði Sölvi aftur. Eins og skugginn af sjálfum sér reisti hann sig við grár og gugginn. Gjörsamlega útúrheiminum leit hann skilningslaus í kringum sig, yfir kirkjugesti, og virtist ekki vita hvar hann er staddur né muna hvað hafi gerst. Þá var eins og það renni upp fyrir honum ljós og örvæntingarsvipur örlar í andlitinu á honum.
Hann hleypur á stað, út úr kirkjunni og á hæla mæðgnanna.
Þetta var í síðasta sinn sem íbúar Rosmhvalaneshrepps sáu Sölva Guðmundsson frá Melabergi í þessu lífi.

++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++

Ef einhver heldur að Sölvi hafi í raun farið á eftir dóttur sinni þá er það alrangt. Hann hljóp þess í stað í þveröfuga átt; frá ströndu og upp á heiðina.
Viðþolslaus hljóp hann yfir votan mosann og regnið buldi á honum. Hann hljóp hraðar og hraðar, eins og skrattinn væri á eftir honum, hæst upp á háheiðina, blindur af ókunnugum tilfinningum sem heltóku hann og brenndu hann að innan. Hann hljóp fram hjá Nónvörðu og kotinu sínu, utan allra þjóðvega lengst út í buskann. Loks hafði hann hlaupið svo langt að hann var kominn þvert yfir Suðurnestánna, að sæ fram hinum megin. Og þegar hann kom að þverhníptu Berginu norðan við Keflavík þá hrundi það undan honum og hann sökk í sjó svo enn í dag má sjá þess ummerki. Í glæsilegum boga, mót sólu í hásuðri, braut hann boðaföllin og sá sér fyrir hugskotstjónum mynd dóttur sinnar, Margrétar, í glampandi haffletinum.
Þar hvarf rauðhettu klæddur maðurinn í hafdjúpin og nafnið Sölvi Guðmundsson með honum.

Reyndar var það engin tilviljun að uppúr því mátti ógjarnan rekast á þann mannvíga hval sem sjómenn kölluð Rauðkápu, þar sem höfuðið var allt brennt blóðrauða, sem ku hafa ásótt og grandað mörgu fiskiskipi suður með sjó.
Þeirri plágu linnti ekki fyrr en áratugum seinna, þegar hinni frægi Gylfi galdraprestur af Saurbæ fór með sonum sínum og seiddi Rauðkápu upp í fjörð þann sem þaðan í frá var kallaður Hvalfjörður, og upp með ánni og foss einn örmjóan norðan Botnsúla svo hvalurinn sprakk í vatni þar rétt hjá. Hét vatnið og fellið þaðan í frá Hvalvatn og Hvalfell en hvellurinn sem kom þegar hvalurinn sprakk var víst svo mikill að fossinn var kallaður Glymur.
En það er víst önnur saga.


ENDIR
+++++++++++++++++++++++++++++++++++++ +++++