++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++
ELDEY
-Fyr sti hluti af tveim
e. nologo

Ég var að prófa mig í því að skrifa sögu í þriðju persónu eintölu sem gerist í fortíðinni á Íslandi. Það getur verið að það virki tilgerðarlegt og slappt, en þetta er hvort sem er bara tilraun. Söguþráðurinn er lauslega byggður á gamalli þjóðsögu.
++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++

Guðmundur troddi tóbaki í pípuna. Hann var maður aldraður og var farið að grána vel á honum hárið. Djúp viskuhrukka var rist þvert yfir enni hans niður á milli augna en hrjúft hörundið virtist unglegt að öðru leiti. Hann tottaði pípuna í takt við báruna sem steig og seig, sitthvað, hægt og rólega. Kænuna hafði hann nefnt Hallgrím, í höfuðið á þeim helga höfundi passíusálmanna, í von um að það myndir virka þeim sem vernd gegn ógnar öflum örlaganna sem snarkaði oft í stormum. Og heilladrjúgt hafði það reynst, hvort sem það var nafngiftinni að þakka eður ei, báturinn var happafley sem hafði marga ölduna stigið og alltaf komið eiganda sínum heilum og höldnum í land.
Ekkert benti til þess að það ætti eftir að breytast eitthvað á næstunni. Sólin stóð í hádegisstað og glampaði á haffletinum allt í kringum hann. Útsynningurinn sem Guðmundur hafði séð fyrir lét ekki kræla á sér og það bærðist vart hár á höfði. Í rauninni var varla svo að sæist ský á himni hvert sem litið var. Í þessari guðskaparblíðu hafði Guðmundur og synir hans tekið af stað út í Eldey fyrir þrem dögum síðan á Hallgrími og hafði glottið ekki runnið af sólinni síðan. Samt var einhver kvíðafullur beygur sem kraumaði í brjósti Guðmunds þar sem hann sat í stafni Hallgríms sem dormaði í vari undir þverhníptum klettaveggjunum. Þó ekkert benti til þess hafði hann á tilfinningunni að út við sjóndeildarhringinn söfnuðust saman óveðurskýr en bannsett eyjan varnaði honum sýn til suðvesturs. Guðmundur var vanur að tauta um veðrið sem þriðju persónu og var handviss að sama hvað það væri, þá væri hann samt eitthvað að bauka.
Sökum óhagstæðra strauma átti Eldey að heita ófær aðgöngu öllum skepnum öðrum en blessaðri Súlunni sem verpti þar í tugþúsunda tali. En Melabergsfeðgar vissu og áttu þá vitneskju í arf úr beinum karlegg langt aftur í aldir að fáeinar vikur á vorin gat aðstæður hagað svo til að unnt var að freista landgöngu ef maður var óragur að klífa. Eggjataka í eyjunni var með eindæmum og mikil búbót fyrir fátæka þurrabúðarbændur af Stafnesi, jafnvel svo mikil að þau ár, sem voru þó færri en hin, þegar Eldey var mönnum algerlega lokuð máttu fjölskyldurnar líða þess tilfinnanlega út sumarið. Þegar farið var í eggjatökur urðu að vera fyrir hendi sterkir menn sem gátu haft hraðar hendur, því tíminn var naumur. Aldrei var þess lengi að bíða að aðstæður versnuðu svo aftur að eyjan lokaðist mönnum á ný, og ef menn forðuðu sér ekki í tæka tíð rifi sogið bátinn utan í kletta og bryti hann í spón.
Þetta vissi Guðmundur þegar hann hafði tekið þrjá syni sína fullvaxta með sér út í eyna þetta árið. Tryggvi, sem var elstur, kleif fyrstur og hafði með sér smá kaðalspotta sem yngri bræður hans tveir, Sölvi og Tómas, notuðu til að tosa sig upp. Sjálfur stýrði hann og réði, en var orðin of gamall til að klifra og beið því í bátnum, þangað sem bræðurnir létu eggin niður síga, auk þess að þeir sváfu hjá honum í bátnum yfir miðnættið.
Skyndilega fann Guðmundur hvernig öldurnar tóku að verða stærri, og hvernig báturinn fór að rísa hærra og síga, á sama hátt og andadráttur manns í innilegri hugleiðslu dýpkar. Guðmundi var ekki lengur til setunnar boðið og varð einfaldlega að fá úr því skorið hvað væri að gerast handan eyjarinnar. Hann tók upp ár og stjakaði sér dálítið frá landi og réri því næst út að nöfinni. Honum brá í brún þegar hann sá hvað beið hans þar. Þungbúin ský höfðu hrannast upp við sjóndeildarhringinn og hann sá á hvítfextum öldutoppunum úr mikilli fjarlægð að sjávarrót var mikið. Skelfingu lostinn réri hann aftur að bátalæginu og hóf að kalla á syni sína. Þeir virtust ekki heyra í honum minnsta hót. Sífell jókst vindurinn og máfurinn byrjaði að garga af miklum móð. Þrátt fyrir að vera í vari varð Guðmundur var við að báturinn var farinn að vagga ískyggilega og öldurnurnar farnar að ýfast. Þetta sagði honum það að varið væri að hverfa, skjólið væri senn fyrir bí og brátt yrðu straumarnir orðnir svo að hafaldan hæfi að skella á berginu.
Gamli maðurinn reyndi að kalla enn hærra og var sonum sínum vonsvikin fyrir að hafa ekki snúið aftur að bátnum strax þegar veðrið fór að breytast. Loks, að talsverðum tíma liðnum, sá Guðmundur glitta í Tómas á klettabrúninni, sem var komin til að losa af sér egg. Guðmundur reyndi að láta á sér bera og æpti og kallaði, en rokið var orðið slíkt að ekkert heyrðist lengur fyrir dyni þess. Báturinn skók sig allan og virtist vilja komast frá bölvaðri eyjunni en Guðmundur færi hvorki á land né strönd fyrr en hann fengi syni sína til sín aftur. Tómas lét egg sín síga niður til föður síns og sá svo á kallinum að hann hefði eitthvað sér að segja, svo hann kom á hæla þeirra. Guðmundur útskýrði fyrir Tómasi hvernig í pottin væri búið sem skelfingu lostinn tosaði sig aftur upp til að aðvara bræður sína í einum hvelli. Fyrr en varir var Tryggvi kominn til föður síns en þá var svo komið fyrir að þeir urðu báðir að halda með fullu afli í við ölduna með árunum svo þá ræki ekki frá landi. Æ jókst veðurofsinn en ekkert bólaði á Sölva né Tómasi. Á endanum kom þó Tómas aftur, lét sig síga aftur niður í bátinn, og lét þá vita að Sölvi hefði verið rétt á hæla honum en ákveðið svo að snúa við til að inna eftir eggjapokum sínum þrátt fyrir fortölur bróður síns. Í því misstu þeir feðgar takið og báturinn rak stjórnlaus á haf út, burt frá Eldey. Síðdegi þetta var orðið svo þungbúið að það var sem að á nóttu væri. Í fjarskanum sýndist föðurnum hann sjá son sinn standa á klettabrúninni niðurbrotinn og emjandi. Guðmundur felldi tár. Hann vissi að héðan í frá yrði ófært út í eyjuna þar til næsta vor, og engin von var að Sölvi myndi lifa þessa vosbúð af heil tvö misseri. Vængbrotin fjölskyldan frá Melabergi einbeitti sér að því að róa í gegnum storminn að ströndinni og enn eina ferðina skilaði happafleyið Hallgrímur þeim heilum á húfi til lands á ný. Það hafði aldrei komið fyrir áður að maður hefði orðið eftir á Eldey, og Guðmundur leið vítiskvalir.

Það kom vor, og það kom sumar, og loks kom haust, en það var langt því frá að Sölvi liði gamla manninum úr huga. Hann var bugaður eftir sonamissinn.

Í mestri eymd leið veturinn.

Einn kaldan aprílmorgun vaknaði Guðmundur um miðaftansnón og fór út. Inn í bænum sváfu hjúin, sem hefðu undir venjulegum kringumstæðum átt að vera vöknuð ef það væri ekki sunnudagur. Hann hélt upp á Galdraþúfu og leit út yfir ströndina. Þrátt fyrir að farið væri að birta af degi var en tiltölulega dimmt út og napurt og sjórinn ekki farinn að falla að. Út við sjóndeildarhringinn mátti greina rísa uppúr hafinu sótsvartan klettastöpulinn umkringd þúsundum gljáandi spjóta. Hann sneri sér við og sá móta fyrir sólarupprás og hvernig Bláfjöllin lituðust rauð.
Hann hélt upp að Melabergsvatni, fyrir miðri heiðinni, til að vitja um vök eina sem líklega hefði frosið yfir nóttina. Þegar þar var að komið sá hann sér til undrunar að svo var ekki, vökin var heil fyrir miðju vatninu og benti ekkert til þess að hana hvelfdi. Án nokkurra grunsemda skundaði því Guðmundur að henni en heyrði skyndilega fyrir miðju vegar brak og bresti undir sér og allt í kring. Gerði hann þá sér grein fyrir hvernig fyrir var komið; ísa var að leysa, og tjörnin tæpast göngufær lengur. Skelfingu lostin snéri hann við og leitaði aftur í land sem auðnast gat, en rann á nefið og fann hvernig jökulkalt vatnið fyllti vit sín. Klakann brast og Guðmundur sökk í vatnið og fann hvernig pollurinn gleypti hann í sig. Lukkulega var Melabergsvatn ekki nema rétt mittishæðarhátt og Guðmundur náði því fótfestu og svamlaði í land, lagðist í móann hrakinn og kaldur.
Það tók hann eilitla stundu að hrista úr sér hrollinn en fyrsta hugsunin sem skaut upp í kollinn hans var sú að fyrst Melabergsvatn væri farið að leysa, var kominn tími á að halda út í ey, eins og faðir hans hafði kennt honum.
Þremur dögum síðar ýttu níu sterkbyggðir karlmenn út áttæringi einum frá Sandgerðislægi. Guðmundur hafði fengið Jón prest á Hvalsnesi til að koma með sér út í Eldey, til að sækja lík sonar síns, ef það væri þar að finna, svo hægt væri að heiðra minningu Sölva og veita honum sómasamlega greftrun. Útlit var ekki sérstaklega gott en Guðmundur var eirðarlaus og vildi reyna engu að síður svo Séra Jón hafði mælt svo fyrir að Sæmundur Karlsson, útgerðarbóndi úr Neðra-Sandgerði veitti þeim liðsinni sitt og áhöfn á bátnum Brynjari. Hafði Sæmundur ekki tekið illa í það.
Voru þeir kappar því á leið út í Eldey núna, og þekktist það ekki að farið væra svo snemma út í hana. Dimmt var yfir en vindur lítill og gekk ferðina til að byrja með greiðalega. En þegar út fyrir Básenda var komið fór skyggnið versnandi. Brast á niðardimm þoka skömmu síðar og gátu bátsmenn vart lengur séð handa sinna skil, hvað þá vitað hvert þeir stefndu. Sæmundur bað menn sína að taka upp árar og leyfa bátnum að reka, straumar ættu að vera hagstæðir. Fyrir utan sjávarniðinn og einstaka garg í máfi úr fjarska var algjör þögn.
Guðmundur kveikti á lukt og hengdi í stefnið og reyndi svo úr fyrirrúmi að stara inn í þokuna án mikils árangurs. Í þokunni tapast tilfinningin fyrir víðáttunni. Mönnunum fannst líkt og þeir væru staddir í talsvert stórum, reykfylltum sal. Hvert minnsta hljóð bergmálaði í þokunni.
Skyndilega, eftir að hafa siglt án stefnu nokkra stund, sáu þeir klettadrangann rísa úr hafinu og byrgja þeim sýn í eina áttina, líkt og þeir hefður loks fundið einn útvegginn í sal þessum. Eldey gnæfði yfir þeim og hafði nú lægt það mikið að logn gat talist. Guðmundur fékk á tilfinnninguna að einhver fylgdist með sér. Að einhver starði á hann, þó það væri úr mikill fjarlægð. Hann leit var um sig í kringum bátinn.
“Er óhætt að fara nær?” spurði Sæmundur og rétti upp höndina til merkis um að menn skyldu hætta að róa. Guðmundur dró af sér skinnhanskann og dýfði fingrinum út fyrir borðstokkin, ofan í margrænt vatnið.
“Við erum í vari,” sagði Guðmundur, “það lítur út fyrir að straumarnir séu orðnir hagstæðir.”
Ræðarar héldu varlega nær. Séra Jón, sem húkt hafði í stafni, smeygði sér í presthempuna, krosslagði sig og tók til börurnar. Tryggvi sat stjarfur á bekk við hlið föður síns og horfði á klettavegginn nálgast. Hann var þaulvanur að klífa þennan vegg, það hafði hann gert síðan í barnæsku, með eggjapokana á bakinu og Tómas eða Sölva í fanginu. Eitt augnablik er eins og hann sé við það að bresta í grát en í því heyrist dynkur þegar stefnið rakst klettavegginn. Og án nokkurrar umhugsunar reisti hann sig upp og stökk upp á hann og leikandi létt kleif hann háan hjallinn.
Þegar upp var komið hugðist hann binda kaðalinn við stein nokkurn sem hann ætíð notaði, svo menn og börur kæmust upp á sléttlendið. Leitin yrði að hefjast hið fyrsta. En þegar hann nálgaðist steininn greindi hann snögglega í þokunni veru í mannsmynd sitjandi á grjótinu og starði á hann. Huldumaður? Hann vissi að huldufólk hafðist við í eyjunni. Tryggva varð svo um að hann missti spottann í jörðina og greip um munn sinn. Inn úr þokunni sér hann koma að sér mann. Sölva.
Tryggvi hrasar aftur fyrir sig og æmtir. Jafn kyngimagnaðann svip hafði hann aldrei heyrt um.
“Þér eruð draugur bróður míns?” spurði Tryggvi lágróma og skjálfandi.
Þögull sem gröfin settist svipur Sölva á hækjur sér og horfði í augun á honum án þess að svara.
“Tryggvi?” sagði Sölvi síðan undrandi. Tryggvi sá í kringum þá í þokunni skugga þúsunda óvætta og kynjavera sem höfðu seytt upp þess tálsýn til að ná taki á honum. Þá rann allt í einu upp fyrir honum ljós: Mannskepnan gengt honum var engin tálsýn né óvættur, heldur bróðir hans lifandi kominn og hólpinn. Ýlfrandi af fögnuði yfir þessari uppgötvun reisir Tryggvi sig á fætur og tekur honum tveim höndum.
“Þú lifir,” sagði Tryggvi og faðmaði bróður sinn að sér. Sölvi svaraði engu en brosir þakklátu en þó kuldalegu og fjarrænu brosi.
Niðri í bátnum voru menn farnir að undrast hverju skyldi gegna að Tryggvi hafði eigi enn þá vera búin að láta síga niður til þeirra kaðalinn. Sjá þeir ofan úr gráu mistrinu þá Tryggva koma aftur prílandi án nokkurs reipi, og þykir þeim furðu sæta. En meiri undrun sótti á þá þegar þeir sáu að á hæla Tryggva var maður annar. Skelfdust margir hásetanna á Brynjari þessu og vildu sigla sem snöggvast í burtu en Sæmundur varnaði þeim þess allskostar. Þeir skyldu bíða og sjá hverju sætti.
“Sölvi!” æpti Guðmundur faðir hans. Augu allra voru útglennt og virtust fæstir átta sig á því hvað væri að gerast. Guðmundur þjösnast hins vegar í einum hvelli þvert yfir bátinn til að taka á móti týnda syninum og faðma. Guðmundur komst í svo mikið uppnám að hann varð orðlaus.
“Þið komuð og sóttu mig strax,” sagði Sölvi, “Þú beiðst ekki lengi með að ná í mig aftur.
Guðmundur skildi ekki alveg hvað hann átti við. Fyrir honum hafði þetta ár verið endalaust að líða.
“Þetta er svo sannarlega eitt af kraftaverkum guðs er vér fáum að upplifa hér í dag,” sagði séra Jón. Engin sagði neitt frekar en þeir feðgar settust niður, allir augljóslega afar hrærðir. Þokunni hafði létt og komin var blíða. Bátsmennirnir á Brynjar réru í land aftur.
Aðeins einn þeirra hafði tekið eftir einhverju óvenjulegu við Sölva. Pilturinn var að vísu klæddur í sömu fötin og sama skartið og þegar hann týndist ári áður en Tryggvi hafði tekið eftir því upp á eynni að hann bar á bakinu fjólubláan poka sem hann hafði aldrei séð áður. En Tryggvi var svo hrærður að þessar hugsanir voru fljótar að víkja.

Endir fyrsta hluta.
++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++++