Það eina sem ég man var að klukkan var 15:32. Ég man það svo greinilega af því að ég var rétt búin að líta á klukkuna. Svo heyrði ég mikinn hávaða og öskur og allt varð svart. Þegar ég rankaði fyrst við mér þá sá ég ekki neitt. Það var allt dimmt í kringum mig. Ég gat heldur ekki hreyft mig. Ég heyrði ekki í neinum og ég vissi ekki hvar ég var. Svo leið ég aftur útaf.
Næst þegar ég vaknaði hlaut að hafa liðið þónokkur tími afþví að það var orðið bjartara og ég sá svona það sem var næst mér. Ég sá að ég var flækt í eitthvað svart drasl, og að yfir fótunum á mér var eitthvað það stórt að ég gat ekki hreyft mig. Ég var með rosalegan hausverk og mér fannst eins og eitthvað heitt læki niður ennið á mér. Það hlaut að hafa verið blóð. En afhverju? Hvað hafði eiginlega gerst?. Og hvar var ég eiginlega? Og mikilvægasta spurningin af öllum; hver var ég? Ég mundi ekkert, ekki einu sinni mitt eigið nafn. Mér leið eins og ég væri nýfædd. Engar minningar, ekkert. Hvorki nöfn né andlit.
Ég reyndi aftur að hreyfa mig en gat það ekki. Þá sá ég að ég var flækt í bílbelti. Og ég sá af umhverfinu að ég var inn í bíl, í aftursætinu á bíl af því að ég sá sæti fyrir framan mig. Ég hlaut að hafa lent í bílslysi. En með hverjum? Guð minn góður var kannski einhver í framsætinu? Það hlaut að vera fyrst ég var aftur í. Ég prófaði að kalla. Það svaraði enginn og ég heyrði ekkert.
Svo leið aftur yfir mig. Ég veit ekki hversu lengi ég var meðvitundarlaus, en ég vaknaði við það að sólin skein beint í augun á mér. Núna sá ég allt svo greinilega. Ég var í bíl. Og það sem var yfir fótunum á mér var steinn. Ekki mjög stór en þó það stór að ég gæti sennilega ekki lyft honum ein. Ég sá líka annað sem gladdi mig ekki. Í framsætinu lágu tvær manneskjur. Tvær stelpur. Ég vissi ekkert hverjar þær voru enda sá ég ekki framan í þær. Þær lágu fram á mælaborðið ataðar í blóði báðar tvær og í undarlegum stellingum. Þær voru greinilega í lífshættu, jafnvel dánar nú þegar. Þær virtust svo litlar eitthvað, þær voru áreiðanlega ekki meira en 20 ára.
Ég fann að ég var rosalega máttlaus. Og sennilega var það af blóðmissi. Ég fann að ég var með stórt sár á höfðinu. Það blæddi þó ekki lengur og ég huggaði mig við það. Ég var örugglega ekki í lífshættu af því að ég var farin að geta hugsað rökrétt. Ég kannaðist þó ekki við mig, ég hafði ekki hugmynd um hvar ég var. Einhvers staðar út í móa var það eina svarið sem mér kom í hug. Bíllinn hlaut að hafa oltið nokkuð langt. Ég heyrði allavegana ekki í neinum bílum og það var mikið af steinum hérna og bíllinn var mikið skemmdur.
Það var þó eitt sem plagaði mig mest. Saknaði engin okkar? Afhverju var ekki búið að finna okkur? Vissi kannski enginn að við værum týndar? Hvað hafði ég verið hérna lengi, hvað var ég lengi meðvitundarlaus? Og hvaða stelpur voru þetta, afhverju vissi ég ekki hver ég var? Ég vissi að ég hafði greinilega orðið fyrir minnistapi, og það ekkert litlu. Það var rosalega skrítin tilfinning að vita ekki einu sinni nafnið sitt.
Svo fann ég fyrir nýrri tilfinningu, ég var orðin svöng. Það hlaut að vera liðinn að minnsta kosti sólarhringur frá þessu slysi. Það var aftur orðið dimmt. Og enn gat ég ekki losað mig. Þessi bílbelti, allt of sterk. Ég var búin að reyna að naga það í sundur en það gekk ekki alveg nógu vel hjá mér. Það eina sem ég hafði upp úr því var vont bragð. Það sem mér fannst óþægilegast var þetta myrkur. Ekki myrkrið úti, heldur þetta í hausnum á mér. Þegar ég reyndi að muna eitthvað var eins og það yrði bara ennþá svartara. Svo var ég orðin svo þreytt, alveg örmagna, og ég fann hvernig ég var alveg að sofna. Í þessari líka óþægilegu stellingu. Að lokum sigraði svefninn mig..

,,Þarna er bíllinn! Við fundum þær! Hérna er ein, hún er á lífi. Hinar tvær eru annað hvort meðvitundarlausar eða látnar. Við þurfum skjúkraþyrlu á staðinn og klippurnar til að losa þær úr þessu bílflaki. Látið aðrar sveitir vita.“

Gamla konan hrökk upp. Hún settist rólega upp og reyndi að hagræða sér þannig að hún fyndi ekki mikið til í höfðinu. Hún upplifði þetta andartak svo oft, bæði í vöku og draumi. Eftir þessa drauma reyndi hún alltaf af alefli að reyna að muna eitthvað. Og stundum komu til hennar litlar minningar, frá öðrum tímum, öðru lífi. En hún fékk aldrei það mikið að hún gæti raðað því saman í eina mynd.
Henni var aldrei sagt hvaða stelpur þetta voru í framsætinu á bílnum. Það eina sem hún vissi um þær var að þær létust báðar á spítalanum, henni til mikillar sorgar. Og oft heyrði hún hjúkrunarkonurnar á spítalanum tala um ”kannski er það bara eins gott að hún man ekkert, þá veit hún ekki hvað þær skiptu hana miklu máli“ ”ef að þetta hefði komið fyrir mig þá væri ég alveg til í að missa minnið“ Afhverju skiptu þær hana máli? Hverjar voru þær, og hvað gerðu þær?
Af öllu sínu lífi mundi hún varla neitt, nema þessi augnablik og það sem hún hafði upplifað síðan. Það voru liðin heil 35 ár frá slysinu. Hún var orðin gömul og þreytt. En hún vildi ekki gefast upp fyrr en hún vissi hverjar stelpurnar voru. Hún var svo sem búin að giska á eitthvað en hún var bara ekki viss hvort að það væri rétt. Hún kreppti hnefana þegar hún hugsaði um það að hún hafði eytt 35 árum af ævi sinni, rúmföst á spítala, án þess að fá að vita neitt um sig, fjölskyldu sína(ef hún átti þá einhverja) því að það kom aldrei neinn í heimsókn til hennar. Eina fólkið sem hún talaði við var fólkið sem hún kynntist á spítalanum og hjúkrunarkonurnar og læknarnir. Einmanaleikinn var stundum svo mikill að það eina sem hún vildi var að Guð miskunnaði sig yfir hana og tæki hana til sín. Hún andvarpaði, lagðist aftur á koddann og reyndi að sofna.

',,Mamma hvenær fæ ég sítt hár eins og þú? Eva komdu með dúkkuna ég á hana! Mamma.. Mamma viltu segja Evu að koma með dúkkuna mína?”
,,Eva mín, láttu Steinunni fá dúkkuna, þú mátt leika þér með bangsann.“
,,Æ mamma.. Allt í lagi þá. Hvað er í matinn?”
Hún hló með sjálfri sér, það var merkilegt hvað þær voru fljótar að skipta um umræðuefni. Mesta gleði hennar var að eignast stelpurnar, gimsteinana hennar.'

Hún vaknaði við stingandi sársauka í brjóstholinu. Sársaukinn var svo mikill að henni fannst eins og hún væri að brenna upp innan frá. Hún brosti þó sársaukafullu en angurværu brosi. Hún hafði loksins fengið að vita hverjar stelpurnar voru. Brosið lék um varir hennar alveg þangað til að lífið yfirgaf hana og fylgdi henni í land draumanna.
Gömul sál hafði loksins fengið frið.
go on just say it.. you need me like a bad habit.