Í frelsisins nafni.
(Félagsleg harmsaga
um mann, sem var árvakur)


Það var eitt sinn á Íslandi rétt eftir aldamótin 1999-2000, að ungur maður var á götunni í þunnri peisu fyrir yfirhöfn einni saman yfir harðasta vetrartímann. Napurt og næðingssamt getur það verið fyrir ungan mann. Frost og hríðar nörtuðu og bitu í hann, þar sem hann var yfirgefinn á götum í því allsnægta landi, hinu guðsútvalda Íslandi, þar sem hvíslað er að þér, að þú sért einn hinna útvöldu, eigir þú þér ættgöfgi að baki. Maður okkar hafði átt harða æsku og vart haft forgöngu um hana, og því síður getað skapað sína ógæfu einn síns liðs. Hann dvaldist lengst af í yfirgefnu pakkhúsi niðri við Daníels-slipp við Reykjavíkurhöfn. Þar las hann um Mozart og ævintýrið um víkinginn Orm Rauða og gluggaði í stjórnskipulag Íslands við týru vasaljóss eða kerta. En stöku sinnum hírðist hann uppi á hálfrifnu lofti JL- hússins vestur í Reykjavíkurborg, því ekki vildi hann að athygli færi að beinast að sér niðri við slippinn, af því að ef slíkt hefði hent hefði hann verið hrakinn burt sem rotta eða eitthvað ennverra, t.d húslaus maður. Sál manns er hírist á götunni er þjökuð af skömm og fólk er ævinlega tilbúið að auka frekar á hana með fordómum og/eða grunnhyggju. Eitt sinn var JL- húsið tákn velsældar og frama. Allt svo fyrir hinn almenna mann sem ekki hafði mikið á milli sinna handa. Þar las hann sér til fróðleiks Sýnir og Vitranir eftir Erick Von Däniken og heimspekifyrirlestra Arnórs Hannibalssonar. Sem með ættfræði var mögulegt að gera hann nokkuð skyldan við. Reikaði hann einnig tíðum um borg þess lands [Íslands] og aflaði sér bjargar þar sem hana var að finna. En hana sótti hann helst í port eitt. Þar fann guminn kistu fulla af „góðgæti“. Í raun mátti hann ekki fá það sem í kistuna kom. Varð ungi kauðinn því að beita klókindum til að ná sér úr henni bita og koma herumbil strax, eftir að ætið hafði verið sett út og hafa varan á, af því að ekki mátti nokkur sjá. Hann þurfti að vera slunginn sem þjófur. Já, vegna þess að ef einhver [„sála“] hefði séð hann fara í kistuna hefði hún getað hringt á yfirvaldið og látið reka hann, grunsamlegan manninn, á brott. En ekki sá nokkur til hans svo vitað sé.
Okkar gumi gekk um með hugsjónir og hann hafði gáfur, eða svo hélt hann.
En tímar og tækifæri voru þessum unga gaur ekki hagstæð né hliðholl.
Hann sá framtíð bjarta en engin tækifæri til að láta drauma sína verða að veruleika. Hann hugsaði um orku ríkisins sem honum fannst ekki vita hvert stefndi. Drifkraftur þess væri nægur en honum fannst enginn keyra það áfram af mætti. Fannst honum allt vera frekar tilviljunarkennt hvað varðaði stefnu þess. Erfitt var fyrir þennan mann að hírast á þessum stöðum og á strætum Reykjavíkurborgar, þar sem engan á að skorta neitt annað en vitsmuni. Og þegar hann leitaði aðstoðar yfirvalda eftir húsaskjóli var komið fram við hann sem hin lægsta mann. Það var talað við hann sem hann væri ungbarn. Það er sem fólk sé svo grunnhyggið, hugsaði hann, að það haldi að einungis hugmyndasnauður ómálga aumingi verði hornreka í samfélagi voru og því hljóti hann um leið að vera grunnvitur og skilja lítið annað en barnalegt hjal og hugganir sem hljómuðu í huga hans hálf kjánalegar. En það var boðið upp á „aðstoð“ frá yfirvöldum og því leitaði hann hennar. En ekki var þá stoð að fá er hann þurfti, af því að hún er ekki veitt með þekkingarleysi á viðkomandi né fordómum, sem okkar ungi maður telur að sé einn stærsti morðingi veraldar ásamt afbrýðisemi. Og stöku stúlka á bakvið afgreiðslu þeirrar stofnunar er hann leitaði til kom fram af þvílíkri vangá. Jafnvél hífði sjálf sitt upp með því að niðurbægja manninn, hugsanlega af óvitaskap að hann taldi. Og ef hann dirfðist að vera ekki óskynsamari en ráðgjafinn sem hjálpina átti að veita eða hafa yfirsýn á hlut sinn og neita láta koma fram við sig sem undirmál, var talið að honum væri ekki viðbjargandi. Slíkur maður er ekki í húsum hæfur og er best settur áfram á götunni, eða á geðveikrahæli fyrir það eitt að hafa hug sem starfar og leitar eftir gagnkvæmri virðingu. Hugsandi manni líkar ekki að það sé komið fram við hann sem barn og að talað sé niður til. Fyrir einhverjum kann að vera svo illa komið að vera ólæsir, óskrifandi og ekki vel hugsandi um gang mála. Má vera að svo illa ástatt sé fyrir einstaka manni. En hann er óviss um að það sé stór summa af því mengi er aðstoð þarf til að komast af köldu strætinu. Því ekki man hann um sína tíð að hafa hitt slíka veru og þó svo hefði verið ástatt hjá mér, sagði hann, hefði slík framkoma samt sem áður verið óþörf. Eftir [að] hann gat ekki annað fengið, á þessum tímapunkti, en styrk upp á 58.000 krónur borgaði hann útistandandi skuldir samviskusamlega, sem hann gat, fékk sér ódýra steik sem hann át rólega og fékk sér rauðvín með, fór svo í laugarnar og er það var búið átti hann eftir eitthvað kringum um 22.000 krónur. Hann hugsaði mál sitt og endaði á Hjálpræðishernum, þar sem hann fékk herbergi leigt á efstu hæð sem var svo lítið, að helst minnti það á fangaklefa, en hann var feginn að komast í skjól.. En hann átti ekki fyrir nema 12 dögum. Það varð víst svo að vera.
Í herberginu, sem var um 5 fermetrar, var lítið ævagamalt rúm sem í brakaði mikið, vaskur og gamalt náttborð.
Hann fór vart út nema til morgunverðar. En það var ekki vel séð að hann gæddi sér á skyri, sem hertist sem steypa, og brauði með síld á morgnana. En hann taldi morgunverðinn innifalinn í leigunni, líkt og á flest [um] ef ekki öllum gististöðum, fyrir utan svefnpokaplássin. Og reyndu hjálpræðishermenn að krefja hann um 300 krónur fyrir hvern árbít. Hann sagði þá trúlausa, þráaðist við og hélt til morgunverðar hvern morgun af illri nauð, borðaði, drakk kaffi og las blöðin undir stingandi augum hermanna. Að öðru leyti hélt hann sér inni á þröngum vistarverum þeim er hann til afnota hafði og bað fyrir skilningsvana fólki því er hann taldi lifa á „gagnslítilli“ jarðkringlu þessari, í alheimslegum skilningi. Segja má að á þessum 12 dögum hafi hann orðið „syndlaus“. Nema það að fá sér morgunverð sem á boðstólum hafi verið synd án þess að greiða fyrir það aukagjaldið. Dæmið þér um það. Þetta gerði hann þá 12 morgna, sem hann fékk að vera þar fyrir ölmusufé það er hann hafði fengið, ekkert annað. Svaf, bað almættið og fór á salerni er hann þurfti. En hélt þeim ferðum í lágmarki.
12 dagar eru ekki lengi að líða og það kom fljótt að því að fara þurfti hann á götuna aftur og það gjörði hann samanbitinn af tilhugsuninni um kalt strætið en með æðruleysi þó. Hann ráfaði lítið eitt um götur hugsandi hvað skyldi gera og mundi þá eftir að hafa fengið nokkur kvæði birt eftir sig á síðum Morgunblaðsins. Hann hugsaði og komst að því, að hann hafi ekki fengið réttláta borgun fyrir þau, sem var raunin. Svo hann tekur sig til svangur og „syndlaus“og gengur að höll, byggingu eða hvað sem þær geta með góðu móti kallast þessar vistarverur Morgunblaðsins, til að fara á fund ritstjóra er um kvæði sæi. Hann gengur inn anddyri og spyr til vegar við afgreiðslu þar. Myndarleg kona bendir honum á, að ritstjóri sá er hann sækir eftir áheyrn við sé að finna á 3 hæð, sem hann fer til.


Og hann bíður þar í huggulegri biðstofu við skrifstofu hins lánsama manns, er ritstjórinn var í hans huga, þó hann þekkti ekkert hans líf.
Hann skoðaði sig vel um í biðstofunni, stóð jafnvel upp til að rétta við eina mynd sem var skökk. Hann testeig um gólf drjúga stund og þá fóru atburðir er birst hefðu á síðum dagblaðana þá 12 daga er hann hafði verið undir húsaskjóli að sækja að honum og vöktu þeir upp hjá honum réttláta reiði…

Það líður og bíður þar til önnur kona kemur að og spyr hvort ekki megi bjóða honum kaffi því hann gæti ekki fengið að hitta ritstjórann alveg strax. Hann þáði það með þökkum og bað hún hann að elta sig eftir gangi einum, sem hann gerði, og er inn af honum kom var lítið eldhús að finna með þessum fína „kaffisjálfsala“ og hún býður honum upp á bolla og súkkulaði með og segir að það þurfi ekki að borga í vélina og ekki fyrir súkkulaðið. Þessi maður hafði verið á vergangi einhverja mánuði, fyrir utan þá 12 daga er hann var hjá Hjálpræðishernum, þakkar fyrir sig og hugsar, að hér sé ekki að finna fyrir því, að hann sé nokkuð minni en annað fólk sem í þessari byggingu er. Þetta séu nú samskipti sem hann vildi fá að taka þátt í á hverjum degi. Hún spyr hvort hann geti ekki bjargað sér sjálfur af því að hún þurfi að fara að sinna verkum sínum.
Hann segist jú geta það og við það fer hún, þessi myndalega kona, sem sá sér fært að standa upp frá verkum sínum til að bjóða honum… já, jafnvel honum upp á kaffisopa. Þvílíkt gæðafólk er það sem hér er hugsaði hann. Þetta á hún veröld til, það er nú meira! Kurteist og hjálpsamt fólk. Það líður líklegast um veröldina í heimi virðingar og iðjusemi, þýtur í gegnum þreyttan huga hans. Það fjörgar örugglega hæfileika barna sinna og andlegar gáfur. Þetta fólk þarf ekki að koma hingað að krefjast fjár fyrir nokkur kvæði, ef kvæði skyldi kalla, hugsar hann er hann sér á eftir ritaranum. Hann fær sér tvöfaldan bolla og súkkulaði. Stikar eftir ganginum með bollann þar til hann er búinn og fær sér svo sæti. Hann bíður um stund og hugsar svo um súkkulaðið góða. Guð, segir hann, mikið var þetta gott súkkulaði, ætli það sé nokkuð yfirgangur ef ég fæ mér meira af því. Hann dokar enn við og hugsar með sjálfum sér og segir loks við almættið: Ég held ég fái mér annan bolla og svolítið meira af þessu súkkulaði. Hann gengur því aftur inn ganginn að „kaffisjálfsalanum“ sem ekkert þurfti að greiða í og fær sér annan tvöfaldan expressó og tekur þrjú súkkulaði. Hann borðar eitt með bollanum, sem hann er snöggur með, og fær sér svo annan og gæðir sér á öðru súkkulaði með honum. Og þá fljótlega fer samviskan að segja til sín. Þrjú súkkulaði og tveir bollar… Það er of frekt. Það er best ég skili síðasta stykkinu, segir hann við sjálfan sig. Hann gerir það og klárar bollann, fer svo aftur til sæti síns þar sem hann beið sem fyrr eftir mektar-manninum. Þar var hann sveittur í lófum því kaffið hafði verið sterkt og hann fór að pirrast yfir sjálfum sér. Því ætti ég að verðskulda aukagreiðslu fyrir þessi „kvæði“? Slíkar eru hugrenningar hans þar til að kemur ritstjórinn og býður honum að ganga með sér inn á skrifstofu. Er inn á skrifstofu hans er komið takast þeir í hendur eins og mönnum sæmir og ritstjórinn býður hinum ógæfusama manni sæti og spyr hvert erindið sé.
Ja, málið er, segir hann, að ég hef fengið birt hjá þér nokkur kvæði og eitt sinn settuð þið tvö hvort ofaná annað svo ógjörningur var að greina hvað þarna væri á ferðinni. Þetta varð mér mikil skömm og heyrði ég glósur um að ég væri að reyna finna upp einhvern nýjan stíl, sem ég var löngum vegi frá að reyna. Og svo hefi ég, bætir hann við, einungis fengið um 2000. krónur fyrir hverja birtingu, sem er ekki einu sinni nóg fyrir nýrri skyrtu, því er ég hér kominn til að krefjast sanngjarnrar borgunar og bóta fyrir þá skömm er ég hefi þurft að þola, ykkar vegna, bætir hann við. Það kemur örlítið á ritstjórann, að honum fannst, en hann spurði þó hvað hann hefði í huga. Ég vil fá 150.000 krónur sagði ógæfumaðurinn og framvegis 10.000 fyrir hverja birtingu, en um allt má semja, bætti hann við.
Ritstjórinn hefur líklegast talið að þarna hafi [hefi] brjálaður maður á ferðinni verið og fór sér að öllu hægt og passaði sig að styggja ekki manninn.
Hann svaraði, að slíku væri ekki hægt að koma í kring á svipstundu og að hann þyrfti að bera mál sem þetta upp á ritstjórnarfundi. Hann skildi gera það á næsta fundi. Hin umkomulausi maður sá að þarna var lítil von um bjargræði, en sagði þó að peningarnir yrðu að vera komnir inn á reikning sinn um næstu mánaðarmót og rétti honum miða með númeri á, sem hann sagði vera reikningsnúmer sitt, að öðrum kosti myndi hann senda málið í lögfræðing. Hver veit, braust um í brjósti hans og hjá honum lifnaði við trú á hann sjálfan eins og oft á ögurstundu. Já, ég skal gera það sem í mínu valdi stendur, sagði mektar-maðurinn og að svo sögðu stóð hann upp og rétti fram hægri hönd sína. Og maðurinn stóð upp og tók í hönd hans og kvaddi. Hann var ennþá ekkert skáld, að hans áliti og taldi sig í raun hafa lítinn rétt til að krefjast slíkrar borgunar fyrir þessi „Trékyllisverk“ sem honum fannst ágætis ljóð, á góðum degi. Hann hafði ekki mikið verið í skóla svo heitið geti en hafði komist að því það þyrfti ekki mikla menntun til að hugsa rökrétt og eiga sér von. Og innst inni vissi hann, að það var ekki glæta um þá borgun er hann hafði farið fram á, þó voninni fylgi góð tilfinning. Hann labbaði aftur niðrí miðbæ, reikaði þar um stræti og fór aftur að hugsa um það sem í blöðin hafði verið skrifað meðan hann hafði húsa- skjól. Hann hugsaði með sér að eitthvað yrði að gera til að forða landi hans frá þeirri ógæfu er yfir það væri að dynja. Og rólega gerðist það óumflýjanlega, hann fór að missa tökin. Hann byrjaði að tala upphátt fyrst við sjálfan sig um hrun lýðveldisins á meðan hann rölti um miðborgina.
Á hann fór að renna æði og segja má að hann hafi tryllist og hann fór sem stefnulaust um þar til hann hafnaði inni í banka við Lækjargötu og þar fór hann að hrópa, líkt og vitfirringurinn sem æpti í kirkjum og um torg fyrir nokkrum öldum í útlöndum og sagði Guð vera dauðan, en hann hélt því fram að verið væri að ræna þjóðina og hrun biði íslenska ríkisins. Hann sagði einkavæðinguna sem stæði yfir myndi grafa undan ríkinu og skilja það á endanum eftir valdlaust, ef ekki yrði staldrað við bráðlega. Við skulum nú fara örlítið aftur í tíma og heyra hvað hann sagði og ég tek aftur í taumana á réttri stundu: Hvaða vitibornir menn svipta sjálfa sig völdum, þeir eru að hafa sig af fíflum. Hvenær ætlið þið að sjá það sem liggur ljóst fyrir? Við hröpum niður þrep siðmenningar og endum uppi með stórt ljótt mar á rassinum. Guð almáttugur eru allir blindir og/eða daufir? Ég spyr hvað á þjóðin eftir í sameiningu sem hún getur bent á og sagt vera afrakstur dugnaðar síns? Ég er ekki hlynntur því að ríkið sé alráðandi, allt í öllu. Það þarf ekki að gnæfa yfir sem eitthvert ógnar vald, það var rétt hjá þeim að slaka á í almennum rekstri. En nú er farið yfir mörkin, farið yfir mörkinn, við getum alveg eins farið og selt landið sjálft. Þetta er eins og að vakna upp við vondan draum, vondan draum. Hvernig getur það verið til að tryggja sjálfstæði okkar að gefa valdið frá stjórnmálunum yfir til einkaaðila sem vilja einungis tryggja sinn eiginn hag? Það getur nú vitanlega sýnt fram á tímabundinn hagnað ríkissjóðs að selja allt góssið, en hverjum gagnast gróðinn ef ekkert er landið. Já, ef ekkert er landið hverjum gagnast gróðinn þá? Það verður að halda uppi almannaþjónustu. Og hann sagði fleira um hrun og tímana tákn. Svona var hann brjálaður. Hann æddi næst út úr bankanum og hélt í átt til Stjórnarráðsins. Fólk inni í bankanum hélt áfram með verk sín sem enginn hefði maðurinn komið. Það var sem öllum væri sama. Hann hafði ekki etið mikið, aðeins skyr og brauðsneið með síld hjá Hjálpræðishernum Kl: 06:00 á morgnana og nú um morguninn drukkið þrjá tvöfalda Expressó og það sterkt. Hin „syndlausi“hóf upp raust sína er dýrsleg var orðin og sagði þrumandi: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum… Og það skal ég nú gera með Guðs leyfi, og ánægju, bætti hann við… Þið kjánar, sem allt þykjast geta og vita, megið ekki selja símann þessum aðilum sem nú stendur til að selja, af því að þeir eru að blekkja okkur, hann verður bútaður niður. Fólk staldraði við og fór að fylgjast með þessum manni öskra á Stjórnarsetrið. Hann sá það og hélt þá nokkurn veginn sömu ræðu er hann hélt í bankanum, en kallaði hina ráðandi stétt landráða- eða óráðsmenn til skiptis sem væru að koma eignum landsins undan. Og hann spurði: ef þetta eru föðurlandsvinir, hverjir eru þá óvinir þessa lands? Þeir eru að koma eignum þeim, er eru okkar, hélt hann áfram, sem þjóðar til einhverra, sem við vitum lítil sem engin deili á og varpa þar með ábyrð ríkisins yfir á einkaaðila, og svo mun Evrópusambandið hirða landið er allar lindir eru uppurnar. Og hann hrópar: Hvar er frelsið falið í slíku fyrir þegna landsins? Hann heldur áfram ræðu sinni í algleymi um stund. Hann segist t.d ekkert svo viss í sinni sök að Stjórnarflokkarnir séu um þetta meðvitaðir og vísar til slagorðsins: Stétt með stétt. Það geti varla verið með öllu gleymt. En hann getur sér til, að þeir séu jafnvel blindaðir af girnd eftir gróða og forustan sjái ekki, hvert gjörðir hennar leiði þjóðina að lokum. Nema hún hafi gert þetta að yfirlögðu ráði, því sumir beri í brjósti sér „sálarlausan“ Kapítalisma, en hann segist vona að svo sé ekki ástatt fyrir mörgum. Og svo kom einnig til greina, sagði hann, að sömu menn hafi haldið of lengi um taumana og misst sjón á hið sanna takmark. Sem er sjálfstæði Þjóðarinnar. „En það er svo, að ef maður leggur af stað með ákveðna stefnu í huga verður maður að líta í hringum sig reglulega til að halda stefnu“. Bætti hann við. Og áfram hélt hann: Ef ég hefði mátt til, myndi ég leggjast til atlögu við alla flokka og skoðanabræður þeirra, og berjast til síðasta manns. Hann hefði engu að tapa, af því að hvorki væri hann með menntun eða embætti og ekki sæktist hann eftir umbun af neinni sort. En þannig menn, sagði hann, gætu orðið ósigrandi. Hann spurði: Hvar við héldum að Ísland yrði á lista yfir fjárveitingar meðal margmilljónaþjóða innan Evrópusambandsins. Þjóð rétt yfir 250.000 íbúa. Haldið þið, að það verði gott að búa úti á landi þá, ef byggja þarf brú? Eða gera göng, flugvöll eða nýjan veg? Við séum sem dropi í hafi og hafið gæti mulið björg en dropinn þyrfti að hola steininn í takt við aldirnar. Hvað ætli það tæki einn „dropa“ langan tíma að hola fjárveitingarvald þeirra í Brussel? Hann sá skilti er á stóð: Forsætisráðherra og hleypur að því og lemur í og segir: Því ekki það? ÞVÍ EKKI ÉG?
Svo fór hann yfir Lækjargötuna að rosknum mönnum er voru að fylgjast með honum. Hann var kominn með brúna froðu í munnvikin, eftir kaffið sem hann fékk á skrifstofu Morgunblaðsins, og var óður sem tryllt naut. Hann æpti að þeim að þeir ásamt hugsandi hluta þjóðarinar væru vitni að stærsta glæp Íslandsögunnar síðustu 700 ár og að þeir gengu enn kúgaðir um líkt og torfkofabúar undir valdi Haralds Noregskonung. Þeir ættu í raun að hysjast aftur í moldarkofana, þar sem þeir ættu svo sannarlega heima því nútíminn væri greinilega [ekki] þeirra stund, þar sem þeir ásamt öðrum skynjandi verum í þessu landi hefðu ekki enn fengið kjark til að standa upp er þeim misbýður og hann sagði okkur öll vera huglaus. Og hann sagði þá hafa látið merja lífsneista landsbyggðarinnar fyrir framan augu sín og vitund og fyrirgert, að nokkur geti þar verið með góðu á meðan þeir tautuðu óánægðir með höku við brjóst. Það er sem þið séu óvitar, æpti hann, sem hægt sé að kaupa fyrir kana-tyggigúmmí. Þvílíkir endemis sakleysingjar. Að þeim orðum sögðum tók hann á rás yfir Lækjartorgið og hélt átt til Kristskirkju, þar sem hann settist niður og talaði við Guð. En stuttu seinna var hann tekinn höndum og sviptur sjálfræði og settur á sjúkrahús. Hann var þarna tuttugu og sex ára og hafði verið hér og þar um sína tíð, jafnvel litið inn í fangelsi. Hann hafði lífsreynslu sem gæti fengið hvern til að blygðast sín. Hann trúði á annað tækifæri fyrir þá er ógæfu hafa orðið að bráð. Hann segir enn að ekki þurfi mikla menntun til að geta hugsað rökrétt. Hann er kominn útaf sjúkrahúsinu, en segir enn, að það sé búið að fella ríkið og það endi þess vegna í hinu föðurlausa Evrópusambandi. En hann er ekki lengur á götunni að hírast í yfirgefnum byggingum eða æðandi á milli stofnana, boðandi fall íslenska lýðveldisins.
En í hans huga er þetta allt hrikaleg staðreynd, af því að ríkið sé nánast orðið eignar- og valdlaust, og þá sé bara að bíða eftir skrattanum, en auðvitað eftir valdatíð þeirrar stjórnar, sem seldi landið í „frelsisins“ nafni.
Vegna þess að ef/þegar andstæðan fær að taka við taumunum, mun hún ekki sjá annan kost, af því að hún sé mun heimskari. Hann segist sjá teikn um að ákveðið hafi verið að ná peningum þjóðarinnar út úr landi með þeim rökum, að menn hugsi betur um eigið fé en annarra, sem sé sjónarmið sem menn eins og Pétur Blöndal, stjórnarliði, hafi haldið uppi. Og að hér sé svo lítið hagkerfi og vegna þess séu takmarkaðir vaxtarmöguleikar fyrir það fé er nota ætti fyrir þjóðina. En það var nú margt annað sem gekk á í huga hans t.d varð hann Guð og konungurinn yfir Íslandi. En það var þó svo hér áður fyrr, að konungurinn var Guð lýðsins. Og einnig það er staðreynd í hans huga.
Endir.
Eftir Örn Úlriksson.
Anno Domini 2004.


En við sjáum einnig teikn um það að þegar Davíð Oddson fer frá embætti mun Evrópu umræðan fara af stað. Hin hugmynda snauði formaður framsóknarflokksins er með loft í höfðinu og drauma um embætti í Brussel. 080504.