Hérna er ritgerð/smásaga sem ég skrifaði í mars 2003.

Efnið var sorg.



,,Á sorgarhafs botni sannleiksperlan skín,
þann sjóinn máttu kafa, ef hún skal verða þín.”
Steingrímur Thorsteinsson




Sorgin… allir hafa kynnst henni á einn eða annan hátt. Þessi tilfinning sem er svo sár að hún annað hvort yfirbugar eða styrkir.




FÖLNAÐ BLÓM



Blóm þurfa birtu,
birtu og yl.


Hún hleypur upp tröppur. Það er myrkur, mikið myrkur og þögn. Hún heyrir ekkert nema sinn eigin hjartslátt; búmm, búmm, búmm, ótt og títt. Tröppurnar virka endalausar! Hún veit að hún þekkir þessar tröppur… finnur ótta innra með sér… dettur.

Hrekkur upp, þetta var martröð. Hún finnur samt ennþá þessa hræðilegu tilfinningu… berst við tárin, en getur ekki annað en gefið eftir… finnur tárin flæða. Hún lítur í kringum sig, það er drasl í herberginu hennar, hefur örugglega ekki tekið til í margar vikur. Hún fer fram á bað, lítur í spegilinn, í rauð augu og þvær sér í framan með köldu vatni. Hún fer aftur upp í rúm. Hún er hrædd við að sofna… hrædd við að snúa aftur í myrkrið, myrkrið sem ræðst á hana þegar hún lokar augunum. En hún er þreytt og að lokum sigrar svefninn.

Hún er aftur komin í sama stigagang. Sama myrkur, sama slæma tilfinnig innra með henni. Hún hleypur… sami hraði hjartsláttur, sömu tröppur en núna… núna kemst hún upp… stoppar við dyrnar.

Hrekkur upp, sest upp. ég er hætt að geta sofið… Hún klæðir sig í fötin og fer út í nóttina. Það er myrkur úti, dáldið kalt. Hún tekur bílinn… finnur fyrir reiði… gefur í… reynir að fá útrás, berst við grátinn…

Ég sakna þín svo, trúi ekki að ég sé búin að missa þig…
Afhverju? Hvernig… hvernig gastu yfirgefið mig? Hvernig á ég að lifa án þín? Hugsaðirðu út í það?!

Hún hækkar tónlistina í botn. Gefur aftur í… getur ekki meira, sorgin er að yfirbuga hana… keyrir út í kant, hallar sér fram á stýrið og hugsar til baka…

Hugsar til kvöldsins, þessa hræðilega kvölds… Við höfðum verið saman nokkrir vinir heima hjá þér. Ætluðum svo kanski í bæinn á eftir. En áður varstu orðin eitthvað slöpp og ákvaðst að verða eftir, leggja þig. Krakkarnir fóru en ég var aðeins lengur hjá þér, við spjölluðum og þú virkaðir í fínu lagi… mig grunaði ekkert! Þú virtist bara vera dáldið þreytt, enda ætlaðir þú að fara að sofa. Jói kom svo að sækja mig og ég fór. Stuttu síðar fékk ég svo skilaboðin frá þér: ,,Allt er þegar þrennt er” … ég vissi strax hvað þú varst að meina… við snérum við, gáfum allt í botn..!

En af hverju núna? Ég átti ekki von á þessu! Þú virtist vera að jafna þig! Það kom mér reyndar alltaf jafn mikið á óvart þegar þú gerðir svona lagað. Þrátt fyrir að þú segðist ekki ætla að gera það, óttaðist ég að þú myndir reyna aftur…

Hún vill ekki muna meira. Stendur út úr bílnum og labbar af stað, bara eitthvert út í bláinn… stefnulaust… það er enginn á ferðinni… henni líður eins og hún sé ein í heiminum.

Hún hugsar aftur til baka… og í þetta sinn lengra til baka…



Þú varst blóm,
svo viðkvæm og falleg.


Frá því ég hitti þig fyrst hefurðu verið mér allt… ég var háð þér. Ég er algjör aumingi, hrædd við allt nýtt, þori engu… en mér fannst ég alltaf þurfa að vernda þig… og fyrir þig… fyrir þig gat ég gert allt! verið hugrökk!!! …Ég man þegar við vorum litlar og strákarnir eitthvað að stríða okkur… -mér var reyndar sama þótt þeir stríddu mér, en ef þeir sögðu eitthvað um þig sá ég rautt… ég gat ekki alveg stjórnað skapinu þá… mannstu? hjólaði einfaldlega í þá, man ekki hvernig það endaði… ætli ég hafi ekki oftast tapað… en það var ekki það sem skipti máli, ég varði þig alltaf!

Ég var alltaf tilbúin að hjálpa þér… þú veist það?! En hvernig gat ég hjálpað þér? Þú varst að fá hjálp, en greinilega var það ekki nóg…

Hún gengur inn á milli trjánna, þetta er einn af fáum gróðursælu stöðunum í Reykjavík. Mjög fallegt og friðsælt…

Afhverju? Ég á aldrei eftir að skilja… hvað var það sem fyllti mælinn? Ég veit þú hefur haft það erfitt, en þú hefur haft það erfiðara! Hvað gerði útslagið? Mátt ekki láta svona lagað brjóta þig niður! Var það Kjarri? Strákar! Þeir koma og fara… en sérðu vinir verða, þeir fara ekki! Þeir yfirgefa mann ekki! Ég hefði aldrei yfirgefið þig!

Hvítir krossar… hundruðir hvítir krossar… ekkert nema hvítir krossar… afhverju hingað? Afhverju kom hún hingað? Hún lokar augunum… myndin sem hún er búin að vera að forðast í alla nótt þrýstir sér upp á yfirborðið…

Hún hleypur upp tröppur, tröppurnar upp að íbúð Sóleyjar… dyrnar eru læstar.

Sóley! Sóley! Ertu þarna? Er í lagi með þig? Opnaðu! Þögn, ekkert svar… Jói! Flýttu þér, það er eitthvað að. Við verðum að komast inn!

Hann sparkar upp dyrnar, hún hleypur inn.

Sóley! Sóley! Hvað ertu búin að gera?! Tóm töfluglös á gólfinu… og þarna liggur hún… á gólfinu… friðsæl… meðvitundarlaus… Nei, Sóley… hvað hefurðu gert?! Ekki yfirgefa mig! Ekki gefast upp! Jói fljótur! 112! Sóley, Sóley, vaknaðu! Opnaðu augun! Jói gerðu eitthvað, hún vill ekki vakna!

Hún þerrar tárin. Gengur áfram milli krossa og steina… gengur að nýlegu leiði, leiði með hvítum krossi og englastyttu…

Ég reyndi að vernda þig… en ég gat ekki verndað þig fyrir sjálfri þér…

Þunglyndið breytti þér… þú varst stundum svo fjarlæg… erfið að nálgast… það var svo erfitt að sjá hvernig þér leið… Ég skil þig samt vel… ég hef verið þung, hugsað um að fara… en þú, þú varst mér ástæða til að lifa… þú varst ljósið í lífi mínu… blómið mitt, viðkvæma blómið sem ég reyndi að hlúa að… En er þú ert farin, hvað á ég þá að gera? hvernig held ég áfram?

Hún krípur á hnjám sér og horfir niður í grasið…

Ég sakna þín svo… blómið mitt… litla viðkvæma blómið mitt…



Í myrkri blómin fölna,
visna og deyja.


Hún stendur upp, kveður að sinni… Snýr baki í krossana, gengur inn í myrkrið… íhugar leið út… sér birtu í fjarska… strætó? … hmm… nei, of blóðugt… Hún finnur bílinn og fer aftur heim.

Hún læðist inn, vill ekki vekja neinn. Ennþá eru allir sofandi. Hún háttar sig aftur og fer inn á bað. Opnar skápinn… það er nú bara ýmislegt til… tekur allt sem hægt er að gleypa og leggur sig inn í rúm.

Það líður ekki á löngu áður óttinn fer að minnka, hjartað að slá hægar og myrkrið að dvína…
Ljós, ljós sem yljar, litrík blómabeð og englar… Sóley!