Lífið hafði sinn vanagang. Ég var í læknisfræði; klásus; fullt af metnaðarfullu fólki að leggja sig fram en aðeins hluti af okkur komst áfram. Svo að mikið af mínum tíma fór í að læra en ég reyndi líka að halda mig í góðu formi og þegar tími var aflögu var ég með henni.

Ég heiti Eyvindur, kallaður Eyvi. Allt mitt líf hef ég búið með fjölskildu minni í sama húsinu í Kópavoginum. Ég er yngstur af fjórum systkinum. Guðjón er elstur, arkitekt; Lilja er næst elst, hjúkrunarfræðingur og svo er það Elsa sem er næst yngst en hún er líka arkitekt. Foreldrar okkar eru Hannes og María. Pabbi er læknir, vinnur á elliheimilinu Grund og Mamma er arkitekt og er með eigin stofu. Eins og sagt er, sjaldan fellur eplið langt frá trénu.

Það hefur aldrei farið mikið fyrir mér, ég hef einhvern vegin ekki haft mikinn áhuga á að vekja mikla athygli á mér. Þetta átti sérstaklega við þegar ég var í grunnskóla. En þegar ég fór í menntó breyttist þetta lítillega. Frænka mín sem er ári eldri en ég var í sama skóla og ég. Þar sem hún var býsna vinsæl fékk ég meiri athygli en ég hefði annars fengið. Stelpurnar sýndu mér áhuga, ég prufaði að drekka, ég eignaðist kærustur og lífið var spennandi.

Ég kynntist henni á lokaári mínu í menntaskólanum. Við vorum saman í bekk og sátum oft saman. Við fórum að spjalla og sátum oft saman í mötuneytinu. Eftir að við vorum búin að þekkjast í nokkra mánuði fór hún skyndilega að vera fjarræn og þögul í kringum ég. Ég velti því fyrir mér hvað hefði gerst en reyndi að vera góður vinur. Svo kom það óvænta, hún bauð mér á stefnumót. Ég hafði velt því fyrir mér hvort við pössuðum saman en hafði alltaf reynt að ýta þess háttar hugsunum frá mér, ekki gefið voninni tækifæri á því að festa rætur. Ég var fljótur að segja já. Við fórum í bíó, við héldumst í hendur, og þegar við kváðumst kysstumst við. Fljótlega vorum við orðin par.

Ég vissi það alltaf að við erum ólík. Í byrjun var ég hræddur við það. Hve oft hefur maður ekki heyrt að til þess að öðlast framtíðarsamband þurfi tvo einstaklinga sem eru líkir að einhverju leiti; líkir í skapgerð, útliti, með svipaða drauma, markmið, eitthvað.

Hún ólst upp í Hafnafirði með mömmu sinni. Þegar hún var sex ára skildu foreldrar hennar vegna þess pabbi hennar hafði staðið í framhjáhaldi. Hún talaði um hvernig allt breyttist þá. Hún fann fyrir höfnun og fannst lífið hafa svikið sig og upp frá þeim tíma átti hún erfitt með að treysta nokkrum manni. Einu manneskjurnar sem hún treysti voru amma hennar og frændi, bróðir pabba hennar. Frá því foreldrar hennar skildu fór hún til þeirra hvern einasta dag eftir skóla og var oft langt fram á kvöld. Hún eyddi heilu helgunum hjá þeim. Hún talaði samt aldrei um hvað mömmu hennar fannst um þetta, eða pabba hennar. Bara að þegar hún var hjá ömmu sinni og frænda var hún heima, því þau veittu henni það sem hún þurfti, athygli.

Það var meira sem breyttist hjá henni við skilnaðinn, hún hætti að hlusta á fólk og fór sínar eigin leiðir. Eina fólkið sem hún hlustaði á voru amma hennar, frændi og ein frænka sem gaf henni oft tíma og hjálpaði henni við skólann. En þetta fólk sýndi henni ekki aga, foreldrar henni ekki heldur. Hún var stelpan sem allir vorkenndu af því hún átti veika móður og faðir sem þungur. Hún var sæt og hafði saklaust yfirbragð. Og bakvið þetta saklausa yfirbragð faldi hún sig.

Hún átti aldrei erfitt með að eignast vini, enda skein góð, skemmtileg og áhugaverð manneskjan í gegn. En vinirnir stoppuðu aldrei lengi, oft í nokkra mánuði, stundum í nokkrar vikur. En ekki af þeirra frumkvæði. Hún byrjaði að vera köld gagnvart vinum sínum og ýtti þeim í burtu. Henni þótti þetta miður en gat ekkert í þessu gert. Ég er viss um að ef einhver hefði stoppað hana af og veitt henni hjálp hefði hún dafnað sem yndisleg og góð manneskja, sem hún er, bara laus við blekkinguna, laus við komplexana, laus við depurðina, eirðarleysið og ófullnægjuna.

Það var ekki oft en það kom fyrir að hún talaði um foreldra sína. Mér fannst alltaf jafn ótrúlegt að hlusta á hana tala um þá. Hvernig hún gat talað um allt sem hafði gengið á án þess að ásaka neinn, án þess að tala illa um þau. Hún sagði mér frá öllum skiptunum sem hún heimsótti mömmu sína á geðdeildina, þessi óteljandi skipti. Hvernig hún kom að móður sinni eftir að hún reyndi að svipta sig lífi. Hvernig hún huggaði móður sína sex ára gömul. Hvernig þær rifust. Hvernig pabbi hennar var reiður þegar mamma hennar reyndi að svipta sig lífi bara til þess að gera það sjálfur seinna. Að sjá pabba sinn halda framhjá konum sínum. Að sjá hann bitran og ásaka heiminn fyrir að vera einhvern vegin, bara til þess að verða þannig sjálfur. Ásakanir mömmu hennar eftir allt sem hafði gengið á, eftir alla hjálpina sem hún veitti mömmu sinni, bara til þess að verða ásökuð um tala illa um hana við fjölskilduna. Að elska móður sem hringir aldrei, sínir aldrei áhuga, nema þegar henni vantar eitthvað. Um þetta gat hún talað án þess að ásaka neinn.

Við áttum góðar stundir og við áttum erfiðar stundir. Hún er mín fyrsta raunverulega ást og hún átti mig allan. Þess vegna skil ég ekki hvernig hún gat gert þetta. Vissulega var skólinn þrúgandi; vissulega sýndi ég henni minni athygli, en auðvitað elskaði ég hana ekkert minna. Ég byrjaði að taka eftir einhverju mánuði áður en ég frétti það. Hún varð fjarrænni og virtist oft vera einhversstaðar annarsstaðar þótt við værum bara tvö, jafnvel þegar við gerðum það. Ég ákvað að ávarpa þetta ekki, spurði hvort eitthvað væri að en þegar hún svaraði neitandi var ekkert meira sem ég gat gert. Skólinn hélt áfram, og áfram fjarlægðist hún. Ég reyndi eins og ég gat að vera góður við hana, kyssa hana, segja henni að mér þætti hún falleg, segja henni hve mikið ég elskaði hana. Það kom svo tími að hún kom aftur. Hún varð enn á ný sú stelpa sem ég kynntist, ástrík, gefandi, góð. En það entist ekki. Aftur fjarlægðist hún. Oft hafði hún ávarpað það að henni þætti óþægilegt þegar ég færi drukkinn eitthvað og ég virti það. Því kom það mér á óvart þegar hún fór að vera lengur út um helgar. Eðlilega reiddist ég. Ég var sár og fannst leiðinlegt að aðrar reglur giltu um hana en mig. Ég sá það á henni þegar við ræddum þetta að henni fannst þetta leiðinlegt. Hún sagðist nú sjá eftir því að hafa komið svona fram við mig og baðst afsökunar á því að vera vond kærasta. Þetta skipti mig ekki það miklu máli svo að ég tók afsökunarbeiðnina glaður til greina og vonaði að allt batnaði. Það gerðist ekki, ekki fyrr en eftir nokkra daga. Það kom að því að hún fór að tala um að hún vildi hætta þessu. Mér þótti það skelfilegt, en ef hún var ekki lengur hrifin af mér, þá mundi þetta hvort eð er ekkert ganga. Svona var þetta um tíma. Hún kom aftur og nú enn heitar en nokkurn tíman fyrr. Við elskuðumst af mikilli ástríðu, kúrðum og hún lét mér líða vel. Hún sagði að hún vildi að þetta myndi ganga hjá okkur og að hún vildi gera allt sem hún gæti til þess að láta þetta ganga.

Skólinn hélt áfram, hún fjarlægðist aftur, og svo kom að því. Ég var í tölvunni og sá tölvupóst til hennar. Það var frá einhverjum strák. Ég hringdi í hana, hún grátbað mig að lesa ekki póstinn. Ég skildi ekki hvers vegna. Hún fór að gráta. Ég varð hræddur. Ég ákvað að lesa ekki póstinn en skoðaði póstinn sem hún hafði sent. Og þar sá ég það. Hún hafði sent honum bréf. Fyrirsögnin var “sæll yndið mitt.” Ég las áfram. Það sem ég sá var óhugsandi. Hjarta mitt brast. Ég hringdi aftur, ég grét, hún grét og hún kom. Biðin var endalaus. Ólgandi tilfinningahaf ólíkt öllu sem ég hafði kynnst þrúgaði alla mína vitund. Mér fannst ég vera að tvístrast, mér fannst verund mín tosaðist í allar átti, sársaukinn átti mig og ég vildi ekki vera. Svik, á öðru stigi en ég hafði áður kynnst höfðu átt sér stað. Ég beið, ég þjáðist, hún kom. Öll mín ást mín féll í skugga þess haturs sem fyllti mig. Hún ákvað að segja mér allt. Þetta hafði gengið í mánuð. Hún reyndi að afsaka þetta. Sagðist sjá eftir öllu. Sagðist hafa viðbjóð á sjálfri sér, en mér var sama um það, ég hataði hana. Ég kallaði hana hóru, sagði henni öll fjölskyldan mín vorkenndi henni ekki þótt henni liði illa. Ég sagði henni að ég vildi að ég hefði aldrei kynnst henni, að hún væri viðbjóður, hóra, ætti skilið að þjást. Hún reynda að espa mig upp, bað mig að slá sig. Ég leit á hana og sagðist ekki vilja særa hana að utan, heldur að ég vildi að hún þjáðist inná við, eins og ég gerði. Hún bað mig afsökunar og lagðist á hnén fyrir framan mig. Ég sagðist vorkenna systkinum hennar fyrir að eiga hana að og vonaði þau yrðu ekkert eins og hún. Ég sagðist óska að hún myndi deyja. Fyrst sagði ég henni að fara út, en það var myrk nótt og hún grátbað um að fá að vera í nótt, bara í nótt, svo myndi hún fara. Ég hélt áfram, ég úthúðaði hana af öllu mínu hjarta en fékk svo nóg, fékk viðbjóð á að horfa framan í hana og fór upp í herbergi og læsti á eftir mér. Þegar ég kom niður var hún í lyfjaskápnum. Ég sagði henni að hún ætti þetta ekki og að hún mætti ekki fá. Hún sagði ok og sagðist ætla að fara eitthvað. Að hún vildi ekki vera hér í nótt. Mér var sama. Hún bað mig að fara upp og svo myndi hún fara. Hún sagðist aðeins vilja sitja og svo myndi hún fara. Ég varð að ósk hennar. Eftir nokkrar mínútur gekk ég aftur niður og sá hana skrifa miða. Ég stóð uppi en hún tók ekkert eftir mér. Svo gekk hún upp með einn miðann, sá mig og brá. Hún vildi ekki gefa mér miðann. Hún hljóp niður og skæl grét. Hún sótti sér vettlinga inní herbergi og vasadiskó og eitthvað fleira. Ég gekk niður og sá að hún hafði skrifað miða til foreldra minna þar sem hún sagðist sjá eftir öllu og þætti leiðinlegt að hafa sært þau og svikið á þann hátt sem hún gerði því að í raun og veru elskaði hún þau jafnmikið og eigin foreldra. Ég leit á miðann og sagði henni að þeim væri sama. Hún afmyndaðist í andlitinu, tók miðann og stormaði út. Ég vissi ekki hvernig ég átti að vera, sat bara einn og grét. Eftir hálftíma fékk ég sms. Ég fraus. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég reyndi að hringja í hana en hún skellti alltaf á. Ég reyndi aftur og aftur þar til loksins hún svaraði. Hún grét og fannst allt ómögulegt. Á endanum fékk ég hana til að segja mér hvar hún var og ég sótti hana og keyrði hana á spítalann. Hún vildi fyrst ekkert fara út úr bílnum, sagðist vilja vera aðeins lengur, bara aðeins lengur. Að lokum gengum við saman inn á bráðamóttökuna og ég beið þar til hún komst undir læknis hendur. Ég keyrði heim og ég grét. Ég gat ekkert sofið og hringdi reglulega í spítalann til þess að athuga hvort það væri í lagi með hana. Um níu leitið ákvað ég að fara á spítalann og sjá hvort það væri í lagi með hana. Hún lá í rúmi, hvít sem mjöll með tæki tengd við sig, afmynduð. Þetta var í næst seinasta skipti sem ég sá hana. Eftir tveggja daga dvöl á spítala kom hún og sótti föt og annað heim, við reyndum að tala saman en reiðin mín var það sterk, hatur mitt það heitt, að ég gat ekkert gert nema vonað að hún yrði fljót út. Þegar hún fór rétti hún mér miða, það var sjálfsmorðsmiðinn. Ég las hann og reyndi að skilja en gat það ekki.

Núna er vika liðin og einu samskipti sem ég hef átt við hana hafa verið í gegnum sms. Ég hef reynt að spyrja hana hvers vegna hún gerði þetta. Hún svaraði spennufíkn, að forgangsröðin hafi verið í ólagi, að hún hafi ekki getað sagt nei. Ég spurði hvers vegna einhver gerir svona í tvö skipti ef hann sér svona eftir því fyrra, hún svaraði “vegna þess maður hefur viðbjóð á sjálfum sér.” Ég fékk þessi skilaboð fyrir fimm dögum. Ég hef ekkert heyrt meira frá henni. Ég hringdi að vísu í frænku hennar sem hún býr núna hjá og til að spyrja hvort hún væri enn í sjálfsvígshættu, en svo er víst ekki. Ég skil það enn ekki hvernig hún gat gert þetta, en svona er lífið stundum, maður skilur ekki neitt. Lífið verður eins og völundarhús, en ég verð það líka, villtur út á við, villtur inn á við. Ég reyni að halda áfram og vona að einhvern tíman hætti mér að líða svona. En þetta, þetta get ég líklegast aldrei fyrirgefið, hún var allt mitt líf og hún reif það frá mér og skildi mig eftir nakinn, í köldum óbyggðunum, með ekkert nema bitrar minningar. En svona er það stundum, þetta líf.

Endir.