Í fyrndinni bjó kona nokkur með ungum syni sínum í litlu húsi í litlum bæ við árbakkann. Drengurinn var yndi hennar og eftirlæti og hafði augu sem voru blá eins og himininn. Á kvöldin sat hún við vögguna og ruggaði barninu í svefn á meðan hún söng fyrir hann:

Korriró og dillidó
Sofðu nú í sætri ró
Sofðu í myrkrinu svarta
Vakna svo aftur með deginum bjarta

Dag nokkurn fór konan út niður að ánni að þvo þvottinn og skildi son sinn eftir sofandi í vöggunni. Henni dvaldist lengi við þvottinn en þegar hún sneri aftur var drengurinn horfinn úr vöggunni. Hún leitaði allstaðar en fann hann hvergi.

Tíu sumur og tíu vetur liðu en hvergi fannst drengurinn. Móðirin gleymdi honum þó aldrei og á hverju kvöldi settist hún í stól fyrir utan litla húsið sitt við árbakkann og söng til hans.
En víkur nú sögunni að drengnum. Á meðan hann svaf í vöggunni sinni hafði rotta læðst inní húsið í leit að mat. En þegar rottan sá drenginn mundi hún eftir sínum eigin ungum sem hún hafði misst. Rottan fann fyrir sárum söknuði og grét. Tár rottunnar féllu á andlit drengsins og hann vaknaði, en þegar hann sá rottuna varð hann ekki hræddur. Þegar rottan horfði í himinblá augu drengsins og sá að hann var ekki hræddur ákvað hún að hann skyldi verða hennar barn. Rottan tók þá drenginn með sér og fór með hann í hreiðrið sitt djúpt inni í skóginum hinum megin við ána.

Þegar tímar liðu breyttist litli drengurinn smátt og smátt og líktist æ meir rottunni fóstru sinni. Loks var drengurinn sjálfur orðinn að rottu og leit á rottuna sem móður sína því hann mundi ekki lengur eftir annarri móður. Rottan eignaðist fleiri unga sem litli drengurinn leit á sem systkini sín. Hann var ekki frábrugðinn þeim að neinu öðru leyti en því að augu hans voru ennþá himinblá.

Dag nokkurn var rottudrengurinn úti að líta eftir litlu systkinum sínum meðan þau léku sér í grennd við árbakkann. Veðrið var gott og þau léku sér lengi dags. Loks var farið að rökkva. Hugðist nú rottudrengurinn fara heim í hreiðrið með systkini sín en þá bárust honum til eyrna yfir ána kunnuglegir tónar:

Korriró og dillidó
Sofðu nú í sætri ró
Sofðu í myrkrinu svarta
Vakna svo aftur með deginum bjarta

Staldraði þá rottudrengurinn við og hlustaði. Svo læddist hann niður að árbakkanum og skimaði yfir vatnið. Sá hann þá konu sem sat í stól og söng hinum megin við ána. Rottudrengnum vöknaði um augu en hann skildi ekki af hverju.

Þegar rottudrengurinn kom aftur heim í hreiðrið fór hann tíl fóstru sinnar og spurði:
„Móðir, hvers vegna kom vatn í augun mín þegar ég heyrði mennsku konuna syngja hinum megin við ána?”
Fóstra hans þagði lengi og hugsaði sig um. Loks sagði hún:
„Nú er komið að því sem ég hef lengi óttast.”
„Hvað er það, móðir góð?”
„Þú hefur fundið þína raunverulegu móður. Þú varst eitt sinn drengurinn hennar en ég tók þig frá henni.”
„Af hverju gerðir þú það?”
„Vegna þess að augu þín himinbláu hjálpuðu mér að gleyma þeim börnum sem ég hafði misst. En nú verður þú að fara til hennar sem átti þig fyrst því hún saknar þín.”

Rottudrengurinn kvaddi þá fóstru sína og systkini með söknuði og hélt af stað að ánni. Þegar hann kom að árbakkanum sá hann að áin var miklu breiðari og dýpri en hann hafði gert sér í hugarlund. Settist hann þá niður á bakkanum í þungum þönkum. Skömmu síðar kom spói nokkur spígsporandi til rottudrengsins og spurði:
„Hvað amar að þér, litla rotta?”
„Ég þarf að komast yfir ána en hún er svo breið og straumhörð að ég get ekki synt yfir.”
„Ég veit lausn á því,” sagði spóinn, „komdu til mín og ég skal fljúga með þig yfir ána.”
Rottudrengurinn fór þá til spóans sem greip með gogginum um halann á honum og reyndi að fljúga af stað. En hvernig sem spóinn reyndi þá gat hann ekki lyft rottudrengnum. Kvaddi þá spóinn og flaug á brott.

Settist þá rottudrengurinn aftur niður á bakkann í þungum þönkum. Skömmu síðar skaut silungur nokkur höfðinu upp úr ánni og spurði:
„Hvað amar að þér, litla rotta?”
„Ég þarf að komast yfir ána en hún er svo breið og straumhörð að ég get ekki synt yfir.”
„Ég veit lausn á því,” sagði silungurinn, „komdu til mín og ég skal synda með þig yfir ána.”
Rottudrengurinn fór þá til silungsins og hoppaði á bak honum. En hvernig sem rottudrengurinn reyndi þá gat hann ekki haldið sér á sleipu hreistrinu og rann af baki silungsins. Kvaddi þá silungurinn og synti á brott.

Settist þá rottudrengurinn aftur niður á bakkann í þungum þönkum. Skömmu síðar kom skjaldbaka nokkur kjagandi til rottudrengsins og spurði:
„Hvað amar að þér, litla rotta?”
„Ég þarf að komast yfir ána en hún er svo breið og straumhörð að ég get ekki synt yfir.”
„Ég veit lausn á því,” sagði skjaldbakan, „komdu upp á bak mitt og ég skal synda með þig yfir ána.”
Rottudrengurinn fór þá til skjaldbökunnar og kom sér fyrir á breiðu baki hennar. Synti þá skjaldbakan hægt og örugglega yfir ána og skreið upp á bakkann hinum megin. Rottudrengurinn þakkaði skjaldbökunni kærlega fyrir greiðann og kvaddi.

Nú stóð rottudrengurinn í háu grasinu á árbakkanum en það var ekki laust við að hann væri ofurlítið hræddur því hann hafði aldrei áður farið svona langt að heiman. En skyndilega hvarf ótti hans eins og dögg fyrir sólu þegar hann heyrði aftur sönginn sem hafði vætt augu hans:

Korriró og dillidó
Sofðu nú í sætri ró
Sofðu í myrkrinu svarta
Vakna svo aftur með deginum bjarta

Hann hljóp eins hratt og hann gat í átt að söngnum og kom loks að fótum mennsku konunnar þar sem hún sat og söng. Þá hrópaði rottudrengurinn eins hátt og hann gat:
„Mamma, ég er kominn heim!”
En mennska konan heyrði ekkert nema tíst í rottu og fór inn. Rottudrengurinn varð hryggur en elti samt konuna að húsinu og rétt náði að smeygja sér inn áður en hún lokaði dyrunum.
Þegar konan var komin inn gekk hún að rekkju sinni og bjóst til hvíldar. Þá hrópaði rottudrengurinn aftur eins hátt og hann gat:
„Mamma, ég er kominn heim!”
En mennska konan heyrði ekkert nema tíst í rottu og lagðist til svefns. Rottudrengurinn varð hryggur en hugsaði sér að hann þyrfti að komast nær eyra konunnar svo hún heyrði til hans. Hann klifraði upp á rúmgaflinn og hrópaði einu sinni enn eins hátt og hann gat:
„Mamma, ég er kominn heim!”
En mennska konan bærði ekki á sér og svaf áfram. Þá grét rottudrengurinn. Tár hans féllu á konuna og hún vaknaði en þegar hún sá rottudrenginn varð hún ekki hrædd því hún sá himinblá augu hans og þekkti hann.

Þegar tímar liðu breyttist litli rottudrengurinn smátt og smátt og líktist æ meir móður sinni. Loks var rottudrengurinn aftur orðinn mennskur drengur. Hann bjó með móður sinni í litla húsinu í litla bænum við árbakkann og þau voru hamingjusöm um aldur og ævi.
“I'm not young enough to know everything”