Er það ást ? Er það ekki fáránlegt þegar maður elskar einhvern svo mikið að manni líður alltaf illa? Maður er með sálarkvalir allan ársins hring og það er alltaf þessi kökkur í hálsinum, það er alltaf svo stutt í tárin. Hún lá uppi í rúmi og hugsaði um þetta. Jú, henni fannst þetta mjög fáránlegt. En hún gat ekkert að þessu gert. Hún var ástfangin. Yfir sig ástfangin. Þar sem hún lá þarna uppi í rúmi velti hún því fyrir sér hvort svona yrðu allir aðrir þegar þeir væru ástfangnir. Eða hvort þetta væri afbrigðileg ást. Var þetta kannski ekki ást? Hún fékk hroll. Auðvitað var þetta ást! En tekur þetta ástand einhvern tímann enda? Tekur það kannski bara enda þegar hún hættir að vera ástfangin? Hún var í djúpum þönkum og fann óttatilfinninguna læðast um líkamann. Hún var hrædd við að vera ástfangin, hún vildi ekki vera ástfangin! En hún var líka hrædd um að hætta að vera ástfangin, hún vildi ekki missa tilfinninguna. Hún var hrædd við þetta allt. Hún vissi ekki hvað hún átti að gera.

Hún var ástfangin af þessum strák, þessum fullkomna strák. Alltaf skyldi hún brosa þegar hún hugsaði um hann. Alltaf. Hún stóð sig stundum að verki í miðri kennslustund með bros út að eyrum af því að henni var hugsað til stráksins síns. Í hennar augum var hann það eina sem skipti máli í lífinu. Allur metnaður fyrir frekari námi og virðingu í lífinu hafði gjörsamlega horfið á undanförnum mánuðum. Hún vildi það alls ekki en það var bara þessi ást.. Það var þessi strákur.

Hún hafði alltaf verið stillta og prúða stelpan. Þessi feimna í bekknum. Hún hafði verið með sömu krökkunum í bekk í 10 ár en samt var hún ennþá dauðhrædd við að tala við þau. Hún hafði átt góða vinkonu þegar hún var lítil sem var í öðrum skóla. Síðan hafði hún flutt í burtu. Einn góðan veðurdag stóð húsið tómt. Hún var lengi að jafna sig eftir þetta. Hún var enn svo dofin eftir þetta áfall að hún fattaði ekki að þegar vinsælasta stelpan í bekknum vildi vera vinkona hennar var bara verið að nota hana. Þær höfðu ákveðið að gera gys að henni, sætustu stelpurnar í bekknum. Hún stóð eftir með sárt ennið. Þetta var í 8. bekk. Það var þá sem að hann kom inn í líf hennar. Reyndar höfðu þau verið ágætis vinir áður og alltaf verið gott á milli þeirra. En hann vorkenndi henni og vissi að hún væri betri en þessar stelpur. Þau urðu góðir vinir. Hann var þessi vinsæli strákur og var inni í öllum klíkum skólans. Hann var velkominn alls staðar. Hún leit á sjálfa sig sem aumingja og skildi ekki hvað hann vildi með hana hafa. Henni flaug það í hug að hann væri líka að nota hana. Þá fóru þau að fjarlægjast aftur…

Hann gekk ekkert á eftir henni enda átti hann marga vini í öllum bekkjum skólans. Hún átti eina ágæta vinkonu í bekknum sínum en það var allt og sumt. Þær hittust aldrei eftir skóla svo að hún eyddi miklum tíma ein. Hún lærði og lærði og var alltaf hæst í öllu. Hún samdi ljóð og sögur og hún málaði. Hana grunaði aldrei að hún væri þunglynd.

Eftir mesta og versta gelgjuskeiðið þorði hún loksins að tala við hann aftur án þess að verða fyrir aðkasti frá hinum stelpunum í bekknum. Hún bað hann að brenna disk fyrir sig og þar með hófst samband þeirra aftur. Þau töluðu um heima og geima og hann var frábær strákur þegar hann var bara einn með henni en ekki innan um alla óþroskuðu strákana í skólanum. Allt í einu var hann orðinn besti vinur hennar. Bara allt í einu. Hún hafði aldrei treyst neinum svona mikið. Að treysta því að hann væri ekki að nota hana var stórt skref fyrir hana. Þau eyddu miklum tíma saman og kjaftasögur um að þau væru nýtt kærustupar komust á kreik. Þó hlógu bara að þeim enda vissu þau að þau væru bara vinir. Þau voru bestu vinir. Þau skipulögðu árshátíð skólans saman og þegar einkunnirnar úr samræmdu prófunum komu hlupu þau inn á klósett og opnuðu umslögin saman. Þegar kom að útskriftarferð bekkjarins sváfu þau upp við hvort annað og hann hélt utan um hana. Samt voru þau bara vinir. Henni fannst bara gott að láta passa sig.

En um sumarið fór hann að vinna úti á landi með pabba sínum og hún varð eftir í bænum. Hann var alltaf 2 vikur eða meira í burtu og kom svo bara heim um eina helgi. Þetta reyndist þeim báðum erfitt og sérstaklega henni. Hann varð hrifinn af stelpu þarna fyrir vestan og talaði ekki um annað. Hún varð mjög leið og vildi ekki að hann byrjaði með einhverri stelpu. Þó svo að hún væri ekkert hrifin af honum þá vildi hún ekki missa hann sem vin og hún vissi alveg að samband þeirra minnaði ef hann færi á fast. Sumarið leið og loksins kom hann aftur í bæinn og fór ekkert aftur. Þau eyddu sem mestum tíma saman en höfðu eiginlega bara helgarnar. Hún var alltaf á æfingum á virkum dögum auk þess að þurfa að vinna. En helgarnar voru yndislegar hjá þeim. Þau lágu uppi í rúmi fram eftir degi og töluðu saman eða sváfu í fangi hvors annars. Á kvöldin fóru þau svo saman í bíó eða horfðu á spólur. Þau voru alltaf saman, bara þau tvö. Þau einangruðu sig gjörsamlega frá öllum öðrum og hann missti allt samband við sína fyrri vini. En honum var alveg sama. Hann hafði hana.

Þau voru löngu búin að viðurkenna að þau elskuðu hvort annað en bara sem vinir. Þau gátu ekki án hvors annars verið. En þau voru bara vinir. Hann var ennþá að tala við þessa stelpu fyrir vestan og gat ekki komið henni úr huga sér. Hann var bálskotinn í henni. Hann var mjög viðkvæmur og leið oft mjög illa því að hann var svo hræddur um að þessi stelpa vildi hana ekki. Hann var líka áhyggjufullur um að hún yrði sár ef hann byrjaði með stelpu. Hann vildi ekki missa hana. Hann elskaði hana.

Sumrinu fylgdu ákveðin vonbrigði þar sem að hann ákvað að fara í skóla langt í burtu. Á þeim tímapunkti sem hann sótti um voru þau ekki orðin það góðir vinir svo að hún sótti um í skólanum næst heimili þeirra. Þau sáu bæði eftir því en fengu engu breytt. Hún treysti honum fyrir öllu og hann vissi að hún átti við vandamál að stríða. Hún var þunglynd en hún vildi ekki takast á við það. Hann sagði við hana á hverjum degi hvað hún væri falleg og frábær stelpa en það tók hana langan tíma að venjast því. Hún gat ekki vanist því að einhverjum fyndist svona nokkuð um hana, hún sem var svo föst á því að hún væri ljót og ömurleg og að enginn vildi hana.

Í lok sumars var áætlað að gamli bekkurinn þeirra myndi fara saman í smá skemmtiferð. Í æðiskasti ákváðu þau að gifta sig í þessari ferð, bara í gríni. Hann keypti samt hring fyrir hana og kyssti hana á kinnina. Nú áttu þau hvort annað. Nú var það staðfest. Hann hætti að spá í stelpunni fyrir vestan, þessi stelpa var ekki neitt í hans augum lengur. Allt snerist núna um hana. Hann dýrkaði hana. Hann elskaði hana. Hann vildi hvergi annars staðar vera nema hjá henni. Þau höfðu aldrei látið sér detta í hug að svona góð vinátta væri til. Þau gátu rætt saman um allt. Hann hjálpaði henni mikið með andleg veikindi sín. Hún grét oft í faðmi hans, henni fannst það svo gott. Og honum fannst það líka.

Þegar skólinn byrjaði voru þau minna saman enda langt á milli. Þegar þau hittust var þar af leiðandi meiri kærleikur á milli þeirra. Brátt breyttist þessi vináttukærleikur í ástríðu. Þau gátu ekki lengur staðist hvort annað er þau lágu saman uppi í rúmi og töluðu saman. Hún fékk svo mikinn fiðring þegar hún kyssti hann. Hún virkilega elskaði hann og hafði gert lengi.
Hún lá uppi í rúmi og hugsaði um þessa tíma. Þeir voru svo yndislegir. Það var svo unaðslegt hvernig þau byrjuðu saman, hvernig samband þeirra þróaðist. En svo duttu þau aftur niður í kaldan veruleikann. Hún gerði tilraun til sjálfsmorðs í septembermánuði. Hún var komin með ógeð á lífinu, ógeð á skólanum og komin með upp í háls að geta ekki verið með honum öllum stundum. Hann var alltaf í skólanum eða einhverju í kringum skólann og hún þoldi það ekki. Hún var samt númer eitt hjá honum. Hann sagði það og hún trúði honum. Hann færi ekki að ljúga að henni. Nei.. Hann kom sjálfur í veg fyrir sjálfsmorð hennar og þau voru lengi að jafna sig eftir það. En ást þeirra varð sterkari og þau gátu ekki án hvors annars verið. Þetta fullkomna par. Hverjum hefði dottið í hug að þau ættu eftir að enda saman.

Nú var hún ein uppi í rúmi og grét. Henni leið illa. Hvar var hann? Hún vildi hafa hann hjá sér, ALLTAF. Hann var bara nýfarinn. Hann ætlaði ekki að vera lengi. En hún vildi hafa hann útaf fyrir sig. Hún vildi ekki að æskuvinkona hans væri með honum en ekki hún. Gömul vinkona hans var í heimsókn og hann var að sýna henni bæinn. Hún fór ekki með. Hann bauð henni ekkert með. Hún var sár en skildi hann samt. Samt skildi hún hann ekki. Þetta var erfitt. Hún vildi bara að hann kæmi heim til hennar. Hún þarfnaðist hans. Hún gat ekkert án hans. Hún vildi ekki vera svona. Hún vildi ekki vera svona sjálfselsk og eigingjörn á hann. Hún mátti það ekkert. En hún réði ekki við sig. Það er þessi ást. Hún gerir mann svona. Þessi ást gerir mann geðveikan!