Ég sit í eldhúsinu og horfi yfir borðið á auðann stólinn þinn. Ég finn hvernig tárin reyna að þrýsta sér inn í höfðinu á mér og þeim langar út um augun. Ég horfi upp og reyni að berjast við þau. Mig verkar í barkakýlið og undir augun, ég finn hvernig þau sigra mig og stíflan brestur. Eins og það getur verið gott að losa um tárin, þá svíður mér alltaf í hjartað, fingurna, varirnar og verkjar í líkamann er ég græt þig. Ég reyni alltaf að berjast með öllu sem ég á, þegar að því kemur. En stundum get ég glaðst með þér og leikið við þig í huganum. Oft held ég að þú sért að leika við mig, þú notar ýmiss brögð í leikjum okkar. Með tárunum vökva ég gleði mína á ný og er til í leiki. Ég þurrka burt tárin og geng út í haustið. Ég heyri hvernig fallandi laufin hvísla nafn þitt í sífellu svo breytist rödd laufanna í þína og þau hvísla:“ Komdu og dansaðu með mér.” Ég horfi á þau dansa umhverfis mig um götuna. Ég loka augunum og fylli lófana af laufum og hendi þeim upp yfir mig og finn snertingu þína í gegnum litrík blöðin, á meðan sný ég mér í hringi og finn að hönd þín strýkur andlit mitt, kitlar hálsinn og þú kyssir mjúklega á axlir mínar. Þú talar við vindinn og biður hann að blása svo ég elti laufin þín. Þau leiða mig að stóru tréi sem staðsett er í garði við einbýlishús. Þar setjumst við niður, veltumst um þar til ég finn að þú þarft að hverfa á braut. Sjálfsagt hefur þú skildum að gegna í himnaríkai og færð aðeins heimsóknartíma en ég veit samt að þú fylgist alltaf með mér.
Stundum fæ ég kveðju frá þér þegar ég er að ganga heim úr vinnunni, þá teygja tyggjóklessurnar sig upp af gangstéttinni. Geifla andlit sín, á meðan þær rífa sig upp úr flatri stellingu og fara allar í röð. Þá veit ég að þú vilt að ég setjist á stéttina og fylgist með. Mér finnst svo sniðugt hvað tyggjóið getur orðið mannalegt, bleikt, hvítt, grátt eða blátt, hendur, fætur og svo búkur og andlit saman. Þú lætur tyggjóklessurnar stundum skrifa kveðju til mín. Í gær skrifuðu þær: “ Mín að eilífu þú” , í fyrradag baðstu mig um að leita af blómunum í gráu grjótinu, af því að þú vissir hversu grár og dimmur sá dagur var í huga mér. En um leið og þú sagðir þetta mundi ég eftir fallegri Geymmérei sem ég hitti fyrr um daginn. Lítil hnáta sem sendi mér innilegt bros sem snerti sál mína, ég gat ekki brosað á móti en í staðinn gaf ég henni nafnið Gleymmérei. Nú þegar þú hafðir rifjað þetta upp fyrir mér, gat ég farið niður á hnéin og þakkað almættinu fyrir brosið fagra. Ég hef notað þakklætið mikið til að sjá ljósið og dýrðina í einmannalegum hversdagsleika mínum. Enda kenndir þú mér svo margt um aðferðirnar sem hægt er að nota til að gera lífið skemmtilegt, til að breyta hversdagsleikanum í ævintýri oghvernig ætti að elska eins og ég hefði aldrei verið særð og myndi aldrei missa. Þó svo að þú sért ekki hjá mér lengur sem manneskja, ertu alltaf hér. Aðferðir þínar kenndu mér að halda þér lifandi í hjarta mínu. Ég fæ að koma til þín þegar ég hef náð þeim þroska að kenna annarri mannesku aðferðirnar, þegar ég er orðin svo full af gjöfum frá þér, frá lífinu að ég get verið gestgjafinn og þarf ekki meir, ber aðeins áfram til annarra. Þá kem ég til þín.