Þetta er þriðja smásagan sem ég hef klára..(byrjað á milljón:) en fyrsta sem ég sendi inn á huga.. vona að ykkur líki við hana.
Allt skítkast afþakkað en gagnrýni vel þegin:)

Með dökkbrúnum augunum
horfði hann í gegnum mig,
fram hjá mér,
yfir mig,
á allt nema mig.
Líkt og ég væri ekkert nema ský,
þoka sem hann pírði augun til að sjá í gegnum.
Af hverju, af hverju leituðu augu hans alltaf til hennar,
bros hans mætti tindrandi hlátri,
varir hans sungu roða í kinnar sem ekki voru mínar.
Hví var ég alltaf sú ósýnilega,
fyrir honum var ég stjarna á miðjum degi,
falin sjónum hans.
Annað en hún,
fyrir honum var hún líkt og dansandi norðurljós
á flauelssvörtum himni.

Loksins komin heim.
Þrátt fyrir að það væri aðeins nokkurra mínútna ganga var það eins og heil eilífð.
Sting lyklinum í skráargatið og sný. Á móti mér tekur tómleikinn að vanda,
Ein heima…mamma að vinna, pabbi á sjónum.
Dagurinn líður, rétt eins og aðrir dagar, í einhvers konar leiðslu.
Mamma kemur heim, eldar.
Hún stingur upp á eftirmat, ég segist ekki hafa lyst.
Hún horfir áhyggjufull á mig
Ég stend upp, fer inn til mín og loka.
Langar að setjast niður, teikna eða semja…
en er orðin þreytt á að teikna dökkar myndir, semja vonleysisleg ljóð.
Þreytt á því, þreytt á lífinu, þreytt á öllu.
Sofna.

Vekjaraklukkan öskrar og ég hrekk við.
Lít á klukkuna, veit að ég þarf að fara fram úr en líkaminn neitar að hreyfa sig.
Fimm mínútum síðar bankar mamma á dyrnar.
“Ertu vöknuð elskan?”
“Já já” næ ég að stynja upp með lokuð augun og ljósin slökkt.
Drattast loks á fætur og lít út um gluggann.
Hrafnsvartur himininn blasir við.
“Þvílík endemis vitleysa að rífa mann upp um miðjar nætur, dag eftir dag.” hugsa ég pirruð.
Þrátt fyrir morgunþreytuna og pirringinn er þetta besti tími dagsins
og fyrir þessar mínútur er ég þakklát.
Því ég veit að restin af deginum og orku minni á eftir að fara í að horfa á hann.
“Horfa á hann, horfa á hana, láta þau kremja hjarta mitt dag eftir dag.
Sorglegt já, en svona er lífið” hugsa ég meðan ég sit á klósettinu og pissa.

Ég dríf mig fram, veit að ég á eftir að búa til nesti til að taka með í ferðina.
Já, ég neyðist víst til að fara í einhverja súra ferð með bekknum.


Ég sest niður við eldhúsborðið og glugga í Moggann.
“Ertu til í að taka til nesti fyrir mig, ég er að verða of sein.” segi ég við mömmmu
um leið og ég skófla í mig restinni af morgunkorninu.

Þegar í skólann er komið standa krakkarnir fyrir utan steinsteypta bygginguna.
Bakpokar í öllum regnbogans litum,
það stirnir á malbikið og koltvíoxíðið sem krakkarnir anda frá sér breytist í móðu þegar það mætir andrúmsloftinu.
Ég stend ein við hornið á skólanum.
Lítill krakki brosir til mín og spyr af hverju ég sé standi þarna ein.
Ég lít bara undan og svara engu.
Stuttu síðar kemur rútan.
“Krakkar mínir, verið þolinmóð og myndið einfalda röð” kallar Lína, umsjónakennarinn okkar.
Krakkarnir ryðjast inn og rútan fer af stað.
Ferðinni er heitið á stað sem heitir Djöfladyngja og er langt frá því að vera eins spennandi og nafnið gefur til kynna.
Þetta er vísindasafn… líkamspartar í formalíni, hinar ýmsu gerðir smásjáa og þar fram eftir götum.
Rútan hossast af stað og ég kveiki á geislaspilaranum.
Hann situr hinum megin á ganginum, rétt fyrir framan mig.
Hann er með dökkt, stuttklippt hár, bros sem margir myndu myrða fyrir.
Hann er góðu formi enda í íþróttum. Svo eru það þessi endalaust djúpu brúnu augu.
Botnlaus og tindrandi…
Ég festist í hugsunum mínum eins og svo oft áður, gleymi stað og stund.
Allt í einu snýr hann sér við.
Hjartað missir úr slag, en ég er fljót að ranka við mér.
Það getur ekki verið að hann sé að horfa á mig.. eða hvað.
Hann brosir, það fer ekki milli mála. Hann brosti til mín.
Þetta varði aðeins í eitt sekúndubrot svo snýr hann sér við og fer að tala við hana.
Sekúndubrot var það nú samt.
Hjartað hamast, og augun vita ekkert hvað þau eiga af sér að gera.
Fiðrildin í maganum vakna af dvala og svei mér ef þau fara ekki að syngja.
Bros læðist yfir varir mínar.
Get ekki stoppað það, vil það ekki.
Ég lít út um gluggann og sé þar hóp af englum.
Englum!
Á hverju er ég eiginlega.
Ég hristi hausinn og rútan þýtur áfram.
Lít út og sé engin merki um engla né aðrar verur.

Bara spegilmynd mína. Sennilega var það bara hún sem ég sá…
Síða dökka hárið og postulínshvít húðin gerir það að verkum að ég verð stundum hálfdraugaleg.
Annað en hún, með ljósa síða hárið sitt.
Alltaf máluð og alltaf eins og hún sé nýkomin frá Mallorka.
Já, hún er eins og sniðin eftir vinsældar formúlunni, hún er bara allt í plati..
..en það er líka það sem strákar vilja.Loks staðnæmist rútan fyrir framan stórt kúlulaga hús.
Inni tekur ung stúlka á móti okkur.
Hún segist heita Áróra.
Það er einkennilega bjart yfir henni..hún brosir til mín og verður allt í einu sláandi lík…
Nei hvað er ég að bulla.
Englar eru ekki til.
Stúlkan fylgir okkur um safnið og þylur upp staðreyndir.
Ég heyri ekki helminginn af því sem hún segir því hún hefur einhver undarleg áhrif á mig.
Ég finn allar áhyggjurnar og þreytuna svífa úr líkamanum á líkt og fyrir töfra.
Vá það mætti halda að ég væri á einhverju aðeins sterkara en ofnæmislyfjum.
Mér finnst eins og augu hennar hvíli alltaf á mér.
Fylgi mér hvert fótmál.

Loks göngum við inn í stóran sal með borðum og stólum.
Þar þakkar hún okkur fyrir komuna og segir að hún ætli að leggja fyrir okkur gátu.
Ef við getum svarað henni förum við í pott með krökkum úr öðrum skólum og svo verða tvö nöfn dreginn út.
Vinningshafarnir fá einhverja ferð.
Næ ekki alveg hvað hún er að segja en heyri krakkana stynja af spenningi.
Lína kennari útbýttir blöðum og blýöntum.
Ég lít á blaðið og les gátuna.

“Þegar ég er með þér ertu ein/n.
Þú getur ekki snert mig
en finnur samt fyrir nærveru minni.
Ég kem alltaf óboðinn
og þú getur lítið í því gert.
Hver er ég?”

Ég þarf ekki einu sinni að hugsa mig um heldur hripa niður orðið einmanaleiki á blaðið. Því miður er hann tíður gestur í mínu hjarta.

Ég er utan við mig á leiðinni heim og geri mér ekki grein fyrir hve lengi við höfum keyrt þegar rútan stoppar fyrir framan skólann.
Ég set geislaspilarann minn í bakpokann, er ekkert að flýta mér.

“Heyrðu, hefurðu nokkuð séð húfuna mína hérna einhvers staðar”
Ég lít upp og þar stendur hann.
“Ne-ee-ei, ég held ekki.” stama ég eins og auli.
Hann virðist vonsvikinn svo ég býðst til þess að hjálpa honum að leita.
“Takk, ég er viss um að hún hafi lent undir einhverju sæti.” sagði hann brosandi.
Viku seinna sit ég ein, aftast í kennslustofunni eins og alltaf.
Ég hef ekkert talað við hann síðan í rútunni.
Ég er samt ekkert vonsvikin, ég meina við hverju bjóst ég.
Lífsleikni er byrjuð og Lína er ekki komin.
Tveim mínútum seinna kemur hún inn.
Það er mikill órói í bekknum og einhver spyr hvort við megum ekki fara.
“Afsakið, mér seinkaði aðeins.” sagði Lína sposk á svip
“Ég var nefnilega að koma úr símanum”
Krakkarnir horfðu á hana engu nær.
“Það var hún Áróra, frá vísindasafninu.”
Það fer kliður um bekkinn.
“Hún var að segja mér að það hafi aðeins tveir svarað gátunni rétt og að þeir séu í þessum bekk!”


Það er niðdimmt inni hjá mér og eina hljóðið er minn eigin andardráttur.
Ég á ennþá erfitt með að trúa þessu.
Eftir nokkrar klukkustundir verð ég á leið út á flugvöll.
Þrjár vikur af siglinum og ströndum í Dóminíska-Lýðveldinu…ein með honum.
Jæja kannski ekki alveg ein, Lína og einhver kona á safninu fara með.
Áróra hvarf víst bókstaflega,um leið og allt var frágengið með ferðina.
Það var synd, ég hefði viljað tala betur við hana.

Ég loka augunum með bros á vör og sofna…


Geislar eldhnattarins,
dansa um himinhvolfið.
Hvítflissandi sjórinn bognar og brotnar,
undan stefni silfurskreyttrar skútu.

Með dökkbrúnum augunum
horfir hann á mig,
til mín,
aðeins á mig…