Síðasta ferð Jóns biskups Vídalín

Eftir Örn H. Bjarnason

Þetta var seinni partinn í september árið 1720 og Jón biskup Vídalín var kominn í hnakkinn á hesti sínum á hlaðinu í Skálholti. Hann fetaði hægt að Staupasteini og þar drakk hann ásamt fylgdarmönnum sínum hestaskálina. Síðan var riðið í áttina að Spóastaðaferju og niður með Ferjulæk að Brúará.

Á leiðinni varð honum hugsað til fornvinar síns og mágs, séra Þórðar Jónssonar á Stað á Ölduhrygg. Þórður var ný látinn, en þeir höfðu heitið hvor öðrum því, að sá sem lengur lifði skyldi jarðsyngja hinn. Nú var Jón á leið vestur að efna heit sitt.

Sigríður konan hans var honum líka ofarlega í huga, en hún hafði farið á undan honum vestur að Stað til að vera við dánarbeð bróður síns. Þau höfðu gifst árið 1699 árið eftir, að hann hafði verið vígður til biskups í Frúarkirkjunni í Kaupmannahöfn. Ekki hafði líf þeirra verið sársaukalaust. Þau höfðu misst tvær dætur sínar, einu börnin sem þau eignuðust. Sú fyrri hafði raunar fæðst andvana, en sú síðari dó í bólusóttinni miklu árið 1707. Þessi sorg hafði breytt ást þeirra í órjúfanlega vináttu og í hvert skipti, sem þau voru aðskilin fylltist hann söknuði.

Þeir voru nú komnir yfir Brúará og hestarnir hrisstu sig þegar þeir komu blautir upp úr ánni. Þeir höfðu verið dregnir á eftir ferjunni. Þegar búið var að leggja aftur á hrossin voru farnar Biskupagötur fyrir norðan Mosfell og niður með því að vestanverðu. Síðan norðvestur af fellinu og yfir Stangarlæk á vaði. Tekin var stefna á Apavatnsölduna milli bæjanna Þóroddsstaða og Neðra-Apavatns. Riðið var upp Moldbrekkur hjá Áfangamýri og upp á Heiðarbrún. Farið var hjá Beinavörðu og Biskupavörðu.

Það var einhver linka í Jóni þennan dag og minningarnar áttu óvenju greiðan aðgang að honum. Hann minntist veru sinnar vestur í Selárdal hjá séra Páli Björnssyni, galdraprestinum. Svo voru það vertíðirnar tvær í Vestmannaeyjum. Þar kynntist hann “stráksskap, lygi, þjófnaði, frekju og óskammfeilni,” eins og hann hafði víst orðað það í einum húslestrinum í Vídalínspostillu sinni.

Síðan voru það árin í Kaupmannahöfn. Hann hafði gengið í danska sjóherinn, vildi feta í fótspor afabróður síns, sem hafði verið herforingi í her Dana. Seinna voru það árin í Skálholti, fyrst sem kennari við Skálholtsskóla og síðan kirkjuprestur þar. Hámarkið var þó þegar hann gekk út kirkjugólfið í Frúarkirkjunni í Kaupmannahðöfn nývígður biskup í Skálholti. Litli drengurinn frá Görðum á Álftanesi, sjómaðurinn í Vestmannaeyjum og hermaðurinn í Danaher var orðinn friðarhöfðingi uppi á Íslandi.

Þeir voru nú komnir framhjá Reyðarbarmi og Ólafur kirkjuprestur í Skálholti stakk upp á því, að riðið væri um Hrafnabjargaháls og Biskupaveg um Prestastíg yfir Hlíðargjá að Víðivöllum undir Ármannsfelli. Biskup kaus hins vegar frekar að fara hjá Gjábakka og um Gjábakkastíg yfir Hrafnagjá. Þar voru mýkri götur og hægari undir fót.

Falleg var sýnin út yfir Þingvallavatn þegar þeir komu á Gjábakkastíg. Það heyrðist í himbrima og gullnir haustlitir Þingvallaskógar runnu saman við sólroðið fax hestana. Biskup var á jarpa klárnum sínum og fótviss var hann þarna í hraungötunni. Ekki spillti fyrir að um morguninn hafði hann látið leggja við hann nýjan beislisbúnað og um leið haft yfir orð úr Prédikaranum: “Hesturinn er hafður viðbúinn til orustu dagsins,” stóð þar, “en sigurinn er í hendi drottins.” Jón hafði alltaf lagt mikið upp úr vönduðum reiðtýgjum, fannst það hæfa virðingu embættisins.

Áfram héldu þeir Skógarkotsveg að Skógarkoti. Biskup dáðist að vandaðri grjóthleðslu í kringum túnið, en í þetta sinn máttu þeir ekki vera að því að heilsa upp á bóndan þar. Þeir riðu Hrauntúnsgötu hjá eyðibýlinu Hrauntúni, en síðan Réttargötu að Sleðaási. Þaðan var ekki langt að Víðivöllum.

Yfirleitt leið honum vel á hestbaki. Það var raunar í tilsjónarferðunum á sumrin, sem hann samdi sínar bestu stólræður. Postillan varð líka í stórum dráttum til á ferðalögum, þó að hún væri skrifuð heima í Skálholti. Hófaskellir, úfið landslag og beljandi jökulár meittluðu stílinn. Í skrifum sínum hafði hann fengið útrás fyrir reiðina, sem hafði gagntekið hann eftir að hann missti dætur sínar. Þetta og góðsemi Sigríðar höfðu bjargað sál hans frá kali.

Það stóð oft tæpt, sérstaklega þegar hann átti í sem mestum útistöðum við veraldlegt vald í landinu, einkum Odd lögmann Sigurðsson, þann oflátung. Þetta var viðsjárverð öld, græðgi og valdfíkn í fyrirrúmi. Það var ekki svo lítið, sem hann varð að leggja á sig til að útvega ráðsmenn, sem ekki svindluðu á viktinni þegar vörur voru teknar út eða lagðar inn. Hann vildi hafa viktina nákvæmlega samkvæmt taxta konungs. Einnig lagði hann upp úr því, að vel væri tekið á móti þeim sem komu til Skálholts. Hann þoldi ekki ofbeldi, hvort sem var í orði eða verki.

En hvað var þetta? Um leið og hann steig af baki hjá Sleðaási fékk hann heiftarlegt tak fyrir brjóstið og hann sá allt í móðu. Ef hann hefði ekki náð að styðja sig við kirkjuprestinn hefði hann dottið um koll. Hann settist á þúfu og smám saman hurfu flygsurnar frá augum hans.

Þeir áðu ekki lengi þarna við Sleðaás. Jón vildi komast til sæluhússins hjá Hallbjarnarvörðum áður en dimmdi um of. Þeir riðu um Hofmannaflöt og Kluftir og Tröllháls. Aftur var áð við Víðker. Sem snöggvast fannst Jóni, að hausttær öræfakyrrðin myndi létta af honum slæmskunni. Þetta hafði verið langur dagur og nú var stutt eftir að sæluhúsinu hjá Biskupsbrekku.

Hestarnir höfðu verið settir í haft. Það gat verið strok í þeim á fallandi grösum. Aðeins jarpi klárinn var óheftur. Á ferðalögum fór hann aldrei langt frá Jóni. Þeir voru vinir.

Hann hafði átt fleiri vini, ekki mjög marga en það voru góðir vinir. Einn vin hafði hann átt frá barnsaldri, en það var Jesú Kristur. Nú þarna undir Kvígindisfelli fannst honum Jesú sitja hjá sér. Hann vék raunar aldrei langt frá þeim, sem náðu að viðhalda barninu í sér og létu ekki vonsku heimsins yfirbuga sig. Jesú hafði kennt honum að trúa á Orðið og mátt þess, ekki bara háfleyg orð um eilífðina og himnaríki, heldur líka þau orð sem beindu þjóðinni inn á nýja braut, kenndu henni bætt verklag.

Um nóttina varð hann alvarlega veikur. Innst inni fann hann að hverju stefndi. Hann vissi að búið var að senda eftir Sigríði konu hans vestur að Stað, en myndi hún koma áður en hann skildi við. Hann hafði ekki svo miklar áhyggjur út af sjálfum sér, en hann var kvíðinn vegna konu sinnar. Henni hafði alltaf verið ílla við vöð á ám. Hvernig skyldi Hítará vera núna á vaðinu Undir bælinu og Langá á Sveðjuvaði? Og hvað yrði um hana þegar hans nyti ekki lengur við?

Þrír dagar liðu í sótthita og biðraun. Konan var ekki enn komin. Hann átti tal við Ólaf kirkjuprest, sem las yfir honum Guðs orð. Um dagmál 30. september sagði kirkjuprestur: “Mér líst svo herra, að þér munið ei lengi hér eftir þurfa að berjast við heiminn.”
“Því er gott að taka,” sagði Jón, “Ég á góða heimvon.” Svo bað hann kirkjuprest, að sjá til þess að farið væri með lík hans Skessubásaveg fyrir norðan Skjaldbreið og um Hellisskarð í Skálholt. “Þar er meira jafnlendi,” sagði hann, “ég er búinn að hossast nóg í þessu lífi.” Síðan gaf hann upp öndina, en konan náði ekki til hans í tæka tíð.

Úti fyrir leit jarpi klárinn upp frá svartbitnum haganum hjá Biskupsbrekku. Hann skimaði í átt til Skjaldbreiðar og niður vanga hans vætluðu tár.

Skrifuð á árunum 2001-2004