Stundum grátbað hún sjálfan sig um styrk til að geta rætt við hann um vandamálið, þegar hann var edrú. Hvað væri að. Hann sá það ekki sjálfur. Hann sá það aldrei og ekki einu sinni þegar hún öskraði á hann og sagði honum hvað hann væri að gera henni. Hvað hann hefði gert allri fjölskyldunni. Hún þorði aðeins þegar hann var fullur. Daginn eftir man hann ekkert. Enginn gerði neitt. Hún stóð ein og öll ábyrgðin lenti á henni. Eitthvað þurfti að gera, þetta gat ekki haldið svona áfram. Það hafa liðið svo mörg tómleg ár án nokkurra breytinga. Ekkert breytist ef enginn gerir neitt í sínum málum. Þetta var samt ekki bara hans mál, þessi fíkn. Þetta lenti á allri fjölskyldunni. Mömmu og okkur. Mamma hennar var of hrædd til að standa gegn honum, hún var háð honum. Öll þessi skipti sem hann hafði drukkið sig fullan, hvað hafði mamma hennar gert? Hún hlustaði á hann röfla um allskins hluti sem merktu ekkert. Hann vissi ekkert hvað hann var segja, en hún hlustaði á hann. Hún meira að segja trúði því þegar hann sagðist ætla að hætta. Þvílík lygi. Hún hafði heyrt þennan áður.

Utanlandsferð fyrir tveimur árum. Vika eymdarinnar, sorgarinnar, grátsins. Versta vika sem hún hafði upplifað. Hann drakk á hverjum degi og hætti aldrei. Hann borðaði lítið sem ekkert og svaf lítið. Hann röflaði í okkur og gekk með okkur um bæinn. Hann gat samt varla gengið. Augun hans voru full af tómleika. Þegar hún horfði á hann vildi hún aðeins slá hann utan undir, gráta og hlaupa í burtu. En hún lét sig hafa það, þetta var aðeins byrjunin. Vikan leið og lofaði okkur öllum að hætta. Hún var svo ung og stóð gegn þessum blindfulla manni og hótaði honum að hætta. Hún hellti niður brennivíninu hans og hann lofaði að hætta. Hann lofaði henni, af öllu hjarta. Öllu sínu drukkna hjarta. Auðvitað var engin meining á bakvið þetta loforð. En hún trúði honum. Í þetta skiptið. Strax þegar hann var kominn í flugvélina, hálfum sólarhring seinna byrjaði hann aftur að drekka og hún sat við hliðina á honum! Hún var of ung til að hafa kjark til að rífast við hann í þessari flugvél, fullu af fólki, sem vissi ekkert.

Heim var komið og hann hélt áfram að drekka um helgar. Á föstudögum lokaði hann sig af inni í stofu, sat í sófanum, horfði niður í gólfið og drakk allt kvöldið. Oft hafði hann lofað skemmtilegum ferðum á laugardeginum en ekkert varð úr þeim, hann var að ná sér eftir kvöldið áður. Ekki kom henni á óvart þegar hann byrjaði að drekka á laugardeginum líka. Öll helgin var ónýt. Allar helgar voru ónýtar því aldrei var friður fyrir þessum manni sem hún trúði ekki að væri skyldur henni. Hún þekkti hann ekkert. Hún hafði jú búið með honum í öll þessi ár, alveg frá fæðingu en einhvernveginn þekkti hún hann ekki. Þau töluðust lítið saman, það var eiginlega hann sem lokaði sig frá öllu umhverfi. Hann drekkti sér bara í sjálfsvorkunn. Einn og yfirgefinn.

Eitt föstudagskvöldið kom hún heim og hann var á sínum stað inni í stofu. Hún sá mömmu sína slíta sig frá fangi hans og labba í burtu. Hún var svo viðkvæm. Hann var fullur eins og vanalega. Hann röflaði um hluti sem enginn skildi og hún fékk nóg. Hún fór inn í stofu og lét hann hafa það. Reifst við hann um þetta, hve illa hann væri að fara með þau, sérstaklega hana. Hvað hann væri að gera þeim, hve sárt það væri að sjá hann í þessu ástandi. Hann lofaði öllu góðu eins og vanalega, hann ætlaði að hætta, hann ætlaði að fara hugsa um okkur. Þvílíkar lygar! Hún ætlaði ekki að gefa honum neitt tækifæri, hún hafði gefið honum tækifæri áður og það fór um þúfur. Hún var búin að fá nóg af þessum manni. Ósköpin enduðu með því að hún hljóp grátandi inn í herbergi. Grét hástöfum. Það hjálpaði henni enginn, enginn þorði að standa með henni. Enginn í fjölskyldunni vildi viðurkenna að þetta væri vandamál! Þetta er stórvandamál sem enginn getur leyst. Hvað er hægt að gera, hvað getur hún gert? Þessi varnarlausa sál sem vildi aðeins gott uppeldi. Hún hefur aldrei getað treyst foreldrum sínum, þessum ömurlegu sálum sem ekkert skilja og ekkert vita. Móðir hennar hefur ekki kjark til að vernda sín eigin börn. Faðirinn sem hugsar aðeins um sjálfan sig og engan annan. Enginn utan fjölskyldunnar veit neitt því það er bannað. Enginn má segja frá. Ekkert er hægt að gera því enginn veit neitt. Ekki einu sinni hann, sem skapaði vandamálið. Hann skilur ekki að þetta sé vandamál. Hann telur þetta aðeins sem létta uppliftingu fyrir kvöldið, hann skilur ekki hvað hann hefur gert þeim öllum.

Hún óskar um kjark til að ræða við hann þegar hann er edrú. Dagarnir líða og ekkert gerist, ekkert breytist…