Þetta er smásaga sem ég gerði fyrir löngu fyrir skólann. Ég fann hana í tölvunni, fínpússaði hana og sendi hingað inn að gamni:


Corolla

Nýlega heyrði ég sagt frá atburðum sem minna mig óþyrmilega á gamalt ævintýri. Þannig er að fjölskyldan í næsta húsi týndi bílnum sínum. Þeim þótti mjög vænt um hann, enda var hann óvenjulegur. Þetta var stór og flottur Toyota bíll: Corolla hét hann. En hjónin fóru og leituðu að honum en fundu hann hvergi. Þess vegna sendu þau son sinn á mótorhjóli til þess að leita að bílnum. Sonur þeirra, 17 ára unglingspiltur, átti ekki von á þessu, en samt sem áður hlýddi hann foreldrum sínum. Reyndar þorði hann ekki annað því foreldrarnir höfðu verið mjög ákveðnir: “Við viljum ekki sjá þig aftur fyrr en þú ert búinn að finna Corollu”, höfðu þau sagt.
Strákurinn hélt af stað með magnara fastan aftan á mótorhjólinu og míkrófón bundinn við. Þegar hann hafði keyrt um stund kom hann við á bensínstöð og fékk sér kók og pulsu. Hann kallaði svo í míkrófóninn:
“Flautaðu nú Corolla mín ef þú ert nokkurs staðar í gangi!”
Hann heyrði nú dauft flaut langt í fjarska og hélt áfram ferðinni í átt að því.
Ók hann nú tímunum saman uns hungrið fór að sverfa að honum. Var hann þá staddur nærri McDonaldsstað, svo hann ákvað að fá sér einn hamborgara og taka annan með sér til þess að borða seinna í ferðinni. Að því búnu kallaði hann aftur í míkrófóninn: “Flautaðu nú Corolla mín ef þú ert nokkurs staðar í gangi.”
Þá heyrði hann kunnuglega flautið aðeins nær. Geystist hann nú áfram allt hvað af tók í átt að flautinu.
Þegar svengdin fór að gera vart við sig á ný, nam hann staðar, gæddi sér á hinum hamborgaranum og kallaði síðan á Corollu: “Flautaðu nú Corolla mín ef þú ert nokkurs staðar í gangi.”
Heyrði hann nú flautið skammt frá, og er hann fór að litast um rak hann augun í bílaverkstæðið Bílahellinn. Fyrir utan verkstæðið voru margir bílar, og sér til furðu sá strákurinn að einn af þeim var Corolla.
Hann gægðist inn fyrir verkstæðisdyrnar og sá þar tvo skuggalega menn að ræða saman: “Lakkaðu Toyotabílinn, skiptu um númer og sjáðu til þess að hann líti út eins og nýr.”
Nú voru góð ráð dýr. Skellti nú strákur mótohjólinu í skott bílsins, settist undir stýri og ók af stað. Að nokkrum tíma liðnum sá hann að tveir bílar voru á eftir honum: kraftmikill risajeppi og lítill kappakstursbíll.
“Hvað eigum við nú að taka til bragðs, Corolla mín?” spurði strákurinn.
“Taktu hár úr skotti mínu og leggðu það á jörðina,” sagði Corolla.
Strákurinn fór að ráðum Corollu.
“Legg ég á og mæli um að hárið verði að svo stóru fljóti að enginn komist yfir nema flugvélin fljúgandi”, sagði Corolla. Og það varð sem Corolla sagði. Glaður í bragði stökk strákurinn inn í ráðagóða bílinn sinn og keyrði af stað eins hratt og Corolla mögulega komst.
Verkstæðismennirnir komu nú að ánni og brá illilega í brún. Maðurinn í jeppanum sagði við manninn í kappakstursbílnum:
“Náðu í dælubílinn hans föður míns.”
”Skal gert foringi,” svaraði hinn maðurinn um leið og hann hvarf á brott í rykmekki. Nokkru síðar kom hann aftur keyrandi á dælubílnum.
“Dældu núna vatninu upp,” rumdi í jeppatröllinu. Á örskammri stundu hvarf fljótið inn í dælubílinn.

“Hvað eigum við nú að taka til bragðs, Corolla mín?”spurði strákurinn.
“Taktu hár úr skotti mínu og leggðu það á jörðina,” sagði Corolla djúpri röddu. Strákurinn fann hár í skottinu og lagði það á jörðina.
“Legg ég á og mæli um að hárið verði að svo miklum eldi að enginn komist yfir nema geimflaugar og gervitungl”. Og hárið varð að risastóru báli.
Strákurinn hljóp inn í bílinn og ók af stað.

“Láttu nú dæluna ganga,” skipaði maðurinn í jeppanum þegar þeir komu að bálinu. Vatnið flæddi út og eldurinn slokknaði á augabragði.
Stuttu síðar tók söguhetja okkar eftir því að skúrkarnir voru enn á hælum þeirra.
“Hvað eigum við nú að taka til bragðs?” spurði hann Corollu.
“Taktu hár úr skott…
“Ég kann framhaldið,” greip strákurinn fram í, flýtti sér út úr bílnum, fann hár í skottinu og lagði það á jörðina.
“Legg ég á og mæli ég um að hárið verði að svo háu fjalli að enginn komist yfir nema flugvélin fljúgandi.”
Í einu vetfangi reis ógnarstórt fjall upp úr jörðinni og hindraði för glæpamannanna.

“Látum okkur nú sjá…” sagði skúrkurinn á jeppanum. “Aktu heim og náðu í dínamítið hans pabba.”
“Skal gert, “ svaraði hinn og sneri við. Eftir örskamma stund kom hann aftur æðandi á kappakstursbílnum með dínamítið í fanginu.
“Jæja, sprengdu nú göng inn í fjallið,” sagði jeppaskúrkurinn og glotti.
Hinn náunginn tók sprengju út úr bílnum og setti hana við fjallið. Svo kom hann hlaupandi til félaga síns og öskraði:
“Haltu fyrir eyrun!” Þá sprakk sprengjan með svakalegum hávaða og karlinn á jeppanum hló illkvittnislegum tröllahlátri. Og tímunum saman skemmtu þeir sér við að sprengja sér göng lengra og lengra gegnum fjallið. Sprengignýrinn og öskrin endurómuðu um alla sveitina.
Þegar þeir voru komnir í gengum fjallið blasti við þeim óvænt sjón:
Víkingasveit lögreglunnar, náttúruverndarsinnar, fréttamenn og forvitnir vegfarendur höfðu safnast saman við opið.
Víkingasveitin var með byssur á lofti og hrópaði einum rómi:
“Gefist upp skemmdarvargar. Þetta eru náttúruspjöll!”

En eftir því sem mér var sagt komst söguhetja okkar heilu og höldnu heim með Corollu sína, og urðu karl og kerling því ósköp fegin.