17032001

Halló heimur.

Þetta er fyrsta bréf mitt til þín og í ljósi þess að ég hyggst
halda áfram að senda þér bréf er þetta líklega rétti tíminn til
þess að við kynnumst aðeins betur, og vá, kominn tími til.

Ég er 18 ára strákur, verð 19 ára nú í mars, ég er grannur og
hávaxinn, svolítið slánalegur en það er allt í lagi, ég er í raun of
léttur, þarf að gera eitthvað í því, reyndar byrjaði ég að gera
eitthvað í því um daginn, ég og félagi minn sem er í svipuðum
hugleiðingum byrjuðum að æfa í líkamsræktarsal og þetta
gekk vel í fyrstu, en í ljósi þess að við erum kannske ekki
ábyrgðarfullstu gaurar í heimi og einnig vegna anna, ætletta
sé ekki afsökun, hættum við…geri ráð fyrir að ég byrji aftur
bráðlega samt. Vona ég réttara sagt.

Þú um að draga ályktanir um hvernig ég er sem persóna.

Ég fór og kaus áðan, ég og félagi minn vorum á Subway að fá
okkur að éta og bróðir minn, sem hefur hag af flugvellinum
hringdi í mig og spurði mig hvað ég ætlaði að kjósa. Ég er
búinn að kynna mér málið út frá eigin forsendum og var búinn
að mynda mér þá skoðun að skila auðu vegna þess að ég gat
ekki gert upp hug minn þar eð er að bæði það að hafa völlinn
og hafa hann ekki hafa ótvíræða kosti, ég sagði honum mín
rök fyrir ákvörðun minni og hann var ekki sammála. Hann
ræddi við mig um málið í hálftíma þangað til að ég loksins
sagði honum að ég skyldi kjósa fara að hans ráðum, en hann
skyldi ekki biðja mig um það aftur. Mér fyndist það nógu
ámælisvert að kjósa á móti eigin samvisku í sínum fyrstu
kosningum, lofar ekki góðu. Hann sættist og ég fór að kjósa,
og auðvitað skilaði ég auðu, en hann heldur annað. Hann
verður ekki sáttur ef hann kemst að þessu.

En núna er ég að pæla í að fara í sund, langar að liggja í
pottinum í smá tíma og hlusta á gömlu kallana röfla. Úff, það
er nett notalegt. Þarf líka hvort eð er að þvo á mér hausinn,
það er eitthvað mall í hárinu eftir ballið í fyrradag sem ég er
ekki búinn að ná úr.

Vertu sæll í bili.

p.s. Heimur, hvað gerir þú í frístundum þínum?
Hvað er þetta Undirskrift pósta?