Einusinni átti ég vini. Þeir voru bræður og hétu Ísmael Sören og Elías Jörgen. Og svo einn í viðbót sem hét Christian Ægir. En ég… ég heiti bara Úlfur. Ekkert meira. Nema náttúrulega Aðalsteinsson. Annars bara Úlfur.
Hver dagur byrjar eins. Maður vaknar. Skyndilega slokknar á draumavélinni, þú opnar augun, og fyrr en varir ertu búinn að stimpla þig inní hversdagsgráma veraldarinnar. Vaknaður. Tilbúinn. Skapaður tilað stjórna heiminum.
En stundum missir maður tökin. Það getur verið erfitt að rúlla heiminum um möndul sinn tuttuguogfjóra tíma á sólarhring, þrjúhundruðsextíuogfimm daga á ári. Annað slagið missir maður nokkra hringi úr, og himnarnir hrynja. Veröldin fellur saman einsog blaðra sem er við það að verða loftlaus. Úr rústunum rjúka svo niðurbrotnar sálir og fallnar stjörnur. Og það er mér að kenna. Það getur sviðið. Og það ansi sárt.
Þetta byrjaði auðvitað með því að ég vaknaði. Þannig byrjar, jú, allt. Ég hataði daginn einsog venjulega, og dagurinn hataði mig. Þetta var semsagt nákvæmlega samkvæmt uppskriftinni. Og einsog stendur skrifað í bókinni góðu (Örlögunum, hinum æðstu lögum) fór ég á fætur, burstaði rammskakkar tennurnar og skóflaði í mig heilum banana. Síðan fór ég. Útum dyrnar, útá götu, yfir grasvöllinn og uppí strætó. Man ekki eftir því að hafa nokkurntíman þurft að bíða eftir strætó síðan ég flutti hingað. Það er einsog han bíði spenntur eftir mér á hverjum morgni og skrölti ekki af stað fyrren ég er stiginn um borð. Og það geri ég. Stíg um borð, meina ég. Sest í mitt sæti, annað sæti frá glugganum hægra megin í öftustu röð. Hérna hef ég ævinlega setið, frá minni fyrstu strætóferð, með leikskólanum þegar ég var barar trítill. En nú er ég stór, og það svo stór að glerið sem á að drepa mig ef strætisvagninn lendir í árekstri truflar hnén á mér og kemur í veg fyrir að fæturnir vaxi meira. Sem er kannski eins gott, þarsem þessi himnastrá eru alveg sæmilega löng, og gera mér nógu erfitt fyrir nú þegar. Hver ætlast til þess að maður sem er einnáttatíuogsex á hæð og fimmtíuogátta kíló finni á sig buxur sem passa? Stundum vildi ég óska þess að ég væri lítill, feitur og sköllóttur, miðaldra maður. Það eru þó til fitubollubúðir.
Og mitt í mínum óstöðvandi hugrenningum um óréttlæti mannkyns, gekk hún inn og settist á móti mér. Hún var einsog hunang. Hunangslit húð, hunangslitt hár, hunangslituð augu… og meiraðsegja örlar af hunangsilmi í dísætu brosi hennar. Hún var sennilega týpan sem brosti til allra, og líka, jafnvel sérstaklega, til okkar aumingjanna. Ég gerði mitt besta tilað setja upp svip einsog ég væri hamingjusamur ungur maður á leiðinni í mikilvægu vinnuna mína. Svo hún héldi nú ekki að ég væri eitthvað… sérstakur. Og hún virtist ekki sjá í gegnum mig. Alveg einsog í öllum fallegum ástarsögum settist hún við hliðiná mér og sagði: ,,Hæ.Vorum við ekki saman á leikskóla?”
Það kom reyndar í ljós að við vorum aldrei saman á leikskóla. Og við höfðum aldrei sést áður. Og þveröfugt við allar fallegar ástarsögur endar þessi ekki vel.
Og þessvegna er ég hér, Úlfur, bara Úlfur, og má muna minn fífil fegri. Ég sit við rúmið hennar og grenja í fingurna á mér. Á milli þessara sömu fingra og eitt sinn renndu í gegnum silkilíkt hár hennar, renna þau nú, sölt og blaut tárin. Það er ágætt að grenja smá annað slagið. Sérstaklega á sjúkrahúsum. Andrúmsloftið er einhvernveginn þannig að það er í lagi. Enginn sér mann eða heyrir í manni, og jafnvel þótt einhver komi auga á mann þarna í myrkrinu skiptir það engu máli. Á sjúkrahúsum er nefninlega önnurhver manneskja að deyja, og dauðanum fylgir grátur. Það er allavega mín tilfinning, núna eftir átján ára siðferðiskennslustund á þessari guðsvoluðu jörð. Átján endalaus ár, sem í minningunni eru einsog heil eilífð. Og eru í raun heil eilífð. Mín eilífð. Mín tilgangslausa eilífð.
Og af völdum einhverra æðri máttarvalda rennur mér skyndilega í koll heimspekitími í tíunda bekk.
Kennarinn bablaði.
Ég svaf.
Kennarinn bablaði hærra.
Ég vaknaði.
Kennarinn bablaði svo mikið að mig fór að klæja í hljóðhimnuna. ,,Hvernig er það, áttu ekki að vera að kenna okkur tilgang lífsins eða eitthvað?” hreytti ég í hann, hundpirraður á allri afskiptaseminni.
,,Viltu fá að vita tilgang lífsins, Úlfur?”
Ég kinkaði kolli ánþessað taka vonnabí-grimmúðlegt augnaráðið af hans hnausþykku augabrúnum og stórgerða nefi.
,,Ég efast um að hann sé nokkur. Mín kenning er sú að lífið sé í rauninni vitatilgangslaust. En það er nú samt ekkert sem bannar okkur að lifa því.” Og nú, einmitt hér og nú, sitjandi við rúm hunangsins míns, grenjandi úr mér sjónina, skil ég að þarna hafði Egill erkifífl, titlaður heimspekikennari, hitt naglann á stálhart höfuðið. Ég skil það loksins, og finnst einsog hann hafði á einhvern hátt séð fyrir þessa stund mína hér við rúmið hennar, og sagt þetta tilað hughreysta mig. Í framtíðinni. Nútíðinni.
En það er sjálfsagt eintóm ímyndun.
En Egill hafði rétt fyrir sér. Þetta er alltsaman tilgangslaust. Tilvera mín er jafn gagnslaus og óþörf og líf einhverrar hálfdauðrar býflugu í yfirfullu býflugnabúi á neðstu grein aspartrés í Noregi. Það er enginn tilgangur með þessu vesæla lífi sem ég lifi, og einmitt þessvegna ber mér að lifa því í botn. Ég get nefninlega fyllt það af öllu öðru en tilgangi. Ég get lifað í botn og á fúll blast ánþessað afa áhyggjur af einhverri helvítis meiningu með þessu öllu, og hvort það sé nokkuð líf eftir dauðann. Því tilhvers að eiga vísan stað og líf á himnum? Líf eftir dauðann er náttúrulega jafn vitavonlaust og líf fyrir dauðann. Og engin ástæða tilað framlengja tilgangsleysið.
En það er nú samt andskoti gaman að vera til.
Og ég veit að ég er snillingur.
Undrabarn…

Heimurinn er bara of heimskur tilað uppgötva mig.