“Vakna, vakna…sef bara aðeins lengur…7:41…andskotinn, þarf að klæða mig áður en skrímslið kemur með hávaðann og fer svo stolt aftur fram, sannfærandi alla um að það hafi vakið mig…

Sest bara upp og horfi fram fyrir mig í myrkrinu. Stjörf, vil ekki fara fram úr strax, viðbjóðslegur kuldinn kemur bítandi í mig ef ég fer undan sænginni. En þá kemur skrímslið, kveikir ljósið svo að ég hendi sænginni yfir hausinn á mér.

”Þú átt að vakna!!“

”Drullastu út, ég er vakandi!!“

Ég blokka út nöldrið í því því ég er of syfjuð til að hlusta á eitthvað svona rugl…svo skellir það hurðinni á eftir sér þegar það fattaði loks að ég var ekki að hlusta.

Klæði mig í fötin, og geri mig bara afskaplega fína fyrir svona venjulegan skóladag, og skunda svo í skólann án þess að fá mér morgunmat…enginn tími til þess.

Djöf…stærðfræði í fyrsta tíma, blokka bara líka út ruglið í kennaranum. Allt of þreytt til að nenna að hlusta á svona vitleysu, jafnvel þótt ég verði að læra þetta. Læri það bara seinna.

Eftir frímínútur fer ég í íslenskutíma…forfallakennari þar. Aldrei séð mig í mínu rétta formi áður og fær létt sjokk þegar hún sér mig. Heilsa bara og brosi og bæti aðeins á hryllinginn í svipnum á henni. Elska að sjá fólk svona…lít svo bara á vinkonur mínar og glotti.

Stíg inn í stofuna og hún fylgir mér eftir með augunum…byrjar svo að kenna þegar allir eru komnir með þessari hryllilegu drafandi röddu svo að ég verð bara syfjuð aftur…og ég sem hafði komist í svo gott skap í frímínútunum.

zzzzzzZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZZzzzzzzzzzzzzzzzzzzzzz ZZZZZZZZZZZZZZZ

”Þú stelpa!“ Segir hún allt í einu svo að ég hrekk við. Furða mig á því af hverju hún kallaði mig bara ”stelpa“ þar sem hún virtist hafa munað nöfn allra annarra án vandræða.

”Ég?“ Segi ég og hún verður svolítið ergileg.

”Já þú!“ Segir hún hranalega svo að ég verð bara algerlega forviða. Hún hataði mig þá eftir að hafa séð mig einu sinni. Gerist oft. Ekki oft sem að fólk sér manneskju eins og mig úti á götu…hvað þá í kennslustofu. ”Hefur þú engann áhuga á námsefninu?“

Ég horfi ákveðin á hana og svara einfaldlega: ”Neibb.“

Þarna virtist ég hafa hitt naglann á höfuðið því nú virtist hún orðin viss um að ég væri ekkert nema vandræðaunglingur sem ætti í rauninni ekki heima í heilögu kennslustofunni. Hún leit einu sinni enn á mig með svona: ekkert-mun-rætast-úr-þér svip og hélt áfram að kenna jafnvel þótt allir í stofunni voru farnir að hata hana og voru eins kaldhæðnislegir og hægt var.”

Fyrsta smásagan mín. Ekkert smá löng. En mér er alveg sama. Segið oss nú hvernig yður fannst þetta.

Og þeim sem finnst hún léleg: Mér er alveg sama um hvað ykkur finnst. Þeim sem finnst hún góð: Takk, þið eruð yndisleg. Og þeim sem leiddist einfaldlega lesturinn og hættu í miðri sögu: ÉG VORKENNI YKKUR EKKI NEITT!! múhaha.