Milli Svefns Og Vöku

Ég ligg í rúmi mínu og heyri mig hrjóta. Ég ligg sofandi í fjólubláa herberginu mínu og kristalskúla hringsnýst í allri sinni litadýrð í herberginu. Það er eins og ég sé milli svefns og vöku. Það hlýtur að vera því að mér finnst ég svo meðvitaður um það sem er að gerast í kringum mig og ég heyri og skynja svo sterkt. Mér finnst eins og það standi einhver við hlið mér, einhver hávaxin vera, eitthvað ljós sem skín svo skært - bláum orkugeislum sem mér finnst vernda mig.

En í næstu andrá heyri ég mig spyrja spurningar í miðju höfði mínu, mér finnst eins og ég liggi ofan í kistu, líkkistu.

Ég spyr: “Hvað ber að höndum?”

Eftir stutta stund kemur svar. Það er eins og það komi frá heiladinglinum í miðju höfði mínu. Mér finnst ég skynja staðsetninguna vegna einbeitingar minnar sem ég skynja að er mjög skörp. Ég stari líka á einn ákveðinn punkt, frá miðjunni í höfði mínu en eins og í gegnum göng, í gegnum mitt ennið á mér á milli augnanna.

Þá heyrist: “Það sem enginn sér enn verður að veruleika, fyrr en síðar!
Því að þú munt koma sjálfur og vitja þess. Það skýrist hægt og rólega.”

Það hríslast um líkama minn spenna og eftirvænting um leið og ég heyri að ég er spurður:

“Viltu verða það sem þú þráir?”

Í kjölfarið heyrist hljóma djúpri röddu í vitund minni:

“Þú munt verða kjörmaður okkar með því að láta ljós þitt skína, því kyrrahaf þitt mun lýsa skært.
Komdu oftar og kíktu í kotið þitt og leyfðu mér að segja þér fleiri sögur. Tilkynntu brottför þína og komdu til strandar, sólar og nýs hafs.
Leyfðu draumum að flæða uppá yfirborðið eins og áðan í vitund þinni, þar sem þú upplifðir endurfæðingu þína, nýtt karma, nýtt upphaf. Leyfðu öllu að skýrast í höfði þínu og hjarta og þú munt upplýsast um hlutverk þitt - því að X ert þú og þú ert X.
Hið æðra sjálf hefur sameinast þér og þú verður meðvitaður því betur, smátt og smátt, hægt og rólega.
Veldu það fyrsta og veltu hlutunum ekki of mikið fyrir þér. Veldu það fyrsta því þar er sannleikann að finna en leyfðu þér að anda á milli athafna og hugsana til að halda kyrru fyrir í huganum. Því að óskýrt mál er ekkert mál - óskýr hugmynd er óséð hugmynd.”

Að lokum heyri ég; “Mundu að þú ert kjörmaður sjálfs þíns og að þú verður sjálfur að halda hjörð þinni til haga. Þú getur spurt bóndann á næsta leyti. En ”hafðu engar áhyggjur“ skulu vera lokaorð mín til þín að sinni.”

“Kær kveðja, ég sjálfur”

…setningin bergmálast í síendurtekningu eins og það sé vifta sem fer hring eftir hring í vitund minni um leið og ég hrekk upp kófsveittur.