“Newt: My mommy always said there were no monsters - no real ones - but there are.
Ripley: Yes there are, aren't there?
Newt: Why do they tell little kids that?
Ripley: Most of the time its true…”

—————————————— ———–

,,Mamma þín, mamma þín!!” öskraði Hilmir, stóð á fætur og dansaði stríðsdans kringum skrifborðsstólinn sinn. Á tölvuskjánum voru miklar sprengingar og greinilega eitthvað mikið í gangi. Eftir að hafa breikað smá um herbergið dansaði hann í áttina að tölvunni og settist aftur niður. Hann brosti svo mikið að hann verkjaði í framan. ,,Djöfulsis snilld,” sagði hann lágt og lokaði tölvuleiknum. Hann opnaði MSN, loggaði sig inn og athugaði hvort að Siggi væri online. Hann opnaði gluggann og byrjaði að pikka eins og hann ætti lífið að leysa.

Da Hilmster: ,,Ég vann leikinn. Ég fokkings vann leikinn”
Logan: ,,Vannstu? Con grats maður! Hvernig endaði hann?”
Da Hilmster: ,,Þú veist, þetta venjulega; erfiður endakall sem vildi ekki drepast og svo þurfti ég að flýja borgina á tveim mínútum eftir að ég vann hann. Ég sprengdi upp alla L.A. maður! Þetta var geðveikt, það fylltist allt af eldi og sprengingum!”
Logan: ,,Snilld! Ég þarf að fá að sjá þetta hjá þér.”
Da Hilmster: ,,Jebbz. Herru, ég er farinn. Ætla að fá mér eitthvað að éta. Bleble”
Logan: ,,Ok, bæbæ.”

Hilmir slökkti á tölvunni og hljóp niður í eldhús. Hann kveikti á samlokugrillinu, fann til ost, skinku og bjó sér til kakómalt. Hin fullkomna máltíð, einföld og góð. Og það var alveg sama hversu mikið hann borðaði, hann fékk aldrei leið á þessu. Hann sat við eldhúsborðið og var að skófla í sig þriðju samlokunni þegar mamma hans kom labbandi niður stigann.
,,Hilmir, ertu ennþá vakandi? Klukkan er að verða þrjú,” sagði hún og geispaði.
,,Fyrirgefðu mamma, ég var bara að klára leikinn. Vakti ég ykkur?”
,,Ja, þú varst hálföskrandi inní herbergi hjá þér, þannig að ég myndi ekki neita því,” sagði Sunna og brosti útí annað. Hún var þreytt, en hún vissi að þegar Hilmir var að spila í tölvunni vissi hann hvorki í þennan heim né annan. Hann gjörsamlega sökkti sér í leikinn. Hann hafði verið svona frá því að þau gáfu honum Nintendo tölvuna þegar hann var 5 ára. Afhverju hún og Stefán höfðu ákveðið að gefa fimm ára gömlu barninu tölvu var hún löngu búin að gleyma, en Hilmir litli sökkti sér ofan í leikinn og sat stjarfur fyrir framan sjónvarpið klukkutímum saman. Þegar hann fermdist fékk hann tölvu og þegar hann varð 17 ára fór hann að vinna og keypti sér betri tölvu. Nú var sú talva orðin tveggja ára gömul og Hilmir farinn að renna hýru auga til þess að kaupa sér nýja græju fyrir sumarið.
,,Er ekki skóli á morgun?” spurði hún og settist á móti honum.
,,Jú, ég er alveg að fara að sofa sko, ætlaði bara að fá mér smá að borða fyrst,” sagði hann með fullan munninn og reyndi að brosa. Það gekk ekki betur en svo að kakómalt byrjaði að leka niður á bolinn hans. Sunna stóð á fætur og náði í eldhúsbréf. ,,Hérna,” sagði hún og rétti honum tvö. ,,Ég ætla að koma mér aftur upp. Gakktu frá öllu og ekki hafa hátt þegar þú ferð upp. Pabbi þinn þarf að vakna eldsnemma í fyrramálið, hann er að fara í skytterí með strákunum og þú ert þegar búinn að vekja hann einu sinni,” sagði hún og ruglaði hárinu á honum þegar hún gekk framhjá. ,,Góða nótt,” hvíslaði hún og fór upp stigann.
,,Góða nótt,” hvíslaði hann á móti.

Hann veit ekki hvar hann er. Það er nótt og það er kalt. Hann lítur í kringum sig. Hann stendur við gangbraut og alls staðar í kringum hann eru einbýlishús. Hinu megin við götuna er stór bygging. Hann labbar yfir götuna og í átt að byggingunni. Hann kannast við hana, en kemur henni samt ekki fyrir sig. Allt í einu heyrir hann hljóð einhvers staðar í fjarlægð. Var þetta öskur? Hann byrjar að labba hraðar og hleypur loks í áttina að byggingunni. Fyrir framan útidyrahurðina eru tröppur. Hann hleypur upp að hurðinni.
Hún er ólæst.
Öll ljós eru slökkt.
Hann fer inn og lokar á eftir sér. Hann lítur í kring um sig og sér að hann stendur á löngum gangi. Innar á ganginum liggur eitthvað á gólfinu. Einhver hrúga. Hann gengur hægt að henni. Eftir því sem hann nálgast sér hann að þetta er manneskja.
Kona.
Hún hreyfir sig ekki.
Hann fer nær. Hann sér að hún heldur á skambyssu í annari höndinni.
Hann labbar hægt að henni. Spyr hvort það sé allt í lagi.
Ekkert svar.
Hann er kominn alveg að henni. Hann teygir aðra löppina hægt fram og ýtir laust við henni. Um leið og hann kemur við hana birtist byssan í hægri hönd hans. Honum bregður og bakkar örlítið. Hvað er eiginlega að ske hérna?
Hann skoðar byssuna. Þetta er skammbyssa. Svona eins og er alltaf í bíómyndunum. Silfruð með svörtu skafti.
Hann lítur upp og sér að konan er horfin. Hann skimar í kringum sig. Hún er hvergi sjáanleg. Hann byrjar að labba af stað með byssuna. Húsið er fullt af merktum herbergjum. Hann prófar að kalla, en fær ekkert svar.
*brak*
Hann stoppar.
Hvað var þetta? Hann er ekki einn í byggingunni.
Hljóðið heyrist aftur. Hærra en síðast. Það er eitthvað að koma.
Allt í einu kemur dýr hlaupandi fyrir hornið á hinum enda gangsins. Í fyrstu trúir hann ekki því sem hann sér. Dýrið lítur út eins og risastór könguló. Það hefur engan haus, augun og kjafturinn eru ofarlega á kringlóttum búknum. Það er feitt og dökkbrúnt á litinn. Lappirnar eru breiðar, langar og gular og enda í beittum oddi. Það er um einn og hálfur metri á hæð.
Það sér hann og snarstoppar. Horfir á hann augnablik, blikkar litlum svörtum augunum. Svo rís það upp á afturlappirnar og prjónar, eins og hestur. Það öskrar hátt. Hann grípur fyrir eyrun og reynir að heyra ekki, en hljóðið er svo skerandi að það er ekki hægt. Dýrið lendir með dynk aftur á gólfinu og hreyfir kjaftinn. Svartar varir og tennur koma í ljós.
Svo hleypur það.
Og það hleypur hratt!
Hann veit ekki hvort það eru skot í byssunni eða ekki. Hann tekur eins fast um skaftið og hann getur og skýtur. Dýrið hægir smá á sér, grænn vökvi streymir út þar sem kúlan lenti, en það heldur samt áfram. Hann skýtur aftur. Og aftur. Og aftur! Það virkar ekkert. Það er að koma og það er ekkert sem hann getur gert til þess að stoppa það…

Hilmir vaknaði við vekjaraklukkuna. Hann var kófsveittur og lamaður af hræðslu. Þetta hafði verið svo raunverulegt. Kuldinn, byssan… dýrið.
Hann náði einhvern veginn að setjast upp og starði fram fyrir sig.
,,Djöfulsis helvíti,” tautaði hann og nuddaði augun. Hann stóð hægt á fætur og fór í sturtu. Hann var ennþá stjarfur þegar hann kom niður í morgunmat.
,,Er ekki allt í lagi?” spurði Sunna þegar hún sá að Hilmir hafði ekki snert við morgunmatnum.
,,Ha? Jú.” Það var eins og hann væri einhvers staðar allt annars staðar. ,,Fékk bara martröð í nótt. Er ennþá að jafna mig.” Hann gerði heiðarlega tilraun til þess að byrja að borða, en hætti svo við. Hann hafði enga list.
,,Já svona er þetta þegar maður lifir og deyr í þessum tölvuleikjum Hilmir minn. Þú mátt nú alveg búast við einni og einni martröð ef þú eyðir öllum frítímanum í að berjast við einhver skrýmsli og bófa.” Hún fékk sér ristað brauð og beit svöng í það.
,,Og ef þú ert að borða svona rétt fyrir svefninn hjálpar það auðvitað heldur ekkert til.”

Hilmir settist aftast við hliðina á Sigga. Stærðfræði í fyrstu tveim. Ef þeir sætu aftast gætu þeir talað eins og þeir vildu. Eftir að Hilmir hafði sagt Sigga frá draumnum horfði Siggi á hann í smá stund og sagði svo alvarlegur: ,,Ungi maður, þú ert ekki heill á geði.” Svo sprakk hann.
Finnur stærðfræðikennari sneri sér leiftursnöggt við. ,,Er ekki allt í lagi þarna aftast?” spurði hann reiður.
,,Jú, jú. Allt í þessu fína,” sagði Siggi glottandi. Eftir að Finnur hafði snúið sér aftur að töflunni sneri Siggi sér að Hilmi. ,,Og varstu sem sagt hræddur þegar þú vaknaðir?”
,,Já,” hreytti Hilmir út á milli samanbitinna tanna. Honum fannst ekki sniðugt að láta gera grín að sér.
,,Svona, svona. Óþarfi að taka þetta eitthvað nærri sér,” sagði Siggi og reyndi að fela glottið. Hann þóttist hósta og laumaði orðinu ,,kelling” inní hóstann. Hilmir sló fast í öxlina á honum. ,,En þú segir sem sagt að þú hafir fengið byssuna þegar þú komst við dauðu konuna?” sagði Siggi og nuddaði auma öxlina. Hilmir kinkaði kolli. ,,Svona eins og í tölvuleikjum, þegar þú labbar að einhverjum dauðum þá færðu vopnið hans?” Hilmir hugsaði sig um í smá stund og kinkaði svo kolli aftur. ,,Og svo berstu við köngulóar-skrýmsli?”
,,Já, Sigurður!” svaraði Hilmir pirraður.
Siggi horfði á hann í smá stund. ,,Kúl!”
Svo glotti hann.

Dýrið er að koma. Það öskrar. Það hleypur. Varirnar dregnar aftur í öskrinu og tennurnar glansa. Þær eru eins og rakvélarblöð.
Hann skýtur aftur og hittir í annað augað á því. Dýrið gefur frá sér sársaukavein og dettur fram fyrir sig. Það skellur utan í vegginn, rúllar örlítið áfram á gólfinu áður en það stoppast. Í fallinu brotna tvær lappir. Dökkrauður vökvi lekur úr brotnu löppunum. Það öskar og orgar og reynir að standa á fætur, en getur það ekki. Það spriklar með hinar sex lappirnar í allar áttir og þykkur vökvinn spýtist úr brotunum.
Hann færir sig nær því og miðar byssunni á það. Það er eins og dýrið sé að reyna að segja eitthvað, varirnar hreyfast, en það eina sem kemur út eru hroðaleg öskur. Hann skelfur af hræðslu, miðar byssunni í síðasta sinn og tekur í gikkinn.
Það er eins og dýrið skilji hvað er að fara að gerast, vegna þess að það hættir að öskra.
Skotið fer beint á milli augna dýrsins. Það hættir að hreyfa sig og dettur útaf. Kjafturinn opnast og eitthvað svart (tunga?) lekur út á milli beittra tannanna.
Hann bíður í smá stund áður en hann lækkar byssuna aftur niður. Hann sest upp við gangvegginn smá spöl frá dýrinu og leggur byssuna á milli fóta sér. Hann leggur höfuðið á milli hnjánna og einbeitir sér að því reyna að hægja á önduninni og róa sig niður. Einbeitir sér að því að hugsa skynsamlega. Hann verður að komast út. Hann getur ekki verið hérna inni lengur.
Allt í einu heyrir hann öskur.
Þau eru fleiri!

,,You have 1 new message in your Hotmail inbox” skaust uppá skjáinn þegar Hilmir kveikti á tölvunni. Það var enginn online. Klukkan var 4 að morgni til og það var ekki séns að hann ætlaði að fara að sofa aftur. Ekki eftir þessa martröð. Hann læddist niður, náði sér í kók, klaka og glas og læddist svo aftur upp. Hann kom sér aftur fyrir fyrir framan tölvuna og fékk sér sopa. Hann hafði hrokkið upp við flugelda sem einhverjir snillingar höfðu greinilega ákveðið að geyma þar til löngu eftir þrettándann.
Ekki það að hann væri að kvarta. Hann vildi ekki lengur vera fastur í draumnum. Vildi ekki vera fastur hjá dýrunum. Vildi ekki vera fastur í byggingunni.
Það var eitthvað við þessa byggingu sem böggaði hann.
Eitthvað sem… hann kom því ekki fyrir sig.
En það var eitthvað…

Siggi þurfti að vekja hann þrisvar í skólanum daginn eftir.
,,Hvað er með þig maður? Geturðu ekki sofið á nóttunni eins og við hin,” sagði hann pirraður eftir að Hilmir hafði sofnað með hausinn ofan á borðið við hliðina og slefað á stílabókina sem lá þar.
,,Sorrý maður, ég er bara að drepast úr þreytu,” sagði hann og reyndi að halda augunum opnum. Íslensk málsaga, þetta fag bauð uppá það að fólk svæfi í tímum. ,,Mig dreymdi drauminn aftur í nótt,” sagði hann lágt.
,,Aftur?” sagði Siggi annars hugar. Hann var að reyna að fylgjast með.
,,Ja, eða kannski ekki aftur. Þetta var meira svona eins og frah… frah… framhald,” sagði Hilmir og geispaði. Hann sagði Sigga hvað hafði gerst og að hann hefði ekki farið að sofa eftir að hann vaknaði.
,,Þú sjúki, sjúki drengur,” sagði Siggi ,,Ef þú vilt get ég látið þig fá svefnpillur. Þá á þig ekki að dreyma neitt.”
,,Nei takk,” sagði Hilmir. ,,Ég tek frekar sénsinn á því að þetta hætti bara. Ég meina, það hlýtur að gera það… er það ekki?” Hann leit á Sigga.
Siggi horfði á móti. ,,Jah, það er bara ein leið til að komast að því,” sagði hann og klappaði Hilmi á bakið. ,,Farðu heim og leggðu þig.”

Hann stendur upp og hleypur að hurðinni. Hann tekur í hurðarhúninn.
Hún er læst. Það hefur einhver læst henni utanfrá!
Hann veit ekki hvernig hann á að komast út.
Öskrin verða alltaf hærri og hærri, koma alltaf nær og nær.
Nær og nær!

Hilmir hrökk upp. Hann hafði dottað við eldhúsborðið. Hann stóð hægt á fætur og leit á klukkuna. Hann hafði bara sofnað í nokkrar mínútur. Sunna og Stefán voru ekki ennþá komin heim, hann hafði skrópað síðustu tvo tímana og farið heim til að leggja sig. Ætlaði að fá sér að borða, hafði sest við borðið og sofnað.
Hann staulaðist uppí herbergi og lagðist uppí rúm. Hann var dauðþreyttur, en hann vildi ekki fara að sofa. Því ef hann myndi sofna, myndi hann dreyma.
Dreyma um þau.
Dreyma um dýrin.
Hann settist upp, neyddi sig til að standa á fætur og fór niður í eldhús. Hann ætlaði að búa sér til kaffi. Sterkt kaffi…

Hilmir svaf ekkert um nóttina. Þorði því ekki. Hann sat stjarfur við tölvuna fram undir morgun. Drakk kaffi. Reyndi að sofna ekki.
Þegar Siggi gekk inní skólastofuna sat Hilmir stjarfur við skrifborðið sitt, í krumpuðum fötum og hárið útí loftið. Siggi settist við hliðina á Hilmi og spurði hver andskotinn væri að honum. Af hverju svæfi hann ekki? Vildi hann örugglega ekki svefnpillurnar? Hilmir var svo þreyttur að hann heyrði varla í honum. Svaraði öllu með ,,aha” eða ,,u-u”. Sá allt í móðu.
Vildi sofna en vildi það samt ekki. Kennarinn gekk inní stofuna. Hilmir tók ekki eftir því. Hann tók ekki eftir neinu.
Smá saman sigu augnlokin og andardrátturinn þyngdist. Varð dýpri.
Hilmir var sofnaður…

Þau koma í hópum. Sex þaðan sem það fyrsta hafði komið. Önnur sex innan úr númeruðu herbergjunum.
Það eru fleiri á leiðinni. Hann heyrir öskrin í fjarlægð.
Hann reynir einu sinni enn að opna hurðina, sparkar í hana, tosar.
Hún er pikkföst! Ef hann hefði bara eitthvað til að þvinga hana opna. Hann lítur í kring um sig.
Dýrin hafa stoppað.
Þau standa öll um fimmtán metra frá honum og horfa á hann svörtum tómum augum. Þau hvæsa og vagga hægt til og frá. Eins og þau viti ekki hvað þau eigi að gera.
Þá sér hann hvað er að. Dýrið sem hann skaut. Þau finna lyktina af því. Þau finna að eitthvað er ekki eins og það á að vera.
Allt í einu fær hann hugmynd. Hann byrjar að fikra sig nær búk dauða dýrsins.
Hægt og rólega.
Hin dýrin bakka örlítið, en fara ekki langt. Hann gengur hægt framhjá dýrinu og beygir sig niður eftir brotnu fótleggjunum. Hann getur notað þá til að þvinga hurðina opna.
Um leið og hann kemur við þá tryllist allt. Dýrin fara að öskra og veina og hlaupa af stað.
Og þau hlaupa svo hratt!
Hvernig getur dýr farið svona hratt yfir?
Þau eru svo æst að þau ryðjast fram fyrir hvort annað. Þau öskra og þau hvæsa!
Þau eru að koma! Þau eru…

,,…að koma!” hrópaði Hilmir og rauk á fætur. Hann stóð í miðri kennslustofunni og allur bekkurinn starði á hann. ,,Hver er að koma Hilmir?” spurði Hrönn íslenskukennari og horfði á hann reiðilega. Það tók Hilmi smá tíma að fatta hvar hann var.
Hann starði fram fyrir sig. ,,Ég þarf að fara heim,” sagði hann að lokum. Hann greip dótið sitt og hljóp út úr stofunni. Siggi sat eftir og horfði orðlaus á eftir honum. Svo hristi hann hausinn og hélt áfram að glósa.
Hilmir var að hlaupa eftir skólaganginum þegar hann missti töskuna sína. Hann beygði sig niður til að taka hana upp. Þegar hann stóð á fætur var honum litið á útidyrahurðina í enda gangsins. Hún (er læst) var opin. En það var eitthvað (sem er að koma) sem var að. Eitthvað sem (þú getur ekki sloppið undan) var ekki í lagi.
Hann skellti töskunni á bakið á sér og hljóp út.

Hilmir mætti ekki í skólann daginn næstu þrjá dagana.
Enginn spurði að neinu.
Allir höfðu heyrt um flippið sem hann hafði tekið í íslensku og satt best að segja var fólk hálf hrætt. Í hádegi þriðja dagsins ákvað Siggi að fara heim til hans og tékka á honum.
Hann gekk upp að húsinu og tók eftir því að það var enginn bíll inní bílskúrnum. Hann gekk upp að hurðinni og dinglaði nokkrum sinnum.
Ekkert svar.
Hurðin var ekki læst þannig að hann gekk inn. Það voru öll ljós kveikt í húsinu.
Á eldhúsborðinu var miði. Siggi tók hann upp. ,,Skruppum til Gunna og Svönu. Komum aftur seint í kvöld. Láttu þér batna. S+S”
Siggi lagði miðann frá sér. ,,Hilmir! Ertu heima?” kallaði hann upp stigann.
Ekkert svar.
Hann fór upp og sá að hurðin að herberginu hans var lokuð. Á ganginum voru alls þrjú herbergi. Herbergið hans Hilmis var í miðjunni, beint á móti stiganum. Öðru megin við herbergið var svefnherbergi foreldra hans og hinu megin var baðherbergið. Allar hurðir voru lokaðar.
Siggi gekk upp að herbergishurð Hilmis og rann næstum því á hausinn á mottu sem lá á gólfinu. Hann studdi sig við hurðina og bankaði. ,,Hilmir, ertu þarna?”
Ekkert svar.
Siggi tók í hurðarhúninn. Það var ólæst. Hann opnaði hurðina varlega og gekk inn.
Herbergið var fullt af lömpum. Það var hvergi skuggi í öllu herberginu. Talvan var í gangi. Á tölvuborðinu var haugur af bollum og í ruslafötunni voru pakkar utan af kaffi. Það var teketill í gluggakistunni. Siggi tók af sér skólatöskuna sína og setti hana upp við rúmið hans Hilmis. Hann tók upp einn lampann. ,,Hvað í andskot…”
,,Til að ég sofni ekki,” sagði hrjúf rödd skyndilega bak við hann. Sigga brá svo mikið að hann öskraði næstum því. Hilmir stóð í dyragættinni í slopp og var að þurrka á sér hárið með löngum og hægum hreyfingum. ,,Ég var í kaldri sturtu,” sagði hann hægt og horfði á Sigga. Siggi stóð og horfði á hann, ennþá að jafna sig.
,,Til að vekja mig,” sagði Hilmir lágt. Hann var með dökka bauga undir augunum og það var eins og munnurinn væri fastur í skeifu. Hann var miklu fölari en venjulega og orðinn skjálfhentur. ,,Sorrý,” sagði hann afsakandi og reyndi að brosa. Það tókst ekki.
Siggi starði á vin sinn sem hafði umbreyst á nokkrum dögum.
,,Hvenær fórstu síðast að sofa?” tókst honum loks að stynja uppúr sér.
,,Man það ekki,” svaraði Hilmir. ,,Fyrir þrem, fjórum dögum,”
,,Díses kræst maður, hvað er að? Af hverju leggurðu þig ekki?” Siggi var hræddur.
,,Af því að þá koma þau… Þá koma dýrin,” hvíslaði Hilmir svo lágt að það heyrðist varla.
,,Drengur, hættu með þetta dýrakjaftæði! Það eru engin dýr,” sagði Siggi pirraður. Hann var hræddur um vin sinn og hann þoldi ekki lengur þetta bull. ,,Ég skal redda þér svefnpillum og svo skulum við bara gleyma þessu.”
Þá var eins og Hilmir lifnaði við. Hálflokuð augun glenntust upp og Siggi sá að þau voru rauðari en venjulega. ,,Nei! Engar svefnpillur!” hrópaði Hilmir. ,,Þú vilt að ég sofni! Þú vilt að þau nái mér!” Hann var farinn að ýta í Sigga og augun herptust saman í gífurlegri heift.
,,Hvað er að þér maður? Hættu þessu!” Siggi var farinn að hrópa líka og ýta á móti.
,,Láttu mig bara í friði!” öskraði Hilmir á hann. ,,Drullaðu þér út!” Hann þreif í einn af lömpunum og lét eins og hann ætlaði að berja Sigga með honum.
Siggi stóð í smá stund og starði á hann.
,,Farðu þá bara í rassgat,” sagði hann og strunsaði út.
Hann skellti á eftir sér.

Hilmir stóð stjarfur með lampann í hendinni. Hvað var hann að gera? Hvað var að honum? Hann hafði virkilega ætlað að ráðast á Sigga!
Hann setti lampann á borðið og settist á rúmið. Þetta gat ekki haldið svona áfram lengur. Hann var búinn að ljúga að foreldrum sínum síðustu dagana að hann væri veikur og þannig gat hann verið ótruflaður inní herbergi. Hann fékk sér að borða þegar hann ,,hafði lyst” eins og hann orðaði það, en þau voru samt farin að hafa verulegar áhyggjur af honum. Ætluðu varla að þora að skreppa í burtu í morgun.
Hann varð að fara að gera eitthvað í þessu. Hann vissi samt að það eina sem gæti lagað þetta væri svefn.
Hilmir hafði lesið á netinu af ef þú ert vakandi í meira en ellefu daga gætirðu dáið. Hann varð að gera eitthvað og það strax. Hann gat varla sest niður án þess að dotta. Það varð að… *brak*
Hvað var þetta?
Það var einhver inní íbúðinni.
Hilmir læddist hægt fram að handriðinu og kíkti yfir. Hann sá ekki neitt, en hann þekkti hljóðið. Þekkti tilfinninguna. Hvernig gat það verið? Þau voru bara draumur.
Hilmir læddist inní herbergi og fór ofaní skúffu. Þar var gamall veiðihnífur sem pabbi hans hafði gefið honum þegar hann varð 18 ára. Hann kunni að nota hann. Hilmir lokaði inní herbergið sitt og faldi sig inní herbergi foreldra sinna.
Hann var tilbúinn.

Hann sá ekki dýrið fyrr en það var komið langleiðina upp stigann. Það læddist klunnalega upp, fjórar lappir á hverju þrepi í einu. Brúnn búkurinn glansaði og svartar þykkar varirnar voru dregnar aftur í eitthvað sem leit út eins og glott.
Það komst loksins upp og labbaði rólega að herbergishurðinni hans. Það leit aðeins í kring um sig, svört augun störðu heimskulega útí loftið.
Það krafsaði í hurðina. Hilmir læddist í dyragættina og fylgdist með því.
Það var að reyna að komast inn.
Hann var með hnífinn tilbúinn. Hann andaði djúpt að sér og var tilbúinn til að stökkva á dýrið þegar það sneri sér skyndilega til hliðar og horfði beint á hann. Augu þeirra mættust örstutt. Svo sá það hnífinn.
Dýrið hikaði.
Það gerði Hilmir ekki.
Hann hljóp af stað með hnifinn fyrir framan sig. Dýrið skildi greinilega hvað var að gerast, vegna þess að það reyndi að snúa við og flýja niður stigann. Það rann á mottunni og missti fótfestuna. Datt fram fyrir sig, rétt við efstu tröppuna.
Hilmir nýtti sér tækifærið. Hann stakk hnífnum á bólakaf rétt fyrir ofan augun. Grænt slím sprautaðist upp úr sárinu. Dýrið öskraði viðbjóðslegu kvalarveini og reyndi að komast í burtu.
Það titraði og skalf, allir útlimir reyndu að berja Hilmi af sér.
Hilmir byrjaði að draga hnífinn eftir endilöngu bakinu. Dýrið öskraði ennþá hærra. Hilmir reyndi að halda hnífnum eins djúpt og hann gat og notaði alla sína krafta í að ná honum alla leið, allan hringinn!

Smá saman hætti það að skjálfa. Það átti aldrei séns.

Það lá á gólfinu, lappirnar voru allar að reyna að fara í sitthvora áttina og það skildi að þetta var búið. Það gaf frá sér eitt loka öskur og svo var eins og slokknaði á augunum.
Þetta var búið.

Það var grænt slím útum allt. Hann hafði skorið það í tvennt.
Hilmir labbaði inná baðherbergi og horfði á sjálfan sig í speglinum. Hann var allur útí grænum innyflum og slími. Hann reyndi að þurrka það burt, en það gekk ekki.
Hann fór úr sloppnum og henti honum ofan í baðkarið.
,,Þau eru til, þau eru til…” sagði við sjálfan sig í speglinum. Hann ætlaði ekki að trúa þessu, vildi ekki trúa þessu, en hann réði ekki við það.
Hann horfði fram á gang á tættan búk dýrsins.
Og þá fattaði hann það; ef dýrin voru til í alvöru varð hann að vara fólk við. Áður en þau myndu ráðast á fleiri. En þá varð hann að finna staðinn þaðan sem dýrin komu. Bygginguna. En hann vissi ekkert hvar þessi helvítis bygging…
Allt í einu var eins og hann skildi það. Hann horfði á sjálfan sig í speglinum og þá skyldi hann það. Hann þekkti hana. Hann þekkti bygginguna. Hann hafði verið þar áður.
Draumarnir gerðust í skólanum. Dýrin voru í skólanum!
Það var eins og aftakan á dýrinu hefði gefið honum nýjan kraft. Eins og hann þyrfti aldrei að sofa aftur. Hann klæddi sig í föt, fór inní svefnherbergi hjá Sunnu og Stefáni og fann riffilinn hans Stefáns. Hann tók öll skot sem hann fann. Vona að þessi séu nógu mörg, hugsaði hann. Hann glotti út í annað. Steig yfir dýrið og gekk niður stigann.
,,Þetta er eins og tölvuleikur,” sagði hann upphátt.
,,Og ég ætla að vinna!”

Áður en hann kemur að skólanum heyrir hann öskrin. Öskrin í þeim. Hann hleður riffilinn. Hann skilur að hann verður að drepa þau öll. Dýrin eru vond. Dýrin eru slæm. Það má ekki vera eitt einasta eftir.
Hann labbar upp að húsinu sem hann hefur séð svo oft í draumum sínum, óttast í draumum sínum og opnar hurðina varlega.
Hann laumar sér inn og læsir á eftir sér. Þau fá ekki að sleppa út!
Hann er ekki fyrr búinn að læsa en hann heyrir fyrsta öskrið. Það er mjög nálægt. Hann snýr sér við og sér það. Dýrið er um 10 metra frá honum. Það stendur og horfir á hann.
Hann tekur riffilinn. Miðar.
Skýtur.
Búkurinn á því springur. Grænt slím þeytist í allar áttir og lendir á gólfinu, á loftinu, á Hilmi.
Nú heyrast fleiri öskur. Dýr koma hlaupandi inná ganginn úr öllum áttum. Hilmir hefur varla við því að hlaða og skjóta. Hann reynir að skjóta öll dýrin sem hann sér.
Sum standa bara kjur, frosin.
Hin hlaupa organdi í burtu.
Þau eru loksins búin að fatta það að hann er betri en þau. Hættulegri en þau. Hann hefur unnið allt hingað til og hann ætlar ekki að tapa í dag! Hann ætlar að drepa þau öll!
Hann hleypur á eftir þeim. Sum þeirra hlaupa inní stofur og reyna að fela sig undir borðum eða stólum, skríða á átta löppum eins hratt og þau geta, en hann er fljótari. Græna slímið er alls staðar, Hilmir er þakinn í því.
Þau reyna að flýja, en renna í slíminu sem er fyrir á gólfinu. Þau detta, feit og klunnaleg, um hvert annað og öskra þegar Hilmir miðar á þau. Hann öskrar á móti og tekur í gikkinn.
Í hvert skipti sem dýr er skotið veina hin. Þau vita hvað er að fara að gerast. Þau vita að þegar hin eru dauð er röðin komin að þeim.
Feitir brúnir búkarnir liggja eftir á jörðinni, tættir og lekandi einhverju ógeði, sparkandi veiklulega útí loftið. Það er eins og þau séu endalaust mörg.
Hilmir flýr inní stofu fimmtán og hallar sér upp að hurðinni. Tekur fleiri skot og setur í byssuna. Hann er móður og þreyttur, en adrenalín-kikkið er svo mikið að hann veit ekki í þennan heim né annan. Þetta er svo góð tilfinning! Svo fokkings góð tilfinning!
Þegar hann tekur í gikkinn!
Þegar hann finnur hvað hann er kraftmikill!
Hann ætlar að vinna og hann ætlar að fá langflestu stigin. Fokkings langmestu stigin!

Það er dýr inní stofunni. Hann heyrir í því. Það er að fela sig.
Hann hleypur að kennaraborðinu og sparkar í það. ,,Komdu undan fokkings ógeðið þitt!” öskrar hann á borðið. Lítið dýr skýst undan borðinu og reynir að flýja.
Það kemst ekki langt.

Hann leggur skotin á kennaraborðið og athugar hvað hann á mörg eftir. Hann er nýbúinn að telja og er byrjaður að troða þeim í úlpuvasann þegar hann heyrir skyndilega rödd í fjarska.
,,Láttu vopnið síga og komdu út með hendur á lofti.”
Hilmir hallar sér upp að veggnum og hlustar.
Þögn
Þetta hlýtur að hafa verið eitthvað bull. Hann hefur ekki tíma fyrir bull. Það er hellingur af dýrum eftir. Hann verður að drepa þau öll áður en þau komast út!
,,Láttu vopnið síga og komdu út með hendur á lofti. Þú hefur 2 mínútur, svo ráðumst við inn.”

Hilmir hristir hausinn. Lagar úlpuna, grípur riffilinn og ætlar að labba út úr stofunni. Sér út undan sér litla dýrið sem hafði reynt að flýja. Það hafði komist í hinn enda stofunnar áður en hann drap það.
Hann sér bara í lappirnar á því.
Það er í strigaskóm.

Skyndilega læðist að honum hræðilegur grunur.
Hann hleypur út úr stofunni og fram á gang.
Þar sem dýrin voru.

Allt í einu er eins og kvikni ljós inní skólanum. Lýsingin breytist úr dökkbláu yfir í ljósgult. Græna slímið á Hilmi verður smá saman rautt.
Blóðrautt.
Hilmir heldur á rifflinum og horfir í kringum sig. Hann veit ekki hvað er að gerast. Hann snýst í hringi kringum sjálfan sig.
Það er eins og allt breytist.
Eins og allt skerpist.
Eins og allt verði meira… alvöru.

Um leið og hann opnar hurðina blasa við honum skrokkarnir.
Nema þeir eru ekki af dýrunum.
Hann sér hvað hann er búinn að gera.
Hann skilur hvað hann er búinn að gera.

Hilmir missir riffilinn í gólfið og dettur niður á hnén.
,,Nei, nei, nei, nei…” hvíslar hann. ,,Ég ætlaði ekki að… ég ætlaði ekki…”
Hann dettur niður á hnén.
,,Ég ætlaði ekki… dýrin… þau voru svo mörg… varð að vinna…”
Hann er byrjaður að gráta.
,,Ég ætlaði ekki að gera neitt…”
Hann liggur á hnjánum og vaggar sér hratt fram og aftur.
,,Ég vildi bara fá að sofa… vildi bara fá að sofa… þau leyfðu mér það ekki…”

Lögreglan braust inn skömmu seinna.
Karl Ólafsson, nýútskrifaður úr Lögregluskólanum, var fyrstur. Hann komst aldrei lengra en þrjá metra. Þá hljóp hann aftur út og ældi.
Sagði löngu seinna að hann hefði aldrei áður séð neitt svona ógeðslegt. Hélt að þetta gerðist bara úti í Bandaríkjunum. Hélt að Ísland væri of lítið land til að svona myndi gerast. En þegar krakkar komast í skotfæri foreldra sinna eins og þau vilja er í raun ekkert mál að gera svona.
Þú þarft bara að vera nógu andskoti ruglaður!

Þegar lögreglan fór heim til Hilmis fundu þeir vin hans, Sigurð Helgason, efst í stiganum. Aðkoman var vægast sagt hræðileg. Þeir fundu morðvopnið við hliðina á líkinu; Veiðihnífur.
Stiginn var rauður af blóði.
Eftir rannsókn komst lögreglan að þeirri niðurstöðu að Sigurður hefði líklega komið til Hilmis til að ná í skólatöskuna sína.
Guð einn veit afhverju strákurinn réðst á Sigurð líka.


——————————————– ———


Það voru alls fimmtán manns sem létust í árásinni þann 24. mars 2004. Aðrir fimmtán særðust alvarlega.
Skólanum var lokað í tvær vikur í kjölfarið.
Hilmir Stefánsson var tekinn og lagður inná geðdeild Landspítalans undir ströngu eftirliti.
Læknar telja að hann hafði fengið svokallaða ,,draumsýki”, sem orsakast af of litlum svefni. Í veikinni felst það að draumar blandast inní vöku og sjúklingurinn á oft erfitt með að greina á milli hvað sé raunverulegt og hvað tilheyri draumaheiminum.

Þrem mánuðum eftir árásina sögðu læknarnir að það væri óhætt að minnka eftirlitið hjá Hilmi. Hann væri búinn að róast mikið niður, væri búinn að ná algjöru jafnvægi og myndi ekki fara sér að voða úr þessu.

Hann fremur sjálfsmorð þrem dögum síðar.
"