Hjarta úr stáli

Smásaga eftir Rakel Sólrós


Ég geng ákveðnum skrefum framhjá gróthörðum bekkjum. Ég hef aldrei komið hingað áður. Stórt herbergi og bjart, margir langir gluggar með ýmsum litríkum skreytingum. Falleg ljós í loftinu og kveikt á stórum og löngum kertum allsstaðar. Ég nálgast fremsta bekkinn og sest lengst til vinstri við hliðina á föður mínum. Tárin renna niður kinnar hans þar sem hann starir á einn hlut. Langan hvítan kassa með gylltum skreytingum. Tugir blómvanda og blómakransa sitja á kassanum. Blómin eru ýmist rauð eða hvít. Gullfalleg. Niður af krönsunum hanga borðar með áletrunum. Á einum stendur: „Elsku systir, hvíli þú í friði. Þín Ásta“ Mín tár fela sig langt niðri en kökkurinn sem ég er með í hálsinum er gríðarstór. Allir horfa á mig aumkunarverðum augum. Ég sé á þeim hvað þau vilja faðma mig fast að sér. Ég afþakka öll faðmlög í huganum. Hvernig á mér að líða betur með því að halda manneskju þétt að mér? Það mun aðeins gera mig veikari. Ég ætla ekki að gráta fyrir framan þetta fólk sem ég þekki ekki neitt. Ættingjar sem ég aldrei hitti. Ættingjar sem hafa ekki sýnt mér kærleika fyrr en nú.

Ég horfi á þennan kassa þar sem látin manneskja liggur. Manneskja sem ég þekkti vel. Manneskja sem studdi mig í blíðu og stríðu. Manneskja sem ég hélt að aldrei myndi fara. Ekki svona skjótt.

Ég íhugaði það reyndar þegar hún var lögð inn á Landspítalann. Hún var greind með brjóstakrabbamein nokkrum dögum síðar. Ég sá hve veikburða hún var, ég var hrædd um hana í nokkra stund. En hún var svo hörð að sér og sagði okkur að hafa engar áhyggjur. Hún sýndi aldrei sársauka þó hún væri að berjast við þann mesta helvítis sársauka sem hægt er að hugsa sér. Mánuður leið og ég heimsótti hana á hverjum einasta degi… og hélt í höndina á henni. Ég kom með gítarinn og spilaði fyrir hana öll lög sem ég kunni og stundum sá ég tár renna niður kinnar hennar þegar hún horfði á mig syngja. En einn daginn hætti hún að anda, ég hélt í höndina á henni. Tilfinningin var óbærileg. Ég kíkti á klukkuna og faðmaði hana að mér. Með hverri mínútu sem leið fann ég hvernig hún varð kaldari og kaldari. Hjúkrunarkona kom inn og sá hvað hafði gerst. Hún spurði mig að dánarstund. 12:34. Ég hafði ekki fellt tár.

Konan byrjaði að hlúa að henni og tilkynnti öðru hjúkrunarfólki að sjúklingurinn væri látinn. Ég tók upp símann og byrjaði að hringja. Einn ættingja á fætur öðrum. En fyrstur til að vita fréttirnar var pabbi. Hann var að vinna. Þegar hann heyrði mig segja orðin sagði hann ekki orð. Hann andaði djúpt og ég fann hvernig hann vildi bara leggjast á gólfið og gráta. Að hluta til vildi ég það líka. En ég gerði það ekki, ekki hann heldur. Ég kvaddi hann og svo kom hann korteri seinna. Ég hringdi svo í bræður mína og nokkru síðar voru þeir mættir líka. Enginn af okkur systkinunum vildi að prestur kæmi, en pabbi, sá eini sem er trúaður af okkur hringdi í Séra Guðbjart og bað hann að koma og hitta okkur og nokkra ættingja á sjúkrahúsinu.

Klukkan var að verða tvö þegar presturinn loksins kom. Allir ættingjar mínir föðmuðu mig þétt að sér og sögðust samhryggjast mér. Ég trúði þeim, ég sá það á andlitinu á þeim að þau voru ekki bara að segja þetta því það er hefð. Allir vildu halda utan um mig. En ég veit hvað þau hugsuðu þegar þau horfðu á mig: „Hún sem er svo lík henni, hún á aldrei eftir að geta séð sjálfan sig í spegli. Aðeins hana. Það var svosem satt. Ég bar ljósa síða hárið hennar, bláu augun og hvítu húðina. Ég bar líkama hennar eins og hún var þegar hún var 28 ára eins og ég. Við notuðum líka sama skónúmerið. Hún var eina manneskjan sem ég faðmaði af vilja. Sú eina.

Guðbjartur var inn í þessu bjarta herbergi sem var í þessu háa og fallega húsi. Hann var í sínum prestsklæðnaði og fór með ýmsar vísur ortar af þessum og hinum heilaga. Heilagi Guðni, heilagi Pétur, heilagi Siggi. Allir voru þeir heilagir, en hvernig þeir fengu það heiti veit enginn. Þeir gáfu sér heitið ef til vill sjálfir. Tíminn leið og starði ég bara á þessa kistu. Ef ég mætti snerta hana einu sinni enn myndi ég afþakka. Ég ímyndaði mér að snerta köldu húðina enn einu sinni. Það fór léttur hrollur um mig. Þessi manneskja sem ég þekkti var farin, ég ætla ekki að snerta einhvern ónotaðan líkama aftur og aftur.

Ég stend upp af bekknum og geng upp stiga þar sem kórinn stendur. Ég byrja að syngja Móðir mín í kví kví en á frekar erfitt með það vegna kökksins í hálsinum. Ég bjaga mér samt í gegnum lagið en gef sérstaka tilfinningu í lagið sem ég hef aldrei getað áður. Það veitti mér ákveðna ánægju. Lagið syng ég veikt og harmþrungið. Ekki af neinni tilgerð. Af og til heyri ég grátur þarna niðri þar sem sorgmæddir ættingjar mínir sitja. Brátt sjást baugar undir augum þeirra og allt þetta stolt sem þeir höfðu, er farið.

Ég er að brotna niður, ég finn það hvernig fætur mínir titra af einskærum ótta. Ég vil ekki vera hér. Ég vil fara heim, í rúmið mitt og hugsa um þig. Allan daginn, alla nóttina. Allan þann tíma sem ég á eftir ólifaðan. En hér stend ég og miðla minni rödd í gegnum hjörtu annarra.

Ekkert fer í gegnum mitt.