Með lífið í lúkunum Þetta er saga sem ég gerði í skólanum og vidi deila með ykkur :)

Þetta var alltaf svo spennandi. Að læðast á milli húsa og skjóta á hvern þann sem klæddist búningi, hvern þann sem vogaði sér að reyna að stoppa okkur. Við vorum baráttumenn, frelsishetjur, hugsjónamenn í leit að friði og réttlæti.
En núna… Það er grenjandi rigning og við hýsumst innan trjánna og bíðum, bíðum eftir að þeir komi og finni okkur. Skotin eru að verða búin, allir vannærðir af margra mánaða feluleik og margir særðir og enn fleiri fallnir. Vinir sem eitt sinn drukku, spiluðu og börðust við hlið okkar, horfnir. Allt útaf þessum heimskulega málsstað.
Þá heyrist í fjarska örlítið þrusk í trjágreinum sem brotna, „Þeir eru að koma” öskrar einhver. Allir hendast af stað ofan í þröngar skotgrifjurnar og hlaða byssurnar. Hljóðin færast nær og nær, þeir eru of margir en svo hætta þau. Allt er hljótt. Íkorni hoppar úr trénu fyrir framan mig eins og hann viti hvað er að fara að gerast.
Handsprengja springur rétt hjá mér og menn allt í kringum mig byrja að skjóta af handahófi útí loftið án þess að hitta neitt annað en tré og gróður. Sprengjur og kúlur fljúga á milli eins og í versta óveðri. Nokkrar kúlur lenda við hliðina á mér og ég byrja að skjóta. „Þetta er fyrir ættjörðina og friðinn!” Skothylkið klárast fljótt en ég sé engan fyrir framan mig, engan sem hægt er að kalla óvin. Ég tek upp handsprengju og kasta. Þegar hún spingur heyrðist hræðileg óp. Ég hitti. En því fylgdi ekki vellíðan, heldur hræðileg tilfinning: Ég hafði drepið einhvern. Ég hafði aldrei hugsað útí það, hann var bara dauður. En hvað um fjölskyldu hans? Hvernig ætli þeim líði þegar þau frétta að ég hafi drepið hann? Hans dauði gerði ekkert, bara ýtti undir hatrið sem kraumar nú þegar of heitt.
Ég sest niður. Hvaða valkosti hef ég? Ég get lagt niður vopn og beðist vægðar, en þessar skepnur myndu bara skjóta mig. Ég get barist útí rauðan dauðann og reynt að taka sem flesta með mér. „Já ég geri það” hugsa ég og skipti um skothylki.
Skothljóðin færast nær og nær og eru komin hættulega nálægt. Fleiri og fleiri falla og líkin liggja eins og hráviði út um allt og eru þau eini sýnilegi ávöxtur þessa stríðs, ekkert hefur breyst nema að þeir menn sem annars væru að vinna við að byggja hús eða hjálpa öðrum liggja nú dauðir á jörðinni.
Ég stend upp, lít í kringum mig og sé hóp manna. „Deyið” öskra ég um leið og ég skýt á þá. Þeir snúa sér við, sjá mig og byrja að skjóta á móti en það er of seint því þeir detta niður einn af öðrum. Þá finn ég sting, eins og einhver sé að stinga nál í gegnum mig. Ég er allur blóðugur og átta mig á því að það stendur einhver beint fyrir aftan mig. Ég tapa öllum styrk og dett niður. Ég horfi í augun hans en sé ekki þessa illsku sem við börðust gegn. Þetta er bara venjulegur maður sem er að leita að því sama og ég, friði.