Leitið og þér munuð finna, hafði móðir mín ávallt sagt. Hún var sú sem fann hlutina á heimilinu, hvort sem það voru hennar hlutir eða annarra. Kannski var hún líka sú eina sem nennti að leita. Hún bara vissi um hlutina. Hún sá um heimilið. Það var hennar verk. Það er ósanngjarnt í margra augum, en henni fannst það allt í lagi. Hún tók þessu starfi opnum örmum og skilaði því vel. Það voru margir hlutir sem hún var algjörlega óhæf í, eins og að sjá hluti. Hún hafði lélega sjón. Hún reddaði sér samt einhvern veginn. Hún notaði ekki einu sinni gleraugu.

Um jólin, vaknaði hún eldsnemma á morgnanna til að byrja baka. Hún var góður bakari, enda hafði hún bakað síðan hún var lítil stelpa. Hún hafði hjálpað til á heimilinu þegar hún var lítil þar sem hún átti mörg systkini. Nú dekraði hún við þessa krakka sína. Hvað þurftu þeir að gera? Jú, þeir sátu fyrir framan skjáinn sinn og borðuðu smákökurnar hennar. Oftast nær fékk hún minnst af þessum smákökum. En ekki kvartaði hún. Hún gekk í slitnum og margra ára gömlum flíkum en var alveg sama. Á meðan hún hafði heilsuna sína og börnin sín þá leið henni vel, þá var hún sátt. Hún var hamingjusöm. Á óskiljanlegan hátt. Börnin hennar töluðu ákaft um drauma sína og hvað framtíðin þeirra myndi verða frábær. Þau voru fyrirmyndarbörn. Þau gerðu vel í skóla og höguðu sér vel. Allt sem foreldri gat óskað sér. En oft gátu þau verið erfið. Það tekur á að ala upp góð börn. Það þarfnast hæfni, og hún móðir mín hafði þá hæfni. Hún gat ráðið við þau. Án þess að vera ströng. Hún gat talað við þau og hún skildi hvernig þeim leið. Hún skildi þau og en þau áttu erfitt með að skilja hana. Hvað hún hugsaði. Hún var margbrotin manneskja. Hún var móðir mín.

Ég minnist faðmlaganna. Þegar ég gekk meðfram ganginum í húsinu og mætti henni móður minni og hún brosti og faðmaði mig. Án þess að hafa ástæðu. Hún þurfti heldur ekki að hafa ástæðu. Henni þótti vænt um mig og mér þótti vænt um hana. Þétt faðmlagið liggur enn í minningu minni, ilmurinn af henni angaði í kringum mig. Svo sleppti hún mér og brosti breitt. Hún var ánægð. Eina manneskjan sem faðmaði mig var hún móðir mín. Ég hugsaði aldrei um það fyrr en ég var komin á unglingsárin. Hvað þessi faðmlög þýddu mikið, hvað þau sögðu mikið um hana… og um mig.

Nú þegar hún er farin, þakka ég henni, hvað hún ól mig vel upp, þessi manneskja sem gat elskað, bjó til manneskju sem gat elskað. Elsku móðir, við eigum okkar fortíð, sem ég vil aldrei gleyma, þessi fortíð gerði það sem ég er í dag. Ég vil ekki breyta einu einasta andartaki. Því allt skiptir máli. Ekki er hægt að lýsa því í orðum hve þakklát ég er fyrir þig.

Nú ertu farin og ei vil ég gleyma,
þeim andartökum sem þú brostir,
þau faðmlög sem þú gafst mér,
þegar ekkert gat ég gefið þér.

Þegar ekkert skipti meira máli en mín hamingja,
þegar allt mitt líf var í þínum mjúku höndum,
tókstu starf þitt með gleði,
Og lagðir ei líf mitt að veði.

Þú skilaðir starfi þínu vel,
því nú er ég manneskja með sjálfstæðan huga, tilfinningar og breitt bros.
Elsku móðir,
Ég verð dóttir þín að eilífu.