Hurðinni var hrundið upp og vindgustur barði á mér, og þeytti blöðum og öðru lauslegu af skrifborðinu um gjörvallt herbergið.

Ég bölvaði í hljóði.
Ég hafði gleymt að læsa.

-Hunangið er búið!
Mamma starði ógnandi á mig, og otaði tómri hunangsdollu að mér, svipurinn tvíræður ef ekki bara þríræður!, meðan ég greiddi stormblásið hárið aftur niður með fingrunum.
-Hunangið er búið!, endurtók hún og byrjaði að brenna mig lifandi með augunum.
-Eh?
-Hunangið er búúúúúið!, gargaði hún og veifaði dollunni í andlit mér. Ég fékk smá hunang á nefið.
-Og?, svaraði ég þurrlega, og þurrkaði hunangið af með tissjú. Augu hennar virtust ætla út úr henni, og það strikknaði á kjálkavöðvunum.
-Og?, endurtók ég (í sama tón og áður).
-Og þú!, hvæsti hún; eitt augnablik kom ég auga á vígtennur. Hún lagði svo mikla áherslu á eðið að það bognaði í þoddn.
-Þú ferð út í búþ!

Það leið nærri því yfir mig.
Sjáöldur mín víkkuðu út og mér lá við uppsölu. Hvílíkur skepnuskapur sem viðgengst; heimillisofbeldi í sinni ógeðfelldustu mynd!

-Hai, hai; róleg sko!, ég er að læra, Sérð'ekki kona!, svaraði ég snöggtum og rótaði í örvæntingu í draslinu á skrifborðinu eftir einhverju bara einhverju sem gæti bjargað mér frá þessum örlagadómi þar til ég fann franska málfræði bók, opnaði og bar hana fyrir mig, minn eini skjöldur og vörn gegn því að verða senditík. Önnur augabrún hennar titraði. Neðri vörin líka, ögn.

Það var vandræðaleg þögn.

Hunangið gegn frönskubókinni.
Sagnirnar être, savoir og venir skriðu hljóðlega upp í eitt horn bókarinnar það er fjærst var dollunni. Svitaperlur mynduðust á enni mér. Ég ræskti mig.

-Ehem.

Hún urraði að mér.

-Uhm… Þú mátt fara út núna, sagði ég brosandi. Hún haggaðist ekki.

Ég þagði.
Hún þagði.

Í sekúndubrot varð ég ögn uggandi um mína tilveru. Allar sagnirnar voru komnar yfir í efnisyfirlitið.

Hún yppti öxlum og brosti.
-Jæja, það verður víst svo að vera, sagð'ún og lokaði á eftir sér; vindgustur gáraði við loftinu inni hjá mér. Ég snéri lyklinum í skráargatinu, lagði frönskuna frá mér og hélt áfram í EVE.