Kötturinn fór að venja komur sínar hingað eftir að Jón, maðurinn minn, féll frá. Mér fannst ágætt að fá smá félagsskap og gaf honum þessvegna alltaf smá mjólkurdreitil í undirskál og spjallaði við hann. Við Jón höfðum alltaf verið barnlaus, eða eiginlega. Við áttum einn son en hann var ekki lengur hluti af lífi okkar. Jón vildi það ekki. Ég hélt áfram að skrifa honum en Jón komst að því og sagði mér að hætta því. Ég sagði kettinum frá syni mínum og kisa hlustaði, stundum settist kisa í fangið á mér og malaði, þá strauk ég honum um kviðinn og hélt áfram að tala.
Ég talaði um hvað Jón hafði verið yndislegur þegar að við hittumst fyrst. Hann hafði horft á mig með augnaráði sem ég hafði bara séð í kvikmyndum með Ingrid Bergman. Ég hélt alltaf að svona augnaráð fengju aðeins fallegu konurnar í kvikmyndunum en Jón veitti mér það.
Við giftum okkur ári eftir að við hittumst fyrst og leigðum íbúð nálægt húsi foreldra hans. Hann vann fyrir leigunni og matnum og ég dáðist að dugnaði hans. Hann vann mikið, allavegana var hann alltaf þreyttur þegar að hann kom heim úr vinnunni á kvöldin og vildi fá matinn sinn, tilbúinn, heitan á borðinu. Ég sem góða eiginkonan, húsmóðirin reyndi að standa undir kröfum hans og eldaði ofaní hann, hélt heimilinu hreinu, þreif fötin hans og straujaði, var falleg og gagnaðist honum í ástarlífinu þegar hann vildi. En sama hvað ég reyndi þá var hann aldrei ánægður með mig, ég fékk aldrei aftur augnaráðið sem ég hafði fallið fyrir. Ég hafði gifst augnaráðinu en ekki honum.
Hjónaband okkar var aldrei auðvelt en við þraukuðum. Jón lagði stundum hendur á mig en þá hugsaði ég að ég ætti þetta skilið og sagði aldrei neinum frá því. Sonur okkar sá hann stundum berja mig og fór að gráta en þá útskýrði ég fyrir honum að það væri í lagi með mig þrátt fyrir marið og glóðaraugun.
Einusinni kom hann inná okkur þar sem við vorum að stunda kynlíf og varð mjög hræddur. Þá réðst hann á föður sinn sem henti honum útí vegg öskuillur og ég man að Jón öskraði:
“-Hvað er þetta með þig krakki? Geturðu aldrei séð mann í friði? Hundskastu í rúmið gemlingur!”.
Ég stóð upp og fór í slopp. Svo hélt ég á óttaslegnu barninu í rúmið. Hann grét alla nóttina og mér fannst ég heyra ekkasogin í honum inní hjónaherbergið þrátt fyrir að herbergi barnsins væri hinumegin í húsinu. Jón vildi náttúrulega klára verkið með mér. Það var sársaukafullt.

Þegar sonur okkar tilkynnti okkur að hann væri samkynhneigður þá barði Jón hann svo heiftarlega að veslings drengurinn var rúmliggjandi í viku. Ég sá um hann þangað til að hann varð fær ferða sinna. Þá fór hann og ég hef ekki séð hann síðan.
Ég sakna drengsins míns, hann var alltaf viðkvæmur en samt svo sterkur. Ég sé andlit hans í mörgum andlitum ennþá. Hann er ennþá 18 ára piltur í huga mínum þó svo að ég viti að hann er fyrir löngu orðinn fullorðinn maður.
Allt þetta segi ég kettinum og hann malar og horfir á mig rólegur. Hann hlustar, hann skilur. Ég elska son minn sama þótt að hann elski karlmenn, ég myndi elska hann þótt að hann elskaði ekki neinn. Hann er sonur minn, afkvæmi mitt, barnið mitt. Ég get samt ekki haft samband við hann, hann áfellist mig eflaust og ég skil það vel. Ég gerði ekkert, ég áfellist mig, ég hata mig. Kisa vill fá meiri mjólk og ég helli dreitli í undirskálina. Kisa lepur af áfergju en hrekkur við þegar síminn hringir. Ég geng að símanum og svara;
“-Halló.”
“-Hæ, mamma? Þetta er ég…”




Takk fyrir mig
Kv-Ibex