Verður maður ekki að fá álit annarra til að vita… Vonandi að ykkur líki hún

Allt er hvítt. Snjórinn fellir úr loftinu og allt er kyrrt. Eða hvað? Nei, daginn fyrir Þorláksmessu er svo sannarlega ekki kyrrt. Allir að klára innkaupin fyrir jólin, krakkar vælandi hér og þar því að mamma vill ekki kaupa það sem þeim langar í. Þau vita ekki að foreldrar þeirra eru að fara að kaupa eða búin að kaupa nákvæmlega þetta sem þeim langar í og að það bíði eftir að komast undir jólatré. Bílarnir keyra á ógnarhraða á götunum sem eru ekki lengur hvítar heldur brúnar af mengun. Allt er að verða vitlaust! Það eru að koma jól!
En í einu kyrrlátu horni liggur köttur. Hann er í felum bak við ruslatunnurnar. Horfir á fólkið þar sem það hleypur framhjá og bílana sem þjóta fram og til baka. Hann tekur fyrir eyrun og lokar augunum þegar hann heyrir í einhverju barninu sem er að gráta yfir að fá ekki þyrlu, eða brunabíl eða… Já, því að hann veit að hann fær ekki neitt. Hann mun fá að sitja úti í köldum snjónum og vorkenna sjálfum sér meðan allir verða inni í hlýjunni að opna pakka og hafa gaman. Hann mun ekki einu sinni fá afganga því að þegar beinin munu koma út í tunnu er ekkert kjöt eftir á þeim til að narta í. Svangur um jólin. Ekki var hann hundur.
,,Einu sinni var ég inni í hlýju húsi, fékk heitan jólamatinn í dallinn minn og naut þess að láta gæla við mig meðan þau gáfu hvort öðru jólagjafir. En svo kom þetta barn. Ég þoli ekki börn. Þá ætluðu þau að fara með mig í kattholt en mér tókst að stinga af. Betra að vera hér heldur en í klóm á ófreskjum, ég fór einu sinni þangað og fer þangað aldrei aftur! Nehei.” Hugsaði hann og hringaði sig saman. Hann vildi sofna en það var ekki hægt fyrir þessum látum. Hann óskaði sér heitt og innilega að vera kominn inn í hlýtt hús þar sem einhver væri að strjúka honum og hann gæti sofið áhyggjulaus. En í stað þess lá hann á eina snjólausa staðnum sem hann fann og hálf skalf úr kulda.
,,Hei, mamma!” Hann fann að honum var klappað. ,,Sérðu greyið köttinn, er hann ekki sætur?” Það var strákur sem var að gæla við hann.
,,Gat skeð, auðvitað krakki að klappa mér” hugsaði kötturinn hálf pirraður.
,,Hvað er ég búin að segja þér oft að láta þessa villiketti vera!” svaraði reiðileg rödd.
,,En mamma hann er aleinn og kaldur.” Strákurinn tók köttinn upp. ,,Ég held að hann eigi hvergi heima.”
,,Láttu köttinn niður, hann á örugglega heima hérna einhverstaðar í nágreninu.” Mamman andvarpaði hálf reiðilega. ,,Komdu nú, við erum að verða of sein að kaupa jólagjöfina hans pabba þíns, það lokar eftir 10 mínútur.”
,,Já, ok.” Strákurinn lét köttinn niður og klappaði honum í kveðjuskyni.
,,Þetta var skrítið, einhver krakki að klappa mér” hugsaði kötturinn, ,,það var meira að segja gott.”
Kötturinn fór aftur í hornið sitt og lagðist niður. Hann var hissa. Það var útaf þessum ljóta krakka sem hann bjó úti en svo kemur einhver annar krakki sem vildi eiga hann. Hann skildi ekki alveg. Smá vonarglæta fæddist innra með honum. Sem dofnaði um leið og hann mundi eftir að mamma stráksins hafði ekki viljað hann.

Aðfangadagur. Það er ekki eins mikið stress og í gær. Núna er fólk meira að fara í bæinn til skemmtunar. Það er gott veður en alveg hrikalega kalt.
Kötturinn er enn bak við ruslatunnurnar á eina snjólausa staðnum sem finna má. Hann geispar og ætlar að teyga úr sér en uppgötvar þá að honum er orðið svo kalt að hann getur varla hreift legg né lið. Nú var þá komið að því. Og það um jól, versta tíma ársins fyrir þennan litla kött. Hann er viss um að nú sé hann búinn að vera. Hann mun finnast liggjandi hér og vera étinn. Hann snöktir örlítið, lokar augunum og reynir að hringa sig betur saman til að halda smá hita á sér.
,,Halló kisi” heyrir hann sagt allt í einu. Hann kannast eitthvað við þessa rödd, en hvaðan? ,,Liggur þú ennþá hérna.”
Hann opnar annað augað og sér hver hafði talað til hans og var núna að klappa honum. Gat þetta verið? Þetta er mamma stráksins sem hafði klappað honum í gær og verið reið yfir því. Nú tekur hún köttinn upp. ,,Mikið ofboðslega er þér kalt, ég held að ég verði að taka þig heim með mér.”
Kötturinn liggur bara í fanginu á mömmunni og getur ekkert gert. ,,Hvað er að gerast?” Hugsar kötturinn ,,Er hún á leiðinni með mig heim til sín, heim til stráksins, þetta er ekki það sem ég bjóst við.”
Mamman gengur nú upp að litlu húsi, opnar hurðina og kallar á Jenna. Og þá sér kötturinn strákinn sem hafði klappað sér deginum áður. Hvað var að gerast?
Jenni stendur bara og getur ekkert sagt. ,,Hérna, taktu kisa og reyndu nú að hlýja honum, honum er svo kalt” sagði mamman og Jenni hlýðir bara. Hann fer með köttinn inn í stofu og tekur teppi og vefur utan um hann. Kötturinn brosir með sér og sofnar, áhyggjulaus.