Þeir eru að koma.
Ég veit ekki hvort það verður á morgun, hinn.
Ég veit bara að þeir eru að koma.
Bráðum.
Þeir eru í úthverfunum en þeir fikra sig alltaf nær og nær miðbænum.
Hús fyrir hús. Úr öllum áttum.
Þeir hætta aldrei. Sofa aldrei.
Þeir eru að koma.
Ég þekki varla lengur muninn á dag og nótt.
Himinninn er alltaf svartur af reyknum. Með rauðleitum blæ frá eldtungunum sem eru það eina sem lýsir upp bæinn.
Hvert einasta hús er brennt.
Og fólkið með.
Bráðum.

Ég hitti hann áðan.
Friðrik.
Hann hélt á litlu systur sinni í fanginu.
Hún hafði fengið kúlu í mjöðmina.
Hún grét ekki. Hjúfraði sig bara upp að honum.
Hún er bara sjö ára. En hún grét ekki.
-Friðrik! Lára!
Ég fór til þeirra.
-Helena!
-Helena!
Við sögðum ekkert annað. Bara nöfn hvers annars.
Ég gaf henni brauðið mitt.
Láru.
Eina matinn sem ég hafði séð í tvo daga.
Brauðið sem ég fann hjá dánum manni.
Það var bara nokkurra daga gamalt.
Lára reif það í sig án þess að segja orð.
Hún tróð nokkrum bitum upp í Friðrik.
Hann horfði bara á mig og tuggði.
Við sögðum ekkert.
Stóðum kyrr.
Allt var kyrrt.
Samt var allt á ferð í kringum okkur.
Svo hljóp ég af stað.
Ég leit einu sinni við og þá horfði hann enn á eftir mér. Svo hljóp hann af stað með Láru í fanginu.
Friðrik.
Við vorum saman í skóla.
Þegar enn var skóli.
Hann var í öðrum bekk en samt þekkti ég hann alltaf svolítið.
Og Láru. Af einhverri undarlegri ástæðu þekkti ég alltaf Láru líka.
*
Hann kom og sótti mig.
Friðrik.
Húsið okkar brann og hann kom og sótti mig.
Víglínan er enn í fjarlægum bæjarhluta en samt brann húsið okkar.
Ég held að mamma og pabbi hafi gefist upp.
Kveikt í.
Þau töluðu um að deyja með reisn.
Að vera ekki höggvin í spað.
Misþyrmt.
Svo þau völdu að brenna. Í svefni. Með húsinu okkar.
En Friðrik kom og sótti mig.
Hann kom og dró mig út úr brennandi húsinu. Án þess að segja orð.
Ég streyttist ofurlítið á móti fyrst. Vildi líka fá að deyja með reisn. En hann horfði þannig á mig að ég varð að láta til leiðast.
Án þess að segja orð.
Svo horfðum við þegjandi saman á húsið brenna.
Úr fjarska.
Ég á lífi.
Og Friðrik.
Friðrik.
Hann fór með mig heim til sín.
Lára lá í stóru barnarúmi.
Andlitið hennar var hvítara en sængurfötin sem hún lá undir. Næstum glært.
Hún opnaði augun og horfði á mig.
Brosti.
-Fæ ég núna að borða?
Friðrik leit á mig.
-Nei! En ég skal fara aftur út að leita. Og nú verður Helena hjá þér á meðan.
Hann kyssti hana á ennið.
Svo fór hann.
Friðrik.
Ég settist á rúmstokkinn hjá Láru og strauk henni um hárið.
-Hvernig lítur Himnaríki út? spurði hún.
Ég horfði á hana svolitla stund. Þetta varð hún að fá að vita.
Ég hugsaði mig um.
-Hinmaríki er allt það yndislegasta sem þú getur ímyndað þér. Þar er alltaf til nóg að borða og drekka og alltaf svo hlýtt og notalegt og engar byssur og engar sprengjur og engir hermenn, engir óvinir. Bara góðir englar. Eins og þú.
-Ég?
-Já. Þegar þú ferð til himnaríkis verður þú engill.
-Verða fæturnir mínir þá ekki svona þungir lengur?
-Nei. Þú verður öll svo létt að þú getur svifið um allan himininn.
Þá lokaði Lára augunum brosandi.
Fegin.
Og ég var fegin. Að hún vissi ekki að ef góður guð væri nokkurs staðar til þá fengju litlar stúlkur ekki kúlu í mjöðmina.
*
Friðrik kom heim. Með grjón og sveppi.
Ég spurði einskis.
Hjálpaði honum bara við að sjóða það yfir eldi.
Í vatni.
Því þrátt fyrir allt höfðum við ennþá vatn.
Vatn. Friðrik leit á mig eins og til að segja:
-En bráðum taka þeir brunnana líka. Og hvað þá?
Hvað þá?
Við átum þegjandi.

*
Við sváfum ekkert um nóttina.
Ekki ég. Ekki Friðrik.
Við lágum hlið við hlið.
Andvaka.
Í sama rúminu.
En við snertumst ekki. Og sögðum ekkert.
Engin orð voru til og engin snerting.
Aðeins tómleikinn. Og minningin um sólina og tunglið og allt það sem geislar þeirra snertu. Einu sinni.
Og tómleikinn.
Og það var eins og tómleikinn og minningin heyðu bardaga um okkur. Hvort fyrir sig. Jafn blóðugan og þann senn háður var á götunum. Fyrir utan.
Tómleikinn sigraði.
Hann sigraði minningar Friðriks. Og augun í honum urðu tóm þurr og líflaus.
Hann sigraði minningar mínar líka.
Allar.
Nema eina.
Eina minningu um vetrardag þegar Lára sagði Friðriki að hann ætti að giftast mér.
Ég roðnaði. En Friðrik brosti.
Hann neitaði aldrei hugmyndinni.
Hann bara brosti.
Brosti.
Ég gat ekki gleymt því.
Með Friðrik svona nálægt mér gat ég ekki gleymt því.
Gat ekki gefið mig tóminu á vald.
Leyft því að sigra þessa einu minningu.
Ég gat ekki sætt mig við að sjá aldrei tunglið og sólina framar.
Gat ekki gefist upp.

*
Í morgun var Lára dáin.
Ég grét hljóðum tárum. En augun í Friðriki voru þurr tóm og líflaus.
Fyrir sjálfum sér var hann dáinn líka.
En ekki fyrir mér.
Hann tók litla líkamann í fangið og lagði af stað til dyra.
Ég vissi að ef hann færi þá kæmi hann aldrei aftur.
-Friðrik! sagði ég, -Friðrik! Við skulum fara með ánni.
Hann horfði undrandi á mig eins og hann væri að sjá mig í fyrsta skipti.
Augun hans breyttust.
Ofurlítið.
Ofurlitla stund.
Og það örlaði fyrir forvitni.
En svo hvarf það allt aftur.
-Áin er ekkert nema lík og blóð. Þeir eru allstaðar umhverfis hana. Bíðandi í leyni. Við yrðum brytjuð niður.
-Nei! sagði ég ánægð með að hafa vakið hann til lífsins þó ekki væri nema ofurlitla stund.-Handan fossins eru þeir ekki. Handan fossins er friður.
Friðrik lagði Láru niður á rúmið.
-Helena…
-Ég veit að fossinn er hættulegur. Og ég veit að þér er sama hvort þú lifir eða deyrð. En við gætum samt reynt. Og ef fossinn drepur okkur þá…Ég hikaði, -Þá deyjum við saman og í heilu lagi og… með reisn.
-En ef við lifum Helena?
Því gat ég ekki svarað.
Hann ætlaði að segja eitthvað.
Ætlaði að draga mig með sér inn í tómið. En hætti við.
Hann sá að ég ætlaði ekki að gefast upp.
Og ég sá að hann var farinn að hugsa.
Reyna að muna. Reyna að ímynda sér eitthvað til að lifa fyrir.
-Reynum Friðrik! Reynum!
Ég horfði á hann með svipuðu augnaráði og hann hafði svo oft horft á mig með.
Hann horfði á móti.
Stundi svolítið. Hristi höfuðið.
Og brosti svo ofurlítið til mín.
-Allt í lagi Helena. Reynum!
Og hann tók litla líkamann hennar Láru aftur í fangið.

*
Og nú erum við að fara.
Nú ætlum við að reyna.
Tómleikinn er ekki alveg jafn mikill og í nótt. Þó hann sé engan veginn horfinn.
Hann verður alltaf til staðar.
Ef við deyjum í fossinum þá deyjum við í heilu lagi og verðum grafin í landi þar sem er friður.
Sem ókunn fórnarlömb þeirra.
Ef við lifum eigum við hvort annað.
Hver sem við erum og hver sem við verðum.
Við munum reyna.
Reyna að komast af.
Byggja upp líf. Markmið. Tilgang. Framtíð.

Fossinn bíður.

Dagbjört