Ég vaknaði snemma eins og venjulega, þó ekki viljandi. Það sem raskaði ró minni var hóstakast nágrannans sem virkaði eins og óbugandi vekjaraklukka á hverjum morgni. Þetta var búið að ganga of lengi, eilíft vakin fyrir allar aldir vegna þess að einhver þarna hinu megin er að hósta upp heymæðinni með tilheyrandi látum.
Vildi óska að hann Jón myndi kveikja á perunni og gera eitthvað í þessu, er ekki óþarfi að láta greyið kveljast svona endalaust. Nær að hjálpa henni bara yfir um, hún er hvort eð er að gefa upp öndina, nema að hún virðist ætla að verða heila eilífð að því vesalingurinn.
Mér líður eins og ég þurfi að hafa vit fyrir öllum hérna. Ég virðist vera sú eina á þessum kleppi sem er ekki hugsunarlaus með öllu. Hinum virðist líða ágætlega í fávisku sinni, jarmandi eilíft um sömu hlutina sem skipta engu máli.
Svo ég tali nú ekki um sjálfsblekkinguna, Ása t.d. er alltaf að staglast á því hversu heppin hún er því að börnin hennar eru að gera það svo gott úti í hinum stóra heimi eftir að þau fluttu að heiman. Þvílík vitleysa, ég efast um að nokkur þeirra hafi hugmynd út á hvað þetta gengur allt saman..
Það er ótrúlegt hvað þær geta tuðað endalaust um ekki merkilegri hluti en það sem þær fengu að borða um morgunin eða hvað börnin þeirra séu yndisleg, hverjum þykir sinn fugl fagur svo mikið er víst. Oft langar mig til þess að standa upp og öskra fullum hálsi yfir hópinn og leiða þær inn í hráan sannleikann. En það myndi ekkert hafa upp á sig, bara leiðindi, þær myndu örugglega ekki skilja hvert ég væri að fara hvort sem væri.
Það var loksins hætt að hrygla í henni þarna hinumegin. Kannski er hún dauð?! Gildir einu, sólin var að skríða inn og það táknaði að við myndum bráðum fá morgunmatinn framreyddan. Þær eru óðum að vakna þessar sem deila með mér svefnplássinu, dauðahryglurnar hinu megin frá virðast ekki raska fegurðarblundinum þeirra.
Á hverjum degi óska ég þess að ég verði flutt yfir til þessara fáu sem hægt er að halda uppi smá samræðum við. Þær búa að reynslunni og vita flestar hvernig í hlutunum liggur þó að þær hafi ekki hátt um það. Ég er margsinnis búin að reyna að koma óánægju minni á framfæri við Jón, en hann skilur ekki neitt. Gefur mér bara meira að éta til þess að þagga niður í mér.
Svo eru það þessir sem hafa bara eitt markmið í lífinu að því er virðist, það er ennþá síður hægt að tala við þá. Ég var fljót að átta mig á því að þeir þjóna bara einum tilgangi. Það þurfti ekki nema eitt skipti til. Sem betur fer þurfum við bara að umgangast þá einu sinni á ári.
Þarna kemur Jón með matinn loksins, þvílík læti, það er eins og þetta lið hafi aldrei fengið að éta áður. Ég reyni mitt besta til að halda í lámarks borðsiði, en það er erfitt þegar að við þurfum að borða eins hratt og hægt er til þess að verða ekki afétin.
Mikið væri nú gott að geta komist út eftir matinn, en það er víst ekki á boðstólnum. Löfum hérna inni heilu og hálfu dagana, og horfum á tímann líða. Það er ekki mjög gefandi.
“hvað ætli við fáum að borða í kvöld?”, spyr Gudda aðal moðhausinn í hópnum, þetta kemur af stað tilgangslausu spurningaflóði og vangaveltum í öllum hópnum. Skammtímaminnið er ekki gott og þær virðast ekki geta lagt saman tvo og tvo og fengið það út að við fáum alltaf það sama að borða þessa dagana. En þær virðast fá eitthvað út úr því að velta sér upp úr þessu. Ég sný mér bara upp í horn og reyni að ná smá kríu, en verður ekki mjög ágengt, það er frekar erfitt að festa blund í þessu fuglabjargi. Síðdegis kemst kyrrð á hópinn og þá er tækifærið til að dotta aðeins.
Ég rumska við læti í fjær endanum á húsinu, það virðast vera slagsmál í gangi. Róbert og Guðni virðast vera að setja sig í stellingar fyrir jólin, hver ráði á staðnum. Þeir eru báðir jafn sauðheimskir, en ég er hrifnari að Róbert, hann hefur svo góðleg augu og er alls ekki illa vaxinn í þokkabót. Synd að þeir skuli vera svona vitlausir. Lætin eru hætt og þeir virðast hafa komist að niðurstöðu um foringjahlutverkið, í bili að minnsta kosti.
Ég fer á fætur og rölti að eins um ég hef gott af því að teygja aðeins úr mér og að halda mér í formi. Þessi vöxtur er ekki gefins, ég hef alltaf reynt að passa upp á útlitið. Ég var talin afburðar falleg í mínum ungdómi og þess vegna valin, ég hef sjaldan verið stoltari. Ég skildi auðvitað ekki þá til fullnustu hvað fólst í því að vera “valin”, en það var a.m.k. stærsta stund lífs míns, og ég hef reynt mitt besta að standa undir því, þrátt fyrir tilgangsleysið.
Ég veit að Jón er ánægður með mig og mitt framlag, en oft á tíðum finnst mér hann hreinlega ekkert skilja það sem ég er að reyna að segja honum.
Lóa kemur haltrandi til mín, eitt sumarið lenti hún illa í óargardýrinu sem fylgir Jóni hvert fótmál, hefur aldrei náð sér síðan blessunin. Hún spyr mig hvort að það sé langt í kvöldmatinn, hún gerir það alltaf á hverjum degi. Ég lít upp og miða út stöðu sólarinnar og segi henni að það styttist óðum. Hún er sátt með það og haltrar til baka, hún er ósköp indæl greyið, hún má eiga það.
Stuttu seinna birtist Jón og það fer kliður um allt húsið. Við setjum okkur öll í stellingar og bíðum þess að fá kvöldmatinn. Um leið og Jón kemur með okkar skerf reyni ég enn einu sinni að segja honum hvað mér líði illa í þessum hóp og hvað það væri gott að vera færð til. En allt kemur fyrir ekki, hann þykist ekkert heyra. Ég missi matarlystina og klára ekki matinn minn. Báru við hliðina á mér til mikillar gleði sem lætur ekki segja sér það tvisvar og klárar matinn fyrir mig.
Ég leggst langþreytt í bælið mitt og hlusta á kliðinn í þessum sem eru að keppast við að klára að éta með, “þeir hæfustu lifa af”, hugarfari. Er þetta málið, verður þetta svona það sem eftir er? Alltaf sami hluturinn síendurtekinn. Ég er uppgefin og vil bara fá að sofa, kannski dreymir mig um betra líf eitt andartak. Á leiðinni yfir í draumaheiminn hugsa ég með mér að kannski í næsta lífi verð ég ekki bara kind.